top of page

Íslandsmót

Íslandsmót ungmenna & fullorðinna í hestaíþróttum fór fram dagana 28.júní til 2.júlí 2023 á svæði hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi.


Hestamannafélagið Máni átti þar tvo fulltrúa, systurnar Jóhönnu Margréti og Signý Sól Snorradætur.

Jóhanna Margrét keppti í meistaraflokki, í 4-gangi V1 og tölti T1 á Bárði frá Melabergi, einnig keppti hún á Kormáki frá Kvistum í 4-gangi V1 og á Bríeti frá Austukoti í flugskeiði P2.

Signý Sól keppti í ungmennaflokki á Kolbeini frá Horni I í 4-gangi V1 og tölti T1 og á Rafni frá Melabergi í slaktaumatölti T2.


Þær eru báðar í landsliði Íslands í hestaíþróttum og koma sterklega til greina um val á keppendum sem fara fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramót íslenska hestsins 2023 sem fram fer í Hollandi í ágúst nk.

Signý Sól og Kolbeinn stóðu í ströngu í gífurlega sterkri keppni í ungmennaflokki. Þau stóðu sig ótrúlega vel og enduðu ofarlega í úrslitum eftir forkeppni, 2. Sæti í 4-gangi V1 og í 3 sæti í tölti T1 þar sem nokkrar kommur skildu að efstu knapa. Í úrslitum héldu þau sínu sæti í 4-gangi V1 eftir hörku keppni og munaði einungis 0,3 á þeim og efsta hesti. Í tölti T1 hækkuðu þau sig um sæti og enduðu í 2.sæti.

Signý Sól og Rafn komust í úrslit í slaktaumtölti T2 og enduðu þar í öðru sæti. Enn og aftur hörku keppni og mjög mjótt á munum á milli keppenda.


Jóhanna Margrét og Bárður urðu efst eftir forkeppni í báðum greinum, í 4-gangi með einkunnina 7,9 og í tölti með einkunnina 8,9. Óhætt er að segja enginn hafi náð að ógna þeim í toppbaráttunni og fór svo að þau unnu báðar greinar með yfirburðum. Þar með vörðu þau titilinn í 4-gang V1 síðan í fyrra og hittifyrra en þetta er 3ja árið í röð sem þau verða Íslandsmeistarar í V1 meistaraflokki.

Þau náðu einnig þeim ótrúlega árangri að fá 9,11 í lokaeinkunn í tölti meistara með nokkrar 9,5ur og eina 10! Sturluð staðreynd: hún er önnur konan sem verður Íslandsmeistari í tölti T1 á síðastliðnum 33 árum en síðast vann kona T1 árið 1990!

Jóhanna Margrét varð þar með 3faldur íslandsmeistari þetta árið þar sem hún varð einnig samanlagður fjórgangssigurvegari.

Hún hlaut einnig FT fjöðrina fyrir sýningar sínar á Bárði í fjórgangi og tölti í meistaraflokki með eftirfarandi umsögn:

Stórkostleg útgeislun og glæsileiki einkenna þetta par. Það sópar að þeim þar sem þau koma fram. Reiðmennskan er frábær og þau dansa saman á vellinum sem eitt.

Jóhanna Margrét er fyrirmynd bæði innan vallar sem utan, kurteis og prúð.

FT fjöðrin eru reiðmennskuverðlaun Félags Tamningamanna. Fjöðrin er veitt á stærstu mótum keppnistímabilsins. Verðlaunin eru veitt fyrir einstaka útgeislun knapa og hests

Gaman er að geta þess líka að Rafn frá Melabergi er ræktaður af foreldrum systranna og Bárður frá Melabergi er ræktaður af Mánafélaganum Gunnari Auðunssyni.


Bróðir þeirra, Ásmundur Ernir Snorrason, er uppalinn í hestamannafélaginu Mána þó hann keppi nú fyrir annað félag. Hann er einnig í landsliði Íslands í hestaíþróttum og kemur þar með einnig til greina sem knapi á HM 2023. Hann keppti í nokkrum greinum á Íslandsmótinu og ber þar hæst að nefna keppni hans í slaktaumatölti T2 á Hlökk frá Strandarhöfði. Þau stóðu efst eftir forkeppni í T2 með 8,13 og eftir spennandi keppni í úrslitum þá enduðu þau jöfn öðru pari í efsta sæti með einkunnina 8,42.


Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.

Það er óhætt að segja að það sé mikil spenningur þessa dagana þangað til valið verður í landsliðið.


86 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page