top of page

Lög Hestamannafélagsins Mána

1. grein 
Félagið heitir hestamannafélagið Máni. Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ. Félagssvæðið er Reykjanesskaginn sunnan Hafnarfjarðar. Félagið er aðili að ÍBR og ÍSÍ , og því háð lögum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar. 

2. grein 
Markmið félagsins er að efla áhuga á hestum og hestaíþróttum og jafnframt gæta hagsmuna félaga sinna á því sviði. Einnig skal félagið stuðla sérstaklega að fræðslu og þjálfun unglinga og barna í hestaíþróttum. Þessu markmiði hyggst félagið ná með því meðal annars að: 

 

 1. Að gangast fyrir kennslu og þjálfun knapa og hests. Efla áhuga almennings með fræðslu og upplýsingastarfsemi um hestaíþróttir og hrossarækt. 

 2. Að halda mannvirkjum í eigu félagsins í sem bestu ástandi. Að tryggja að félagsmenn hafi aðgang að góðum keppnisvöllum er svari til þeirra krafna er gerðar eru til slíkra mannvirkja á hverjum tíma. Að kappreiðar og aðrar keppnisíþróttir verði háðar og sýningar haldnar á vegum félagsins eins oft og henta þykir. 

 3. Að beita sér fyrir því, að umferðarréttur sé ávallt tryggður hjá skipulagsyfirvöldum í þéttbýli og að reiðvegir séu teknir inn í skipulag. Enn fremur að láta gera kort af reiðvegum og sjáum að slík kort séu ávallt til reiðu fyrir sveitastjórnir og notendur slíkra vega. Áningarstaðir séu merktir og þeim haldið við til notkunar. 

 4. Að stuðla að því, að félagsmenn geti haft sameiginlega vetrarfóðrun, sumarhaga og hirðingu á reiðhestum sínum, enda sé húsnæði, fóðrun og hirðing og öll önnur meðferð hestanna þannig að til fyrirmyndar sé. 

 

3. grein 
Félagi í hestamannafélaginu getur hver orðið er þess óskar. Nýjir félagar öðlast öll félagsréttindi með greiðslu árgjalds önnur en atkvæðisrétt á fundum. Atkvæðisrétt öðlast hann þegar félagsfundur hefur samþykkt umsóknina. Félagsmenn undir 16 ára aldri hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum. 

 

4. grein 
Félagsmaður sem skuldar árgjald sitt eða stendur í skuld við félagið að öðru leyti, skal ekki njóta neinna félagsréttinda í félaginu á nýju starfsári, s.s., atkvæðisréttar á fundum og aðalfundi félagsins, svo og afnot af eignum félagsins og þátttaka í mótum þess, fyrr en hann hefur greitt að fullu skuldir sínar við félagið, enda sé um vanskil að ræða. Sá félagsmaður sem ekki greiðir árgjald sitt almanaksárið skal sjálfkrafa strikaður út úr félagatali þess og vikið úr félaginu og ekki verða félagsmaður að nýju fyrr en hann hefur greitt allar eldri skuldir við félagið. 

 

5. grein 
Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Stjórnarkjör skal fara fram á aðalfundi. Formaður skal kosinn árlega en tveir stjórnarmenn annað hvert ár og skiptir hún með sér verkum að öðru leyti. Einnig skal kjósa tvo varamenn til eins árs. Aðalfundur kýs til eins árs tvo bókhaldsfróða menn og einn til vara , til þess að endurskoða reikninga félagsins. Endurskoðendur þurfa ekki að vera félagsmenn. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa það málfrelsi og tillögurétt. Komi til atkvæðagreiðslu í fjarveru aðalmanna, taka varamenn sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæðafjölda. Forfallist ritari eða gjaldkeri, skipar stjórnin einhvern úr sínum hópi í þeirra stað. Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórninni yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess, eins og ákvörðun aðalfundar og lög félagsins mæla fyrir. Hann boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Skylt er honum einnig að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Varaformaður gegnir stöðu formanns í forföllum hans en tekur þess utan fullan þátt í almennum stjórnarstörfum. Ritari heldur gerðabók um alla starfsemi félagsins og honum ber að varðveita öll skrifuð gögn og annað sem viðkemur starfseminni. Hann skal í umboði stjórnar sjá um útsendingu fundarboða og annarra nauðsynlegra tilkynninga til félagsmanna. Gjaldkeri hefur allar fjárreiður félagsins með höndum og sér um innheimtu félagsgjalda og annarra tekna sem til félagsins falla ásamt því að hafa fjármuni félagsins ávallt á bestu fáanlegu vöxtum. Hann skal annast allt er lýtur að skráningu félaga og halda um það spjaldskrá. Meðstjórnandi annast sérstök tímabundin störf í umboði stjórnar og taka að sér störf sem ekki eru sérstaklega með lögum þessum sett undir önnur embætti. 

 

6. grein 
Stjórn félagsins boðar félagsfundi eins oft og þurfa þykir eða minnst tíu félagsmanna sækja þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fundir skulu auglýstir á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins með minnst viku fyrirvara. Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað . Formaður eða staðgengill hans setur fundi og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins. Hinn kjörni fundarstjóri úrskurðar í byrjun fundarins hvort löglega hafi verið til hans boðað og hvort hann sé lögmætur. Sé fundur ekki lögmætur, má boða til hans að nýju á sama hátt og að framan greinir og er hann þá lögmætur án tillits til þess hver margir eru mættir. 

 

7. grein 
Reikningsár félagsins er 1.október til 30.september. Árgjald félaga skal ákveða á aðalfundi árlega. Skal það greiðast fyrir 1. febrúar ár hvert. 

 

8. grein 
Aðalfund skal halda fyrir nóvemberlok ár hvert og skal til hans boðað á sama hátt og getið er um í 6. grein hér að framan. Sé um lagabreytingar að ræða þá skal þess sérstaklega getið í fundarboði og skal tekið fram hvaða grein á að breyta. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi hjá formanni eða gjaldkera, félagsmönnum til athugunar, í sjö daga fyrir aðalfund. Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins skulu vera skriflegir og fjölritaðir á aðalfundi fyrir fundarmenn. Dagskrá aðalfundar sé: 

 

 1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. 

 2. Formaður eða talsmaður stjórnar flytur skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins. 

 3. Gjaldkeri les og skýrir reikninga félagsins sem skulu vera endurskoðaðir af kjörnum endurskoðendum og skal bera reikninga undir atkvæði. 

 4. Kosin stjórn og varastjórn skv. 5. grein. 

 5. Lagabreytingar. 

 6. Ákvörðun félgasgjalda skv. 7. grein. 

 7. Inntaka nýrra félaga. 

 8. Önnur mál. 


9. grein 
Ævifélagar greiði tvítugfalda fjárhæð ársgjalds í eitt ár fyrir öll og njóti sömu réttinda og aðrir félagsmenn til æviloka. Þeir félagar er náð hafa 67 ára aldri, skulu undanþegnir greiðslu árgjalds. 

 

10. grein 
Stjórn félagsins er heimilt að tilnefna heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sýnt hafa frábæran áhuga og hæfni í störfum sínum til eflingar félaginu og áhugamálum þess. Merki félagsins í gulli skal fylgja útnefningunni. 

 

11.grein 
Stjórn félagsins er óheimilt að selja og eða veðsetja fasteignir félagsins, kaupa fasteignir, eða hefja byggingu húsa nema með samþykki lögmæts félagsfundar komi til. Ef stjórnin hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun, skal geta þess í fundarboði. 

 

12. grein 
Stjórn félagsins skal setja reglur um hvers kyns rekstur á vegum félagsins og birta skal slíkar reglur jafnóðum, á sama hátt og aðrar orðsendingar sem félagið sendir frá sér. 

 

13. grein 
Heimilt er félaginu með samþykki félagsfundar, að gerast aðili að almennum samtökum, sem teljast á sviði áhugamála er félagið hefur á stefnuskrá sinni. 

 

14. grein 
Halda skal árlega árshátíð félagsins. Stjórn félagsins sér um undirbúning og framkvæmdir en henni er heimilt að kveða sér 3 félaga til aðstoðar. Séu fleiri skemmtisamkomur haldnar á vegum félagsins, skal stjórnin gæta þess að þær verði ekki fjárhagsleg byrði fyrir félagið. 

 

15. grein 
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi þar sem mættur er minnst 1/5 – einn fimmti – hluti lögmætra félagsmanna, og 2/3 – tveir þriðju – greiddra atkvæða samþykki breytinguna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsaðalfundar og öðlast þá áður framkomnar tillögur til lagabreytinga gildi ef 2/3 – tveir þriðju – hlutar fundarmann samþykki þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn kunna að vilja bera fram, skulu berast stjórninni eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Tillögur um lagabreytingar skulu liggja frammi í skrifstofu félagsins og skal geta þeirra í fundarboði. 

 

16. grein 
Ef um ræðir að leysa félagið upp, verður það að gerast á lögmætum fundi, þar sem mættir eru minnst ¾ - þrír fjórðu – félagsmanna, og verður það þá því aðeins gert að 2/3 – tveir þriðju – hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti verðurað kalla saman fund að nýju, og verður þá félagið leyst upp á löglegan hátt, ef 2/3 – tveir þriðju – hlutar félagsmanna, án tillits til þess, hve margir eru mættir á fundinn greiða því atkvæði. Fundurinn tekur ákvarðanir um ráðstöfun á eignum félagsins ef einhverjar eru. Þetta verður þá ekki gert nema að félagsstarf hafi legið niðri í það minnsta þrjú ár og með vitund ÍSÍ og ÍRB. 

 

17. grein 
Með lögum þessum eru fallin úr gildi eldri lög hestamannafélagsins Mána. Lög þessi öðlast gildi þannig samþykkt á aðalfundi 15.maí 2024.

bottom of page