Aðalfundur Mána 2024
Aðalfundur Mána fór fram þriðjudaginn 19.nóvember.
Vel var mætt á fundinn og fór hann vel fram. Skýrslur stjórnar og nefnda voru samþykkt ásamt því að reikningar voru samþykktir án athugasemda.
Máni fékk endurnýjun á viðurkenningu Fyrirmyndarfélags ÍSÍ. Er það okkur mikill heiður að fá þessa endurnýjun þar sem félagið var fyrsta hestamannafélagið til að hljóta þessa viðurkenningu. Eiður tók við viðurkenningu og nýjum fána frá Hafsteini Pálssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.
Stjórnin gaf kost á sér til áframhaldandi setu og var það samþykkt. Vilhjálmur Axelsson dró sig úr varastjórn og í hans stað kom Pétur Bragason.
Vel gekk að fá fólk til starfa í nefndir starfsársins og hlakkar stjórn til samstarfsins í vetur.
Signý Sól Snorradóttir var valin íþróttamaður Mána 2024 fyrir góðan keppnisárangur á árinu.
Systurnar Glósdís Líf og Helena Rán Gunnarsdætur fengu viðurkenningu fyrir keppnisárangur 2024.
Margeir Þorgeirsson fékk ræktunarverðlaun 2024 fyrir hæst dæmda hross í eigu Mánafélaga en það var hesturinn Gauti frá Vöðlum sem hlaut 8,52 í aðaleinkunn í sumar.
Líflegar umræður spunnust undir liðnum; Önnur mál. Margar góðar ábendingar bárust frá félagsmönnum sem stjórn mun taka til greina.
Stjórn þakkar fyrir síðastliðið starfsár og er nú þegar farin að vinna í verkefnum þess næsta.
Fundargerð má finna hér fyrir neðan myndirnar.
Aðalfundur Mána 2024
Haldinn 19.11.2024 í reiðhöll Mána kl.20.00.
Setning aðalfundar.
Eiður Gils, formaður félagsins setti fundinn kl: 20:05. Lagt var til að fundarstjóri yrði Gunnar Eyjólfsson og var það samþykkt án athugasemda. Fundarstjóri kom í pontu og staðfesti lögmæti fundarins. Gunnar býður Eið formanni orðið.
Mættir á fund eru 42 manns.
Skýrsla stjórnar:
Eiður Gils les upp skýrslu stjórnar, fundarstjóri býður fólki upp á að gera athugasemdir sem engar komu fram eftir lestur skýrsluna.
Skýrslur nefnda kynntar:
Kvennanefnd sýnir sína skýrslu en Eiður formaður les upp skýrsluna.
Ferða og skemmtinefnd Vilhjálmur les upp þeirra skýrslu.
Reiðhallarnefnd Lóa les upp skýrslu reiðhallarnefndar.
Fræðslunefnd Elfa las upp skýrslu fræðslunefndar. Talar um komandi vetur sem er allur að verða komin í gang.
Æskulýðsnefnd Birna les upp skýrslu æskulýðsnefndar.
Var klappað vel í lok á upplestri frá hverri nefnd fyrir sig.
Gunnar fundarstjóri býður nú Þóru til pontu til að lesa upp ársreikning félagsins.
Reikningar félagsins:
Þóra les upp ársreikning félagsins. Hann hefur að geyma rekstrar og efnahagsreikning félagsins. Fundarstjóri kannar með athugasemdir við ársreikning, engar athugasemdir komu fram.
Reikningar samþykktir.
Afhending viðurkenningar vegna Fyrirmyndar félags ÍSÍ
Hafsteinn Pálsson í framkvæmdarstjórn ÍSÍ kemur í pontu til að endurnýja viðurkenningu um fyrirmyndar félags.
Hafsteinn bendir á að Máni hafi verið fyrsta félagið til að hljóta þessa viðurkenningu árið 2003. Framkvæmdastjórn og stjórn ÍSÍ skilar bestu kveðjum til stjórnar fyrri vel unnin störf.
Spurt úr sal um hversu mörg hestamannafélög eru með þessa viðurkenningu og Hafsteinn gat ekki farið með það en vissi um Hörð, Sleipnir og Léttir.
Kosning í stjórn:
Laust er sæti Formanns og Eiður býður sig aftur fram, Gunnar óskar eftir mótframboði en engin býður sig á móti svo Eiður er sjálfkjörin áfram til 1 árs.
Þóra og Jóhann boða sig áfram fram og engin býður fram á móti hvorki Þóru né Jóhanns.
Lóa og Vilhjálmur í varastjórn eru til 1 árs, Lóa býður sig fram áfram en Vilhjálmur ekki, Pétur Bragason býður sig fram í varastjórn.
Kvennanefnd: Kara, Birna, Svanlaug og Elín Sara
Skemmtinefnd: Kristján, Jóhanna, Klara, Aldís, Guðrún Úrsúley og Jón Þór
Mótanefnd: Elín Sara, Linda, Glódís og Sylvía Sól
Æskulýðsnefnd: Guðrún Úrsúley, Jón Þór og Aldís
Fræðslunefnd: Elfa, Franziska, Valdís og Sandra
Reiðveganefnd: Gunnar og stjórn
Reiðhallanefnd: Lóa og Kolbrún
Skoðunarmenn fyrir ársreikninga ársins 2025, Jón Ólsen og Rúnar Bjarnason.
Afhending viðurkenninga
Þóra afhendir viðurkenningu til Glódísar og Helenu, ræktunarverðlaun fær Margeir Þorgeirsson. Margeir talar um hversu flott félagið okkar er miðað við að þetta er 3 sinn sem félagið fær þessa viðurkenningu, hann býður flottan stóðhest til afnota fyrir Mánamenn
Signý Sól var valin íþróttamaður Mána 2024, Hrönn móðir hennar tekur við verðlaunum fyrir hana.
Í kaffihléi var boðið upp á kaffi og brauðtertur.
Kynnt voru Petra og Sigurður frá svæðastöð UMFÍ og ÍSÍ.
Eiður talar um afmælisnefndina en vill boða til jólaglöggs og óska eftir fólki í nefnd.
Margeir minnist á að fyrir 40 afmælið voru sóttir félagsmenn til að ná sem stærsta afmælinu með mesta fjöldann.
Hækkun félagsgjalda - engin breyting.
Þóra les upp nýja félagsmenn ársins 2024, 19 manns, félagsmenn orðnir 397.
Önnur mál:
Vilhjálmur spyr um tryggingar á reiðhöllinni en hún er inn í reiðhalla tölunni.
Þorgeir kemur með tillögu að það séu rólegir tímar fyrir konur eða minna vana inn í höllina.
Fleiri kvörtuðu um framkomu og hraða inn í reiðhöllinni.
Rúnar vill leggja til að keyptar væru 50 plöntur til að planta meira í tryppa hringinn, Eiður svarar og bendir á fulltrúa svæðisstöðvar UMFÍ/ÍSÍ sem eru á fundinum og hægt væri að sækja í sjóði til að fá styrki til að fá plönturnar. Kristín bendir á að hann Gunnar Auðuns sé í raun frumkvöðull í þessu en hann talar um að móðir sín væri það. Viðar talar um að sækja þurfi leyfi til að fá að planta þessum trjám alla vega miðað við hvernig var komið fram við Eið vegna endurgerðar á reiðveginum. Kristín spyr hvort við viljum fá þessa styrki og Eiður svarar að það vill hann.
Kristmundur spyr um hringgerðið sem var sett upp, finnst þessi staðsetning ekki nægilega góð, hvort væri hægt að setja það á annan stað en þeir staðir eru ekki í eigu Mána.
Ásdís tekur til máls og talar um búnað sem væri ekki sá allra besti hér hjá okkur en þaðan sem hún kemur var það til fyrirmyndar, brokkstífur.
Sigmar talar um öryggismál, hann vill að reiðmaðurinn sé með endurskini en hann var næstum búin að keyra á einn sem var allur svartklæddur og á brúnum hesti.
Vilhjálmur talar um öryggi tryppahrings frá hól að vegi, setja upp vír svo hross nái ekki að hlaupa upp á veginn.
Kara spyr hvort að það verði bætt við lýsingu á reiðvegi frá tryppahring að reiðhöll.
Eiður biður fólk vinsamlegast að ríða sem oftast á nýlagaða reiðveginum og höfum hátt.
Vilhjálmur talaði við aðila úr Garði hvort það væri hægt að setja upp gerði við endann á reiðvegi út í Garð, í jaðri bæjarins, og það var jákvætt en best að væri að senda á Suðurnesjabæ fyrirspurn. Fær svar um að þetta land sé í eigu Jónasar.
Eiður minnist á styrki frá LH fyrir reiðvegum sem við höfum fengið að upphæð 800þúsund og 1 miljón en munum sækja um aftur og þá á að setja grunn fyrir reiðveg meðfram grundinni vestan megin og verðum að vera sem næst girðingunni, hvenær svo sem hann verður lagður.
Ásta spyr hvort að það sé hægt að bæta við beitarhólfum þar sem engin skilar inn hólfum, Eiður svarar reynt var að bæta við dagbeitarhólfum i sumar. Hún vill fá sitt eigið hólf þar sem 1 hestur hennar er barin í spað inn á grundinni. Jens bendir á að Mönin hafi verið til skammar en þar voru hestar í rigningu á beit en Eiður bendir á að það hafi ekki verið leyfilegt.
Elísa spyr hvort að það sé hægt að hafa til taks á heimasíðunni reiðleiðakort af svæðinu svo nýjir félagar sjái hvar hægt sé að ríða.
Ólafur tekur til máls vegna stórafmælisins, fékk danskennara þegar hann var formaður til að kenna fólki, mikið hlegið því að allir töldu sig geta dansað. Gunnar hóar í Franzisku um að setja á laggirnar danskennslu.
Pétur bendir Elísu á að hann kunni ýmsar reiðleiðir og er alveg til í að útbúa kort af reiðleiðum og pósta og einnig að hægt sé að koma með sér í reiðleiðir. Fer frekar upp í heiði en inn í höllina. Gunnar bendir á að það væri frábært ef Pétur sé til í að taka þetta að sér um að stika á kort hvar væri best að fara á vorin sem síðan væri sett inn á heimasíðuna. Óli segist eiga kort í sínu hesthúsi af reiðleiðum hjá Sörla.
Kristín talar um jarðvegsskipti í gerðum og það er notað í reiðvegi meðal annars eins og Gunnar Auðuns bendir á
Eiður Gils slítur fundi 9:36
Ritari: Fríða Björk Elíasdóttir
Comentários