Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Máni hefur verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ síðan 2003. Félagið var eitt af fyrstu fyrirmyndarfélögum ÍSÍ og var fyrsta hestamannafélagið sem hlaut þá viðurkenningu. Á aðalfundi Mána þann 20.nóvember sl. fengum við endurnýjun en félagið hefur endurnýjað viðurkenninguna á 4 ára fresti. Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ afhenti formanni okkar, Gunnari Eyjólfssyni viðurkenninguna ásamt fána Fyrirmyndarfélags ÍSÍ.

Stjórn og nefndir

Stjórn Mána 2019

20.11.2018

Stjórn Mána 2019, kosin á aðalfundi 20.nóvember 2018.

Formaður
Gunnar Eyjólfsson
Sími 860-5228
mani@mani.is

Gjaldkeri
Þóra Brynjarsdóttir
Sími 893-0304
gjaldkeri@mani.is

Varaformaður

Gunnar Auðunsson

Ritari
Ólafía Guðrún Lóa Bragadóttir

Sími 893-1252

Meðstjórnandi
Þorgeir Margeirsson

Varamenn í stjórn
Sigurður Kolbeinsson

Sigmar Björnsson

Aðalfundur og Skýrslur nefnda 2018

11.11.2018

Aðalfundur Mána fór fram þriðjudaginn 20.nóvember sl. í Reiðhöll Mána. Mættir voru rúmlega 30 félagar á fundinn. Að venju voru hefðbundin aðalfundarstörf, sjá má fundargerð fundarins hér að neðan. Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan keppnisárangur ásamt því að íþróttamaður Mána var tilnefndur, en það er hann Ásmundur Ernir Snorrason. Einnig voru veitt verðlaun fyrir ræktunarhross ársins ræktað og í eigu Mánafélaga. Það er hún Freyja frá Vöðlum í eigu Margeirs Þorgeirssonar og Ástríðar Guðjónsdóttur. Máni fékk endurnýjun fyrirmyndarfélags ÍSÍ, Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ afhenti formanni félagsins viðurkenninguna. Er stjórnin afar stolt af þessari viðurkenningu og er viss um að félagsmenn séu það einnig. Að reka svona félag gengur ekki nema allir félagsmenn standi og vinni saman að sameiginlegum markmiðum félagsins og félagsmanna þess, það er að njóta útiverunnar og njóta félagsskaparins við hesta og menn. Stjórnin þakkar fyrir gott ár, þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við vinnu eða félagsstarf fyrir félagið á árinu og vonumst til að eiga áframhaldandi gott samstarf við félagsmenn í framtíðinni.

Gleðilega hátíð til ykkar allra.

Stjórnin

Lög hestamannafélagsins Mána

Lög félagsins staðfest á aðalfundi 21. nóvember 2017 

  Stiklað á stóru í sögu félagsins

Fundagerðir og blaðagreinar 1965 til 2014

„Fyrir aldalanga og dygga þjónustu fékk íslenski hesturinn í rás tímanna sæmdarheitið „þarfasti þjónninn". Var hann vel að þeirri nafngift kominn, enda fól hún óbeint í sér þakklæti þjóðarinnar og hlýjar kenndir til þessa fagra og föngulega grips, sem hafði verið trúr og dyggur förunautur Íslendingsins frá fyrstu tíð og þolað með honum súrt og sætt í harðvítugri lífsbaráttu. Þegar svo bílaöld hófst hér á Íslandi, varð á tímabili hljótt um hestinn, hinu þýðingarmikla hlutverki hans í búskaparsögu landsmanna virtist í stórum dráttum lokið og flestir höfðu á samri stundu gleymt tilveru hans og yndisþokka. 
Í flestum byggðarlögum voru þó menn, sem héldu órofa tryggð við hestinn og slitu aldrei við hann samvistum. Í þeirra hópi vil ég nefna hér á Suðurnesjum: Guðmund Elíasson í Keflavík, Þórð Guðmundsson í Sandgerði og Kristinn Hákonarson í Hafnarfirði, en hann var um eitt skeið búsettur hér í Keflavík. Þessir menn eru aðeins örfá dæmi, gripin af handahófi úr flokki góðra hestamanna, sem ekki létu þægindi bílsins glepja um fyrir sér hvað áhrærði ferðalög á frjálsum stundum ársins. Nú á síðustu tímum hefur orðið mikil breyting í þessum efnum. Áhugi manna á bílnum sem skemmtiferðatæki hefur minnkað til muna, en að sama skapi hefur hesturinn vaxið mjög í áliti. Gildir þetta jafnt út um sveitir landsins og í bæjunum, og engu síður hjá ungu kynslóðinni en þeirri gömlu. Menn hafa sem sé á ný uppgötvað yndisleik hestsins, gangtöfra hans og andans göfgi, og eru nú stofnuð hestamannafélög vítt og breitt um landið, í byggð og bæ. 
Eitt slíkt félag sá dagsins ljós hér í Keflavík þann 6. desember 1965. Ber það nafnið Hestamannafélagið Máni. Hvatamenn að stofnun þessa félags voru nokkrir áhugasamir hestamenn hér á Suðurnesjum. Stofnfélagar voru 40 og munu sjálfsagt margir bætast við í félagið, þegar það tekur til starfa. Í eigu félagsmanna munu nú vera um 50 hestar. Þórður Guðmundsson á Mána, sem hestamannafélagið er nefnt eftir.“
 Faxi desember 1965
 
1966
Ætla má að Hestamannafélagið Máni hafi verið með því fyrsta í samstarfi Suðurnesjabúa í einni félagsheild. Fyrsta stjórn Hestmannafélagsins Mána 1966 var skipuð eftirtöldum aðilum:
Hilmar Jónsson formaður
Birgir Scheving ritari
Maríus Sigurjónsson gjaldkeri
Valgeir Helgason varaformaður
Þórður Guðmundsson meðstjórnandi
Varamenn voru þeir Sigtryggur Árnason og Guðmundur Elísson.

Allir stjórnarmenn mættu á fyrsta stjórnarfund félagsins sem haldin var 5. jan. 1966. Þar voru ýmis mál til umræðu, þar á meðal hagbeit, hesthúsamálin og innganga í Landssamband hestamanna. Samþykkt var að kanna möguleika á að ná samningum um hagbeit við eigendur að Fitjum og ræða við þá menn sem hefðu afgirt svæði til ráðstöfunar, t.d. Gísla Sighvatsson í Garði. Talið var rétt að stjórnin kynnti sér hesthúsamálin betur. Tillaga var samþykkt um að leggja fyrir aðalfund að ársgjöld félagsmanna væru kr. 250 fyrir fullorðna og kr. 50 fyrir yngri en 16 ára. Samþykkt var að ganga í Landssamband hestamanna og þeim sent inntökubréf.
Á næsta stjórnarfundi þann 2. febrúar var ákveðið að senda þá Hilmar Jónsson og Viðar Jónsson á dómaranámskeið hjá Landssambandi hestamanna haldið í Reykjavík 12. – 13. feb. 1966. Aðeins hálfum mánuði síðar var ákveðið að senda Landshöfn Keflavíkur eftirfarandi bréf:
„Hestamannafélagið Máni í Keflavík fer þess á leit við yður að þér leyfið oss afnot af landi því austan Steypustöðvar Suðurnesja og inn að Innri Njarðvík. Land þetta hugsum við okkur að girða fyrir hestabeit á meðan framkvæmdir eru ekki hafnar á svæðinu.“
Þá var ákveðið að senda Finnboga Guðmundssyni Tjarnarkoti bréf þar sem félagið óskar eftir afnotum af landshluta hans austan Steypustöðvar Njarðvíkur að Innri Njarðvíkurbyggð þar sem félagið hugsar sér að girða fyrir hestabeit. Félagið lét ekki staðar numið við þessi bréfaskipti heldur ritaði bæjarstjórn Keflavík eftirfarandi bréf 10. mars:
„Háttvirta bæjarstjórn.
Hestamannafélagið Máni Keflavík fer þess vinsamlegast á leit við háttvirta bæjarstjórn að hún sjái sér fært að veita félaginu aðstöðu fyrir framtíðarsvæði og fjárhagsstuðning við fyrirhugaðar framkvæmdir.“ 
Loks var hreppsnefnd Njarðvíkur sent eftirfarandi bréf:
„Hestamannafélagið Máni Keflavík fer þess vinsamlegast á leit við yður að þér leyfið oss afnot af landi austan Steypustöðvar Suðurnesja og inn að Innri Njarðvík. Land þetta hugsum við okkur að girða fyrir hesta hagbeit á meðan framkvæmdir eru ekki hafnar á svæðinu. Leyfi hefur fengist af hálfu Landshafnar Keflavíkur og umsókn hefur þegar verið send landeigendum í Innri Njarðvík.“
Miðvikudaginn 3. ágúst var haldinn fundur í stjórninni og til umræðu voru framtíðarhorfur félagsins og þá aðallega hesthúsamálin. Var ákveðið að senda bæjarstjórn Keflavíkur bréf þar sem þess var farið á leit að hún úthlutaði félaginu til framtíðar svæði til hesthúsabyggðar ásamt tilheyrandi hlöðu og athafnasvæði í kring og hentugt svæði til beitar hestum félagsmanna. Lögð var áhersla á að þessi málaleitan fengi sem hraðasta afgreiðslu
Ákvörðun var tekin um að koma af stað firmakeppni og halda hana að Ásgarði við Garðskagavita. Þáttökugjaldið var kr. 500. Þá var samið bréf og sent hreppsnefnd Njarðvíkur þar sem þess var vinsamlegast á leit við hreppsnefndina að hún sjái sér fært að lagfæra gamla þjóðveginn í gegnum Njarðvíkur þar sem ofaníburður hefur verið tekinn úr honum þannig að þar verði auðveldlega fært ríðandi mönnum. Á umræddum stað er ekki um annan greiðfæran veg að ræða en hinn malbikaða þjóðveg sem varla getur talist heppilegur sem reiðvegur vegna þess að ríðandi menn myndu skapa umferðarhættu. Þá var samþykkt að kalla til almenns félagsfundar með því að áhugi kom fram meðal stjórnarinnar um að festa kaup á jörðinni Ásgarði í Miðneshreppi. 
Fyrsta firmakeppnin 
Sunnudaginn 4. sept. 1966 kl. 2 e.h. fór fram firmakeppni á vegum hestamannafélagsins Mána. Keppnin fór fram á Ásgarði í Miðsneshreppi. Þetta var fyrsta hestamót félagsins og jafnframt fyrsta mót sinnar tegundar á Suðurnesjum. Veður var hið ákjósanlegasta og áhorfendur um 500. Eftirtalin fyrirtæki og hestar styrktu félagið með kr. 500 hvert :
1. Neisti 8 vetra rauður. Eigandi Guðmundur Elíasson. Aðalstöðin.
2. Smári 7 vetra grár, Ólafur Sveinsson. Verslun Friðjóns Þorleifssonar.
3. Vinur 10 vetra grár Ólafs Sveinssonar. Verslunin Kyndill
4. Dreki 7 vetra grár. Hilmar Jónsson. Blikksmiðjan Hringbraut.
5. Grani 8 vetra grár. Hilmar Jónsson. Veiðiver.
6. Stúfur 5 vetra grár. Óskar Axelsson. Verslun Hauks Ingasonar
7. Lýsa 9 vetra leirljós. Jón Jóhannsson. Skóverslun Sigurbergs Ásbergssonar
8. Lýsingur 9 vetra leirljós. Ólafur Gunnarsson. Olíufélagið.
9. Bakkabrúnn 6 vetra brúnn. Maríus Gunnarsson. Útgerð Guðmundar Jónssonar.
10. Glæsir 7 vetra brúnn. Arnoddur Tyrfingsson. Friðjónskjör.
11. Blakkur 7 vetra brúnn. Guðmundur Elíasson. Aðalverktakar.
12. Krummi 10 vetra. Hrafn Sveinsson. Miðnes hf.
13. Þráinn 5 vetra. Guðlaug Bergmann. Stapafell.
14. Gletta 6 vetra. Kári Jónsson. Bílaleigan Braut
15. Kolbrún 6 vetra brún. Jón Jóhannsson. Gunnarsbakarí
16. Hvalur 9 vetra rauður. Maríus Gunnarsson. Raftækjavinnustofa Harðar Jóhannssonar
17. Logi 6 vetra rauður. Skúli Eyjólfsson. Verslunarbankinn.
18. Litli Rauður 9 vetra. Elías Guðmundsson. Bílasprautun Suðurnesja.
19. Blesi 7 vetra rauðblesóttur. B. Scheving. Brekkubúð.
20. Blesi 5 vetra. Ingvar Ólafsson. Útvegsbankinn.
21. Lubbi 4 vetra. Viðar Jónsson . KSK.
22. Léttir 4 vetra bleikblesóttur. Hilmar Jónson. Nýja bíó.
23. Vindur 6 vetra rauðvindóttur. Heimir Ingvason. Tjarnarkaffi.
24. Bleikur 9 vetra, bleikálóttur. Ólafur Gunnarsson. Ísbarinn.
25. Sörli 6 vetra jarpur. Valgeir Helgason. Aðalsteinn Gíslason rafvirki.
26. Espólín 7 vetra jarpur. Jóhann Jónsson. Kraninn hf.
27. Jarpur 5 vetra. Guðjón Guðmundsson. Nonni og Bubbi Sandgerði.
28. Fífill 6 vetra ljósskjóttur. Sæþór Þorláksson. Keflavíkurverktakar.
29. Neisti 6 vetra rauðskjóttur. Jóhann Jónsson. Bílasprautunin Vatnsnesvegi.
30. Sokka 6 vetra rauðskjótt. Kristján Sigurðsson. Apótek Keflavíkur.
31. Höttur 5 vetra móskjóttur. Árni Sigurðsson. Fons.
32. Kópur 7 vetra. Rúnar Sigtryggsson. Loftleiðir hf.
33. Draumur 6 vetra skjóttur . Ólafur Gunnarsson. Samvinnubankinn.
34. Höttur 7 vetra skjóttur. Valgeir Helgason. Verslun Ingimundar Jónssonar
35. Garpur 8 vetra bjartskjóttur. Ólafur Gunnarsson. Verslunin Lyngholt.
36. Skotti 9 vetra. Brúnskjóttur. Sigurbjörn Guðjónsson. Prentsmiðja Suðurnesja.
Sigurvegari í firmakeppninni var Vinur 10 vetra grár, eigandi Ólafur Sveinsson sem keppti fyrir verslunina Kyndil í Keflavík. KSK gaf farandbikar sem kallast Kaupfélagsbikarinn. Önnur verðlaun hlaut Dreki eign Hilmars Jónssonar. Hann keppti fyrir Blikksmiðjuna Hringbraut. Þriðju verðlaun hlaut Lýsa, eign Jóns Jóhannsson í Sandgerði. Hún keppti fyrir Skóvinnustofu Sigurbergs Ásbergssonar í Keflavík.
Þá fór fram keppni í 250 metra stökki. Friðjón Þorleifsson gaf bikar í þeirri keppni.Nr. 1 var Smári, eign Ólafs Sveinsson, og nr. 2 var Krummi, eigandi Hrafn Sveinsson, bróðir Ólafs. Dómnefnd var skipuð af stjórn félagsins eftirtöldum mönnum:
Formaður Bogi Eggertsson, hinn skörulegasti hestamaður
Stefán Friðbjörnsson bóndi Nesjum
Sigurður Vilhjálmsson.
 
Vallarstjóri var Sigtryggur Árnason og höfðu félagsmenn einnig veitingasölu á staðnum. Mót þetta þótti takast með prýði í alla staði.
Miðvikudaginn 5 okt. var fundur haldinn í stjórn Mána og voru varamenn einnig boðaðir. Til umræðu var á fundinum bréf frá Landssambandi hestamanna um ársþing þeirra sem haldið skyldi í Hornafirði. Fram kom að félagið hefði rétt til að senda tvo fulltrúa og var samþykkt að félagið greiddi kr. 1712 fyrir hvorn fulltrúa í ferðakostnað. Aðalfulltrúar voru kosnir þeir Hilmar Jónsson og Sigtryggur Árnason. 
Stjórnarmenn unnu að því að ná kaupsamningi á jörðinni Ásgarði í Miðneshreppi, en vegna uppboðs sem fram fór á jörðinni um vorið höfðu hæstbjóðendur ekki sinnt uppboðstilboði sínu og frétti stjórnin á skotspónum að Búnaðarbanki Íslands væri löglegur eigandi jarðarinnar og var bankanum sent bréf þar sem þess var óskað að félaginu yrði seld jörðin Ásgarður Miðneshreppi Gullbringusýslu með húsum og öðrum mannvirkjum sem jörðinni tilheyra. Gert var munnlegt tilboð fyrir hönd félagsins í jörðina, kr. 150.000 sem greitt verður út að fullu telji bankinn sér það hagkvæmara. 
Hreppsnefnd Miðneshrepps var sent bréf sama efnis 26. nóvember þar sem sagði að félagið hefði sannfrétt að bankinn hafi í hyggju að láta fram frjálst uppboð á jörðinni innan skamms. Þar sem Miðneshreppur hafði forkaupsrétt að jörðinni fór félagið vinsamlegast á leit við hæstvirta hreppsnefnd að hún aðstoði félagið að því marki sem hún teldi sér fært að ná kaupsamningi við Búnaðarbanka Íslands.
  
1967
Hestamannafélagið Máni hélt árshátíð sína laugardaginn 15. apríl 1967 kl. 9 í Litla salnum í Stapa. Formaður félagsins, Hilmar Jónsson, flutti ávarp og sýndi skuggamyndir. Steinunn Pétursdóttir las upp hestavísur. Síðan var stiginn dans af fullum krafti og brugðið sér í snittuát á milli.
Fyrir fundi þann 1. mars lá bréf frá Landssambandi hestamanna viðvíkjandi fjórðungsmóti hestamannafélaga á Suðvesturlandi. Samþykkt var að Birgir Scheving sækti fyrirhugaðan fund að Hellu til að reka hagsmuni félagsins og ákvörðun um mótsstað og kosningu í framkvæmdaráð. 
5. apríl 1967 var haldinn fundur í stjórn Mána ásamt fjáröflunarnefnd, Jakobi Indriðasyni, Skúla Eyjólfssyni, Guðfinni Kr. Gíslasyni og Auðunni Karlssyni en Kristján Sigurðsson hafði ekki tök á að mæta. Nefndin lagði til við stjórnina að hún samþykkti að koma af stað happdrætti og lagði til að vinningur yrði reiðhestur. Einnig lagði hún til að félagið efndi til kappreiða og firmakeppni. Samþykkt var að fela nefndinni að finna vinningshest og framkvæmd happdrættisins.
Föstudaginn 26. maí var haldinn stjórnarfundur í Mána að heimili formanns, Hilmars Jónssonar. Viðræður höfðu farið fram við Guðmund Pétursson viðvíkjandi kaupum á Ásgarði. Munnlegt tilboð hans á jörðinni án íbúðarhúss og afmarkað svæði umhverfis það var kr. 300.000, kr. 150.000 útborgað og kr. 150.000 til 10 ára. Allir stjórnarmenn samþykktu að taka tilboði þessu og var Hilmari Jónssyni og Birgi Scheving falið að ganga frá áframhaldandi kaupsamningi. 
Einnig var lagt til að hópreið yrði fram að Garðskaga sunnudaginn 4. júní.
Mánudaginn 24 júlí 1967 kl. 8.30 var boðaður fundur í stjórn Mána að heimili varaformanns, Valgeirs Helgasonar. Mættir voru auk hans Birgir Scheving, Þórður Guðmundsson, Maríus Sigurjónsson og Guðmundur Elíasson. Auk þeirra voru boðaðir úr fjáröflunarnefnd Jakob Indriðason og Skúli Eyjólfsson. Frá skemmtinefnd Friðjón Þorleifsson og Steinunn Pétursdóttir og frá mótsnefnd þeir Arnoddur Tyrfingsson og Hilmar Eyberg. 
Samþykkt var að halda firmakeppni og kappreiðar félagsins sunnudaginn 13. ágúst kl. 2 e.h. að Ásgarði. Landið hafði verið tekið á leigu fyrir 2000 kr. Skemmtinefnd var falið að sjá um veitingasölu og kanna hvort heppilegt þætti að hafa dansleik að afloknu móti. Þátttökugjald fyrir fyrirtæki í firmakeppninni var ákveðið kr. 1000. Aðgangseyrir að mótsstað kr. 50 fyrir fullorðna. Mótsnefnd var falið að sjá um útborgun nauðsynlegra leyfa fyrir mótið hjá viðkomandi aðilum. Einnig var þeim falið að sjá um og skipuleggja mótssvæðið. Ákveðið var að keppt yrði í 300 m. hlaupi, 250 m folahlaupi, 250 m skeiði og 250 m töltkeppni. Skemmtinefnd var falið að sjá um boðhlaup á hestum. Samþykkt var að Þórður Guðmundsson sæi um að útvega og hafa samband við væntanlega dómnefnd og var stungið upp á eftirtöldum mönnum: Boga Eggertssyni, Sigurði Ólafssyni, Kristjáni Vigfússyni, Friðþjófi Þorkelssyni og Haraldi Sveinssyni. 
Ákveðið var að keppt yrði um verðlaunapeninga ásamt þeim bikurum sem fyrir eru. Fjáröflunarnefndinni og stjórn félagsins var falið að sjá um öflun fyrirtækja í firmakeppnina. Að lokum þáðu fundarmenn rausnarlegar veitingar í boði varaformanns og hans frúar. Fleira ekki tekið fyrir 
Á stjórnarfundi 25 okt. 1967 lá fyrir tilboð frá Sigtryggi Árnasyni þar sem hann býður ákveðna skemmu til sölu:
1. Innréttaða sem hesthús fyrir 45 hesta.
 2. Innréttað herbergi
3. Salerni og handlaug.
4. Fóðurbætisgeymslu.
5. Vatn í húsið komi á hvern fóðurgang.
Innrétting verður úr notuðu timbri, járnvarðir stallar að innan, akvegur að hesthúsinu ásamt plani fyrir um 10 bíla. Klætt loft verður í húsinu. Sölutilboð: 110.000 við samningsgerð, 100.000 1. júlí 1968, 130.000 til 5 ára. Seljandi áskilur sér rétt til að hafa afnot af hesthúsinu í vetur. Seljandi skilar frágenginni hlöðu 1. júlí 1968. Seljandi skilar frágengnu húsi 1. sept. 1968. 
Rætt var um rekstargrundvöll og voru menn sammála um að ekki væri gerandi fyrir félagið að kaupa húsið nema með aðstoð þeirra sem hefðu hug á að notast við húsið því félagið hefði ekki fjármagn til þessara hluta þar sem meginparturinn af sjóði félagsins væri ætlaður til jarðarkaupa í framtíðinni. Þess vegna þótti rétt að kanna hvort félagsmenn hefðu áhuga á að leggja fram t.d. 2/3 á móti 1/3 hluta félagsins til þessara kaupa að athuguðu máli. Formanni var að lokum falið að kynna sér hjá viðkomandi aðilum hvort húsið fengi að standa sem slíkt í framtíðinni en fram kom að enginn lóðasamningur væri til fyrir það. Einnig var honum falið að kanna hvort seljandi teldi grundvöll fyrir að greiðslur væru rímilegri en gert var ráð fyrir í tilboðinu.
Annað mál á dagskrá var nafn á bikar þeim sem félagið gaf til töltkeppni í firmakeppni. Fram hafði komið áður að hann skyldi nefndur eftir fyrsta hestinum sem ynni hann en Sörli Valgeirs Helgasonar vann hann. Heitir hann því Sörlabikar. Reglugerð um bikarinn var frestað. 
Firmakeppni og kappreiðar
Hestamannafélagið Máni hélt firmakeppni og kappreiðar sunnudaginn 13. ágúst 1967 við Garðskagavita. Í firmakeppninni tóku þátt 53 hestar og kepptu fyrir jafnmörg fyrirtæki og stofnanir. Keppninni var tvískipt, annarsvegar alhliða ganghestar en í hinum flokknum klárhestar með tölti. Í fyrri flokknum var hlutskarpastur Dreki Hilmars Jónssonar er keppti fyrir verslunina Lyngholt. Í þeim síðar Sörli Valgeirs Helgasonar er keppti fyrir verslun Ingimundar Jónssonar. 25 hestar tóku þátt í síðari hluta mótsins, kappreiðunum.
Í 250 skeiði var Hringur Þórðar Guðmundssonar nr. 1, Dreki Hilmar Jónssonar. 2, Eldur Valgeirs Helgasonar nr. 3.
Í 250 tölti var Blesi Birgis Scheving nr. 1, Gráni Hilmars Jónssonar hr. 2 og Glæsir Arnodds Tyrfingssonar nr. 3
Í 300 m stökki var Smári Ólafs Sveinssonar nr. 1, Hörður Ólafs Gunnarssonar nr. 2 og Logi Skúla Eyjólfssona nr. 3
Í 250 m folahlaupi var Skuggi Ólafs Gunnarssonar nr. 1, Máni Sigurðar Vilhjálmssonar nr. 2 og Geisli Viðars Jónssonar nr. 3.
Mótið var allfjölsótt en veður var fremur hvasst og nutu áhorfendur þess ekki sem skyldi. Dómnefnd skipuðu Bogi Eggertsson, Kristinn Hákonarson og Stefán Friðbjarnarson. Vallarstjóri var Sigtryggur Árnason
  
1968
Mánudaginn 4. mars 1968 var haldin stjórnarfundur að heimili formanns. Til umræðu var framkvæmd væntanlegs aðalfundar 
Ákveðið var að leita úrskurðar nefndar um heimild með það fyrir augum að gera kauptilboð í jörðina Arnarstaðakot í Árnessýslu. Einnig mættu á fundinum 3 meðlimir úr fjáröflunarnefnd, þeir Guðfinnur Gíslason, Skúli Eyjólfsson og Jakob Indriðason og gerði Jakob grein fyrir störfum nefndarinnar. Hann upplýsti að hagnaður af happdrætti félagsins hefði numið rúmum 40.000 kr. og afhenti stjórninni sparisjóðsbók og fundargerðarbók um störf nefndarinnar, einnig sundurliðaða reikninga vegna happdrættisins. Stjórnin þakkaði nefndinni mikið og gott starf. Ýmis önnur mál rædd. Fundi slitið.
Ný stjórn Mána 1968: 
Birgir Scheving formaður
Elías Guðmundsson ritari
Skúli Eyjólfsson gjaldkeri
Valgeir Helgason varaformaður
Þórður Guðmundsson meðstjórnandi
Guðmundur Elísson varamaður
Viðar Jónsson varamaður
Miðvikudaginn 27 mars 1968 var haldinn stjórnarfundur í Hestamannafélaginu Mána Fundurinn hófst kl. 20 í húsakynnum KSK að Hafnargötu 30. Stjórnarmeðlimir voru allir mættir. Rædd voru hesthúsamálin og hvað gera skyldi í hagbeitarmálum. Ákveðið var að stjórnin kynnti sér hesthúsabyggingar annarra hestamannafélaga og teikningar þeirra ef einhverjar væru. 
Samþykkt var einnig að stjórnin athugaði með hagbeit og kynnti sér hjá meðlimum félagsins hvað þyrfti hagbeit fyrir marga hesta. Var Skúla Eyjólfssonar falið að tala við eiganda Lambastaða í Garði hvort kæmi til greina um væntanlega hagbeit að sumri. Umræður voru um kaup á jörðinni Arnarstaðir í Árnessýslu. Var frekari umræðum frestað. Einnig varð að samkomulagi að athuga með leigu á svokölluðu Höskuldarvöllum í landi Stóru Vatnsleysu í Vatnsleysustrandarhreppi. 
Fundur í stjórn Hestamannafélagsins Mána var haldinn 3. maí 1968 í húsakynnum KSK að Hafnargötu 30. Allir stjórnarmeðlimir voru mættir og auk þess annar varamaðurinn, Viðar Jónsson. 
Rætt var aðallega um hagbeit fyrir hesta félagsmanna er ekkert beitiland höfðu. Umsóknir hefðu borist til stjórnarinnar um hagbeit fyrir 19 hesta og 1 hryssu með folaldi. Samkomulag varð að leita fyrst að landi í Garðinum og var farið þangað til að athuga hvort nokkuð fengist út úr því. Rætt var við ábúendur og eigendur eftirtalinna jarða: Móakots, Bræðraborgar, Varar, Skeggjastaða og Gauksstaða. Neikvætt svar kom frá öllum þessum aðilum. Einnig voru skoðuð svæði milli Garðs og Sandgerðis en reyndust þau öll nytjuð. Að svo komnu var ákveðið að leita beitarsvæðis á Vatnsleysuströnd seinna því ekki vannst tími til þess. Fram kom einnig að einungis fullgildir félagar fái fyrirgreiðslu með hagbeit og annað er félagið lætur meðlimum í té. Fundi slitið kl. 00.15.
Fundur í stjórn Hestamannafélagið Máni 13. maí 1968 hófst kl. 20.00 í húsnæði Olíusamlags Keflavíkur. Mættir voru varamenn og stjórn félagsins að Skúla Eyjólfssyni undanskildum. Formaður gerði grein fyrir fulltrúafundi er haldinn var að Hellu í Rangárvallasýslu í sambandi við fjórðungsmót á Hellu sl. sumar. Til umræðu voru tillögur þær sem framkvæmdanefnd fjórðungsmóts sunnlenskra hestamanna lagði til ráðstöfunar á tekjuafgangi mótsins.
Stjórnarmenn lýstu undrun sinni vegna afgreiðslu á sameiginlegum eignum félaganna innan vébanda sunnlenskra hestamannafélaga til ráðstöfunar sbr. lið nr. 1, og í öðru lagi töldu fundarmenn að nauðsynlegt hefði verið að senda tillögurnar og reikninga í fundarboði til yfirvegunar. Að öðru leyti var fyrirvarasamþykkt fulltrúa Hestmannafélagsins Mána á Hellufundinum 4. maí staðfest. Stjórnarmenn höfðu sannfrétt að bæjarstjórn Keflavíkur hefði á fundi neitað félaginu um svæði er skipulagsnefnd Keflavíkurbæjar hafði bent á og stakk formaður upp á að senda bæjarstjórn eftirfarandi bréf:
„Háttvirta bæjarstjórn Keflavíkur. 
Hestamannafélagið Máni Keflavík var stofnað 6. des. 1965 af 40 áhugamönnum um hestamennsku, allir héðan úr Keflavík og nágrenni. Áhugi fyrir hestum og hestamennsku hefur hér á Suðurnesjum eins og víða annarsstaðar farið mjög vaxandi og hefur félagatal aukist allverulega frá stofnun félagsins og teljast nú um 90 meðlimir innan vébanda þess. Tilgangur félagsins er m.a. sá að efla þessa þjóðlegu og hollu útivistaríþrótt og stuðla að sameiginlegum áhugamálum félagsmanna. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt fyrir félagið að eignast samastað fyrir hesthús félagsmanna á einhverjum heppilegum og skipulögðum stað svo að hestaeigendur þurfi ekki að vera á hrakhólum og jafnvel beinlínis illa séðir með hesta sína. Skipulagsnefnd Keflavíkur hefur góðfúslega bent á ákjósanlegt svæði fyrir þessa starfsemi okkar að þeirra áliti og gætum við hestaeigendur fyllilega sætt okkur við þann stað. Nú höfum við sannfrétt að málaleitan okkar hafi komið til umræðu á fundi hjá háttvirtri bæjarstjórn en ekki náð fram að ganga, væntanlega vegna ónógra upplýsinga um svæði það sem skipulagsnefnd bendir á. Því er það einlæg ósk okkar og von að háttvirt bæjarstjórn sjái sér fært að taka til endurskoðunar erindi skipulagsnefndar vegna Hestmannafélagsins Mána með jákvæðum árangri fyrir alla aðila.“
Hagbeitarmálin voru einnig á dagskrá. Umræður urðu um hvort ekki væri hægt að fá beit fyrir trippi og önnur hross er menn vilja láta frá sér. Urðu umræður um að athuga það fyrir austan fjall. Valgeir Helgason hafði rætt við Jón Jónsson Innri Njarðvík um landssvæði við Seltjörn til notkunar til beitar. Vildi hann fá tilboð í svæðið til að geta lagt það fram á fundi hjá landeigendum í Innri Njarðvík. Ákveðið var að fá mann kunnugan ræktunarmálum til að skoða umrætt svæði áður en nokkuð yrði ákveðið með tilboðið.
Fimmtudaginn 6. júní var boðaður stjórnarfundur í Hestamannafélaginu Mána Til umræðu var beitiland á Stóru Vatnsleysu Vatnsleysustrandarhreppi sem að áður athuguðu máli fengist leigt fyrir um 20.000 kr. Fallið var frá því þar eð ekki þótti beit fyrir nógu marga hesta og yrði þá dýrt fyrir hvern hest. Ákveðið var samt sem áður að halda viðræðum við eigendur jarðarinnar áfram. Einnig var samþykkt að girða blett innan við Steypustöðina á Fitjum sem áður hafði fengist leyfi fyrir hjá Landshöfn Keflavíkur að girða og nota sem hesthagabeit. Grasrækt var einnig á dagskrá og var samþykkt að fá Guðleif Sigurjónsson garðyrkjumann Keflavíkur á almennan félagsfund er halda skyldi 4. júní 1968 og ræða þau mál. 
Stjórnarfundur í Hestamannafélaginu Mána var haldinn 19. júní. Aðalmál fundarins var ræktun á vegum félagsins. Voru þau mál rædd um stund en síðan fór stjórnin á svæði það er takmarkast utan við bæjarmörk Keflavíkur og milli Garðs og Sandgerðisvegar. Var gengið um landið vítt og breitt og síðan ákveðið að sækja um land 100 m langt meðfram Garðveginum og 800 m breitt. Var Skúla Eyjólfs og Elíasi Guðmundssyni falið að fara til Reykjavíkur og hafa samband við Varnarmálanefnd því hún hefði með land þetta að gera. Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 23.30.
Fundurinn var haldinn í Hestamannafélaginu Mána 2. júlí 1968 að Hafnargötu 30. Mættir voru allir meðlinir stjórnarinnar og var aðalmálið ræktun á vegum félagsins. Þrír stjórnarmeðlimir höfðu hitt að máli landgræðslustjóra ríkisins og rætt við hann um grasrækt og hvort landgræðslan myndi styrkja félagið í þeim málum. Kom fram hjá honum að ef landið fengist myndi landgræðslan láta í té vír í girðingar og fræ á svæðið. Eftirfarandi bréf var samþykkt að senda Varnarmálanefnd.
„Háttvirta Varnarmálanefnd,
Hestamannafélagið Máni í Keflavík fer þess vinsamlegast á leit við Varnarmálanefnd að hún sjái sér fært að láta félaginu í té afnot af svæði því sem hún hefur umráðarétt yfir og takmarkast samkvæmt meðfylgjandi landakorti. Land þetta eru gróðurlausir melar og hyggur félagið sé að rækta það eftir tilsögn sérfróðra manna og nota til þarfa félagsins. Æskilegt teljum við að afgirða svæðið en aðrar framkvæmdir höfum við ekki í huga."
Fundur var haldinn 19. júlí 1968 að Hafnargötu 30. Mættir voru allir stjórnarmeðlimir og auk þess höfðu tveir menn úr Vallarnefnd verið boðaðir á fundinn, þeir Arnoddur Tyrfingsson og Viðar Jónsson sem ekki gat mætt. Var Vallarnefnd falið að girða Fitjarnar og Arnoddur falið að kalla saman Vallarnefndina og skýra málið fyrir henni. Formaður skýrði frá viðræðum við Guðmund Pétursson eiganda Ásgarðs í Miðneshreppi um leigu á landi undir kappreiðar félagsins og gaf Guðmundur ekkert ákveðið svar en sagði að tala mætti við sig eftir rúma viku og sagðist gefa ákveðið svar þá. Ræddu menn þá um önnur svæði sem til greina gætu komið til kappreiða og fannst stjórninni ákjósanlegastur staður meðfram Langholti í Leiru. Ákveðið var að fresta framkvæmdum um það ef fengist land hjá Guðmundi.
Hesthúsa og hagbeitarmálin vor einnig á dagskrá og jákvæðar viðræður fóru fram við Sæmund Þórðarson bónda á Stóru Vatnsleysu um haustbeit og heyviðskipti. Ákveðið var að senda bréf til félagsmanna sem þurfa á haustbeit að halda og vilja að félagið hafi forgöngu um heyöflun bréf og biðja þá að snúa sér til Elíasar Guðmundsson fyrir 16. ágúst 1968.
Á fundi sem var haldinn 24. júlí var aðallega var rætt um kappreiðarnar en land hafði fengist hjá Guðmundi bónda í Ásgarði. Ákveðið að halda þær sunnudaginn 11. ágúst. Einnig var rætt um firmakeppni og happdrætti til fjáröflunar fyrir félagið. Vegna aðgerðarleysis fjáröflunarnefndar ákvað stjórnin að taka að sér að halda happdrættið og hafa firmakeppni eins og undanfarin ár. Vinningur skyldi vera gæðingsefni. Var Valgeiri Helgasyni, Þórði Guðmundssyni og Ólafi Gunnarssyni falið að velja hestinn.
Stjórnarfundur var haldinn 9. ágúst að Hafnargötu 30. Allir mættir og auk þess Jakob Indriðason sem var boðaður á fundinn. Rætt var um kappreiðarnar, tilhögun og vallarstjórn. Fundarmenn fóru síðan út á Garðskaga og skoðuðu kappreiðarsvæðið.
Stjórnarfundur haldinn 28. ágúst. Aðeins þrír stjórnarmenn mættu, aðrir boðuðu forföll. Samþykkt var að fela gjaldkera að innheimta firmagjöld. Jafnframt var ákveðið að halda almennan félagsfund í Aðalveri 3. sept. 1968 kl. 20.30.
Stjórnarfundur var haldinn í Hestamannafélagsins Mána 27. sept. í húsnæði KSK. Aðalmál var happdrættishesturinn og ræktunargirðingin. Vinninginn hafði félagið fengið og samþykkt að taka einu tilboði af þremur í hestinn. Vegna ræktunar á Melunum var ákveðið að girða a.m.k. 300 metra meðfram Garðvegi í haust.
Ágrip af frásögn í Faxa 1968:
„Sunnudaginn 11. ágúst 1968 efndi Hestamannafélagið Máni til firmakeppni og kappreiða í Ásgarðslandi á Miðnesi, en þar eru vellir sléttir og henta vel til slíkra hluta. Þetta var 3. hestamótið, sem félagið hefur haldið síðan það var stofnað, fyrir tæpum þrem árum, Þetta síðasta mót heppnaðist einna best. Veldur þar sjálfsagt mestu hagstætt veður, meiri og betri undirbúningur, sem að nokkru má þakka fenginni dýrmætri reynslu af fyrri mótum og svo líka ágætu starfsliði. Á mótinu munu hafa verið um 50 þátttakendur og á sjötta hundrað áhorfendur. Félagið hefur farið þess á leit við utanríkisráðuneytið, að það leyfi félaginu afnot af landi því, sem það hefur yfir að ráða, þ.e. land það sem liggur samsíða og sunnan þjóðvegarins út í Garð. Þetta landsvæði telja fróðir menn heppilegt til grasræktar. Jákvætt svar hefur borist við þessari málaleitan.“
  
1969
Stjórnarfundur var haldinn 2. maí. Mættir voru Birgir Scheving, Skúli Eyjólfsson, Valgeir Helgason, Þórður Guðmundsson og Einar Þorsteinsson.
Fyrsta mál á dagskrá var hvort félagið skyldi gerast aðili að sameiginlegum kappreiðum félaga af Suðvesturlandi að Skógarhólum. Var það samþykkt að félagið tæki þátt í mótinu og formanni falið að tala við Guðfinn Gíslason og fá hann til að mæta á fyrsta undirbúningsmótið.
Grasræktarmál einnig rækt og ákveðið að sá í um 20 hektara í girðingu félagsins á Melunum. Samþykkt var einnig að vinna félagsmanna við girðingu og grasrækt yrði reiknuð þeim sem greiðsla upp í væntanlegan hagbeitarkostnað.
Stungið var uppá að biðja Pál Sigurðsson að hafa umsjón með nytjagirðingunni. Einnig rætt hvort ekki væri unnt að hafa kappreiðar félagsins fyrr en venja hefur verið. Stungið var upp á sunnudeginum 22. júní. Skúli og Þórði var falið að semja við eigendur Ásgarðs og Einari og Birgi að talað við Hákon á Hafurbjarnastöðum um land fyrir kappreiðarnar.
Fram kom að þörf væri á happdrætti fyrir landgræðsluna og stungið upp á að vinningur yrði reiðhestsefni eða utanlandsferð.
Tillaga hafði borist frá vallarnefnd þess efnis að nefndin krefðist að félagið keypti rafmagnsgirðingu og verði hún keypt fyrir kappreiðar félagsins 22. júní til að tryggt sé að nota hana fyrir kappreiðarnar. Samþykkt samhljóða í Vallarnefnd og Elíasi Guðmundssyni falið að kaupa girðinguna.
Stjórnarfundur var haldinn 28. maí 1969. Allir stjórnarmenn mættir. Fyrsta mál var hestamót Mána. Samþykkt var að halda það 22. júní með svipuðu sniði og áður. firmakeppni og kappreiðar. 
Eftirfarandi dagskrá var samþykkt:
1. Firmakeppni fyrir hádegi
2. Mótið sett (hópreið)
3. Úrslit í firmakeppni
4. 250 m skeið
5. 250 m tölt
6. 250 m folahlaup
7. 300 m stökk
8. Úrslit í kappreiðum
Vallarstjórar voru skipaði Jakob Indriðason og Elías Guðmundsson
Þórði Guðmundssyni falið að sjá um dómnefnd, Birgi, Valgeir, Einari og Skúla að safna firmum, Elíasi að safna hestum í firmakeppni og kappreiðar.
Stjórnarfundur var haldinn 13. júní 1969. Fram kom að hestar í firmakeppni yrðu 95-100 og einnig að þátttaka fyrirtækja yrði með mesta móti og útlit fyrir að allir hestar gætu tekið þátt í firmakeppninni. Samþykkt áður tilkomin dagskrá vegna fjölda í firmakeppni. 
Stjórnarfundur var haldinn 27. júní. Fyrir fundi lá að taka ákvörðun um hvaða hesta skyldi sýna í góðhestakeppni að Skógarhólum 5.-6. júlí . Allir stjórnarmenn mættir nema Skúli, ekki náðist í hann. Ákveðið að sýna í B flokki og eftirtalda klárhesta:
1. Sörla Valgeir Helgason
2. Glófaxa Einars Þorsteinssonar
3. Stjörnu Helgu Þorvaldsdóttur
Talað um að velja varahesta þegar austur væri komið. Í keppni alhliða hesta var stungið upp á að sýna fyrst 1. Snerri Einars Þorsteinssonar. 2. Dreka Hilmars Jónssonar 3. Boða Páls Sigurðssonar. 4. Hug Björns Magnússonar, 5. Glanna Garðars Garðarssonar.
Elíasi Guðmundssyni og Valgeiri Helgasyni var falið að tala við viðkomandi hestaeigendur. Varaformanni falið að kalla saman fund ef ekki næðist þátttaka fyrrgreindra aðila vegna fjarveru formanns að Skógarhólum.
Stjórnarfundur var haldinn 11. júlí 1969 í húsnæði KSK. Mættir voru Birgir Scheving, Valgeir Helgason, Guðfinnur Gíslason, Elías Guðmundsson og Skúli Eyjólfsson.
Fyrsta mál var hvort félagið skyldi greiða kostnað við flutning farangurs hestamanna sem riðu á Þingvöll 5.-6. júlí. Nam kostnaðurinn 4000 kr. Bar Elías Guðmundsson fram fyrirspurn hvort ekki ætti þá eins og greiða flutningskostnað af hestum þeirra aðila sem fluttu þá á bifreiðum . Var neikvæði afstaða tekin til þeirrar fyrirspurnar en samþykkt greiðsla á farangursflutningum.
Annað mál á dagskrá var staður fyrir væntanlegan skeiðvöll félagsins. Tveir staðir voru aðallega nefndir, annar innan girðingar félagsins á Melunum en hinn meðfram Langholti í Leiru. Fóru stjórnarmenn síðan á báða staði og þótti ákjósanlegri staðurinn undir Langholti. Ákveðið að hafa tal af Páli Ásgeiri Tryggvasyni hjá Varnarmálanefnd vegna staðarins og einnig Egil Jónsson mælingamann hjá Keflavíkurkaupstað. Einnig rætt um heyöflun á vegum félagsins fyrir félagsmenn. Var algjörlega horfið því vegna fyrri reynslu félagsins í þeim málum.
 
 
  
1970
Stjórnarfundur var haldinn í húsnæði KSK 4. mars 1970. Fyrsta mál var aðalfundurinn. Ákveðið að hann skyldi haldinn 8. mars í Aðalveri kl. 8.30 e.h. Eftirfarandi dagskrá samþykkt:
1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins
3. Kosning stjórnar, endurskoðenda og nefnda
4. Kosning tveggja fulltrúa á þing Landssambandi hestamanna
5. Tillögur um hesthús
6. Lagabreytingar
7. Önnur mál
Einnig var ákveðið að biðja Einar Þorsteinsson að flytja framsögu um hesthúsmálin. Nefndarkosningar voru einnig ræddar. Kom Birgir Scheving með þá uppástungu að bæta við einum manni í skemmtinefnd og kalla hana svo fræðslu og skemmtinefnd og einnig að stinga upp á einum eða tveimur í fjáröflunarnefnd og vallarnefnd og láta þá síðar velja sér samstarfsmenn. Var þessi uppástunga samþykkt samhljóða. Var stungið upp á Arnoddi í vallarnefnd og Jakobi og Ingvar Hallarímsyni í fjáröflunarnefnd.
Stjórnarfundur var haldinn 17. mars kl. 8 e.h. Mættir voru allir stjórnarmenn félagsins. Formaður bauð Einar Þorsteinsson velkominn í stjórn félagsins. Síðan fór fram kosning varaformanns og var Valgeir Helgason kosinn. Síðan bar formaður upp eftirfarandi tillögu og var hún samþykkt:
Þar sem mistök komu fram um kosningu annars meðstjórnanda félagsins á aðalfundi 8. mars 1970 samþykkir stjórn félagsins að ógilda kosninguna. 
Rætt var um hesthúsamál félagsins og var Einari og Valgeiri falið að ræða við forráðamenn teiknistofu landbúnaðarins um upplýsingar og aðstoð varðandi fyrirhuguð hesthús. Ákveðið að gera mót fyrir verðlaunapeninga vegna kappreiða félagsins. Samþykkt var að sækja um styrk til Landssambands hestamanna vegna reiðvegagerðar. Var rætt um að gera reiðveg til Sandgerðis. Rætt var um kappreiðar félagsins í sumar og ákveðið að ræða við landeigendur þess svæðis sem félagið hefur haft undanfarin ár. 
Stjórnarfundur var haldinn 8. maí 1970. Mættir voru allir stjórnarmenn. Samþykkt var að hafa kappreiðar félagsins 24. maí. Formanni var falið að ráða starfsmenn fyrir mótið. Ákveðið var að fullgera girðingu um beitilandið og bera á áburð fyrir allt að 80.000 kr. Rætt var um þátttöku í landsmóti hestamanna í sumar. Ákveðið að stuðla að sem mestri þátttöku.
Stjórnarfundur var haldinn 26. maí 1970. Rætt var um val hesta í góðhestakeppni á landsmóti hestamanna í sumar. Formaður Birgir Scheving óskaði eftir að röð hesta í nýafstaðinni firma og góðhestakeppni verði látin ráða. Var það samþykkt eftir nokkrar umræður. Töldu Valgeir Helgason og Einar Þorsteinsson ekki þörf á að ákveða endanlega þátttöku svo fljótt og varasamt að allir bestu hestarnir væru í þessum hóp.
Stjórnarfundur var haldinn 26. ágúst 1970. Rætt um haustbeit á landi félagsins og á landi Keflavíkurbæjar. Arnoddi falið að sjá um framkvæmd þessa máls. Þeir sem lagt hafa fram vinnu við nýræktun fái haustbeit fyrir einn hest fyrir hverjar 10 kr. í sumar. Samþykkt var að taka ekki folaldsmerar í haustbeit. 
  
1971
Stjórnarfundur var haldinn 28. janúar 1971 í húsnæði KSK. Mættir voru allir stjórnarmenn, ennfremur formaður fjáröflunarnefndar Ingvar Hallgrímsson og formaður vallarnefndar Arnoddur Tyrfingsson.
Formaður skýrði frá viðræðum við bæjarstjórn um haustbeit í bæjarlandinu. Kom í ljós að borga þarf fyrir haustbeitina. Samþykkt var að fela formanni að semja um verðið og ákveðið að innheimta kr. 50 á hest um mánaðarmótin. 
Rætt var um hesthúsamál. Þar sem ekki er enn búið að úthluta félaginu landinu var málinu vísað frá. Ákveðið var að halda aðalfund 28. feb. Rætt um skeiðvöll. Var Valgeiri Helgasyni falið að kanna hvort land undir Langholti væri fáanlegt til skeiðvallargerðar. Skýrsla hafði borist frá Landssambandi hestamanna og hafði félaginu verið úthlutað 20.000 kr. til reiðvegagerðar. Samþykkt var að láta gera spjaldskrá fyrir félagið.
Stjórnarfundur var haldinn 11. mars kl. 8 að heimili formanns Guðfinns Gíslason. Mættir voru auk formanns þeir Skúli Eyjólfsson , Einar Þorsteinsson og Ingvar Hallgrímsson. Þetta var fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar. Varaformaður var kjörinn Ingvar Hallgrímsson. Ákveðið að fjölrita félagslögin eins og þau eru núna. Rætt um fána félagsins og gera þyrfti borðfána og veifur. 
Rætt um grasrækt og skeiðvallarstæði. Samþykkt var að biðja Guðleif Sigurjónsson garðyrkjuráðunaut um ráðleggingar í sambandi við þessi mál. Formaður ræddi um möguleika á að hafa firmakeppni á öðrum tíma en kappreiðarnar og þá helst áður en hestum er sleppt úr húsi á vori. Guðfinnur skýrði síðan frá árangri hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og rekstri reiðskóla. Árangur þeirra var mjög góður og þátttaka mikil. Taldi formaður þörf á að koma upp reiðskóla hér í okkar félagi. Rætt um reiðvegagerð fyrir fjárveitinguna frá Landssambandi hestamanna í ár.
Stjórnarfundur var haldinn 13. mars kl. 3 e.h. Mættir voru auk formanns Skúli Eyjólfsson, Arnoddur Tyrfingsson, Elías Guðmundsson, Einar Þorsteinsson og Guðleifur Sigurjónsson ræktunarráðunautur Keflavíkurbæjar.
Þau mál sem lágu fyrir voru skeiðvallargerð og grasrækt. Síðan var haldið út að Langholti. Var gengið um staðinn og Guðleifi falið að gera frekari mælingar þar og áætlun um hvað gera þyrfti til að koma þar upp hlaupabraut. Síðan var grasrækt félasins við Garðveg skoðuð og gengið um svæðið. Guðleifi var falið að gera tillögu um hvernig best væri að haga ræktun þar svo að sem bestur árangur næðist. Einnig hvernig best væri að nýta landið til beitar. Taldi hann nauðsynlegt að hólfa landið niður til að nýting þess kæmi að sem mestum notum. 
Samþykkt var samhljóða að fullrækta í vor svæði sem ekki væri minna en 20 m breitt og 600 m langt með það í huga að hægt væri að hafa kappreiðar félagsins þar í sumar. Var Guðleifi og Einar Þorsteinsson falið að merkja sem heppilegastan stað fyrir þessa ræktun.
Stjórnarfundur var haldinn 13. apríl kl. 9.30 e.h. Mættir voru Guðfinnur Gíslason, Jón Þórðarson, Skúli Eyjólfsson, Ingvar Hallgrímsson, Einar Þorsteinsson, Arnoddur Tyrfingsson, Elías Guðmundsson, Maríus Gunnarsson og Guðleifur Sigurjónsson. 
Guðleifur skýrði teikningu af hlaupabraut sem afmörkuð hefur verið á beitilandi félagsins. Ráðlagði hann að bera eins mikinn húsdýraáburð á svæðið og hægt væri og ennfremur að sá vel í allar eyður sem væru á grasræktinni. Áburð taldi hann að bera þyrfti á 300-400 kg á hektara. Rætt var um beitarþol á svæðinu og kom í ljós að með því að beita landið með takmörkunum þannig að hestarnir bitu aðeins 3-4 klst. á sólahring mætti beita nú í sumar allt að 40-50 hestum. Leist fundarmönnum vel á þessa hugmynd og var ákveðið að kanna þetta mál nánar. Samþykkt var að hafa firmakeppni félagsins í seinni hluta maí. Ákveðið að koma af stað happdrætti sem fyrst og hafa hest í vinning. Formaður las bréf þar sem félaginu er boðin þátttaka í fyrirhugðu hestamóti á Þingvöllum 34 júlí. Samþykkt með öllum atkvæðum að taka þátt í mótinu. Skýrt var frá fyrirhugaðri ferð á móts við Hafnfirðinga 1. maí.
Stjórnarfundur var haldinn 6. maí að Áhaldahúsi Keflavíkur kl. 20.00. Mættir voru Guðfinnur Gíslason, Ingvar Hallgrímsson, Einar Þorsteinsson, Skúli Eyjólfsson og Arnoddur Tyrfingsson.
Ákveðið að hafa firmakeppni félagsins 23. maí. Rætt um möguleika á að koma af stað reiðskóla. Valinn var staður til kennslunnar skammt frá Áhaldahúsinu við Flugvallarveg. Síðan var samþykkt að hefjast handa um framkvæmdir eins fljótt og hægt væri.
Stjórnarfundur var haldinn 17. maí kl. 9 e.h. Mættir voru Guðfinnur Gíslason, Arnoddur Tyrfingsson, Jón Þórðarson, Einar Þorsteinsson, Elías Guðmundsson, Skúli Eyjólfsson og Ingvar Hallgrímsson.
Ákveðið að hafa firmakeppnina á nýja velli félagsins við Garðveg og fela vallarnefnd að sjá um undirbúning vallarins fyrir keppnina. Samþykkt var að hafa keppnina í A og B flokk eins og undanfarin ár. Rætt um innheimtu árgjalda félagsins og fleiri mál.
Stjórnarfundur var haldinn 27. maí við Skúlaskeið. Mættir voru Guðfinnur Gíslason, Skúli Eyjólfsson, Arnoddur Tyrfingsson, Elías Guðmundsson, Ingvar Hallgrímsson og Einar Þorsteinsson.
Rætt um kennslu í reiðmennsku sem nú stendur yfir. Kennarar hafa verið þau Ragnheiður Sigurgrímsdóttir og Jón Þórðarson. Upplýst var að þau geti hvorugt verið nema út vikuna. Þar sem almennur áhugi er fyrir að halda kennslunni áfram þegar kennari er fáanlegur var Guðfinni Gíslasyni falið að reyna að útvega kennara. Ákveðið var að sækja áburð og fræ á nýrækt félagsins 28. maí. Samþykkt var að reyna að koma áburði og fræi á svæðið eins fljótt og hægt væri. Þó voru taldir erfiðleikar með að fá menn til að vinna við þetta. 
Stjórnarfundur var haldinn 9. júní kl. 9 e.h. Mættir voru Guðfinnur Gíslason, Skúli Eyjólfsson, Ingvar Hallgrímsson, Arnoddur Tyrfingsson, Elías Guðmundsson, Einar Þorsteinsson.
Lesið var bréf frá Landssambandi hestamanna varðandi reiðskóla. Hvöttu þeir til að félögin kæmu sem víðast á kennslu í reiðmennsku. Guðfinnur Gíslason las upp bréf sem hann skrifaði bæjarstjórn Keflavíkur varðandi byggingarleyfi fyrir hesthús fyrir félagsmenn. Hann skýrði frá að borið hefði verið á nýræktina 9 tonn af áburði og 350 kg af fræi. Von væri á meira fræi frá landgræðslu ríkisins. Hann gat þess að illa hefði gengið að fá menn til starfa við dreifingu áburðar. Arnoddur Tyrfingsson ræddi um að þörf væri á að skrá sjálfboðsliðsvinnu svo hægt væri að sjá betur hvað menn legðu á sig fyrir félagið. Rætt um að hraða innheimtu ársgjalda félagsmanna. Elías Guðmundssyni var falið að gera yfirlit um kappreiðar sem haldnar hefðu verið og gera kappreiðaannál. Rætt um framkvæmd á reiðvegagerð til Sandgerðis.
Rætt var um undirbúning hestamóts og kappreiða. Urðu miklar umræður um mótið og störfum skipt niður á stjórnarmenn. Margir fundir haldnir í júní um mótshaldið. Erfitt reyndist að fá menn til starfa við eftirlit og miðasölu en björgunarsveitin Stakkur gat ekki tekið þetta að sér. Ingvari Hallgrímssyni var falið að ganga frá mótssvæðinu. Skógarhólamótið var rætt og fjallað um möguleika á að fá menn til dómarastarfa í hópreið og góðhestakeppni. Bréf barst frá Landssambandi hestamanna sem úthlutaði áburði til félagsins. Mikil fundarhöld allt þetta sumar rætt við bæjarstjóra vegna byggingarframkvæmda. Reynt að finna viðunandi lausn á þessum málum.
Félagið átti áburð hjá landgræðslu ríkisins og grasfræ. Þörf var talin á að bera bæði fræ og áburð á hlaupabrautina. Erfitt væri samt um framkvæmdir því svo margir voru í sumarleyfum. Haustbeit í girðingu félagsins á Mánagrund var til umræðu. Landvernd gæti látið félaginu í té áburð og grasfræ. Tilhögun haustbeitar rædd og beitartími frá 15. sept.- 15 des. og gjald fyrir beitina ákveðið. Skilyrði  fyrir að félagar fái haustbeit er að þeir séu skuldlausir við félagið
Vatnsflutningar á beitarsvæði voru ræddir en mikið vantar á að þetta sé vel gert og hestar oft vatnslausir. Ekki fleiri en 40 hestar verða settir á haustbeit til 15. des. þetta ár. Mótssvæði hefur allt verið hreinsað.  Landvernd fékk skýrslu um störf félagsins og ársskýrsla var send til Landssambands hestamanna. Búið var að mæla fyrir reiðvegi til Sandgerðis og ákveðið að vegurinn lægi ofan Garðvegar frá Keflavík.
Vinna við reiðvegagerð fyrir 20.000 kr. var rædd en sú vinna var ekki hafin. Þörf var á skýli á beitarlandi og var rætt um nýtingu beitarlandsins næsta sumar. Einar Þorsteinsson var spurður með hvaða hætti hestur Þorsteins sonar hans hefði komist inn í beitilandið þá um haustið og rætt um að samþykkja vítur á Einar vegna þessa. Einar skýrði málið og taldi vítur óréttmætar. Hann skilaði af sér uppgjöri vegna happdrættis og reyndist hreinn hagnaður vera 41.560 kr. Einari og happdrættisnefnd var þakkað. 
Einar bað um að losna úr stjórn vegna víta en sú beiðni var ekki samþykkt. Rætt um fjórðungsmótið að Hellu í júlí 1972. 1000 kr. inntökugjald var til umræðu auk félagsgjalda. Rætt um að hafa mann á kaupi til að sinna verklegum framkvæmdum 2-3 mánuði á ári vegna stóraukinna umsvifa félagsins.
 
1972
Bréf barst frá Landvernd þar sem óskað var eftir umsókn fyrir næsta ár. Ákveðið var að ræða við önnur félög á svæðinu um málið. Skýrt var frá störfum á þingi Landssambands hestamanna. Framkvæmdir eru ekki hafnar við reiðveginn en samband hefur verið haft við bæjaryfirvöld. Ákveðið að halda aðalfund 27. febrúar. Ákveðið var einnig að skrifa út innheimtuseðla fyrir ógreidd félagsgjöld. 
Skýrsla var send til Landverndar þar sem Hestmannafélagið Máni fer þess á leit að fá inngöngu í Landvernd. Reiðvegaframkvæmdum fyrir fé sem Landssamband hestamanna veitti félaginu er nú lokið. Jákvæður árangur hefur náðst í hesthúsamálum samkvæmt upplýsingum . bæjarstjórnar Keflavíkur. Guðmundur Ingólfsson gengur samkvæmt beiðni Hestmannafélagsins Mána frá rekstrar- og efnahagsreikning félagsins. Varnarmálanefnd og hreppsnefnd Gerðahrepps var skrifað með óskum um land til afnota fyrir félagið. Sóttvar  um inngöngu í Búnaðarfélag Geðahrepps. Bréf barst  frá undirbúningsnefnd fjórðungsmótsins á Hellu. 
Í stjórn Hestamannafélagsins Mána 1972 voru eftirtaldir aðilar:
Guðfinnur Gíslason formaður
Skúli Eyjólfsson gjaldkeri
Elías Guðmundsson ritari
Ingvar Hallgrímsson meðstjórnandi
Varaformaður Jón Þórðarson
Arnoddur Tyrfingsson varamaður
Gísli Guðmundsson varamaður
Búið er að samþykkja Mána sem aðila að Búnaðafélagi Gerðahrepps.
Beitarmálin voru á dagskrá og rætt um að skipta girðingunni í hólf og kanna áhuga félagsmanna fyrir sumarbeit. Hugmynd var reifuð um að reka tamningastöð í sambandi við beitargirðinguna og myndi tamningamaður hafa umsjón með öllum hestunum. 
Ákveðið var að halda námskeið í tamningu ef þátttaka væri nóg og yrði námskeiðið auglýst. Nefndarstörf voru í fullum gangi og gengu vel. Árshátíð haldin 10. mars og Strandaferð var í undirbúningi. Hestur hafði verið keyptur sem happdrættisvinningur á 35.000 kr.
Væntanleg firmakeppni og kappreiðar voru ræddar og fjallað um hvort halda ætti þær sameiginlega eða í tvennu lagi. Ákveðið að halda firmakeppnina sér. 
Bréf barst frá Landssambandi hestamanna varðandi Landvernd og dómaranámskeið. Ákveðið var að Jón Þórðarson sækti námskeiðið og til vara Ingvar Hallgrímsson. Formaður sagði frá fundi að Hellu vegna fjórðungsmótsins. 
Ákveðið var að koma upp æfingaaðstöðu fyrir góðhestakeppni. Góð þátttaka var í firmakeppninni. Áburðardreifing og sáning á Mánagrund var til umræðu og var Torfi í Miðhúsum fenginn til að dreifa áburðinum. 
Lesið var upp bréf frá Landvernd og upplýst að þeir láta Hestmannafélaginu Mána í té 7 tonn af áburði og 700 kr. af fræi til nýuppgræðslu. Æfingarbraut var rædd og lagt til að braut yrði lögð meðfram girðingunni. Bréf frá Landssambandi hestamanna var lesið varðandi félagsbúninga og fána hestamannafélaganna. 
Frágangur á girðingu á Mánagrund var nú kominn á lokastig. Byggð verða skjól úr varanlegu efni í beitarhólfum sem hægt væri að færa til. Framkvæmdanefnd var falið að gera þetta. Tillaga var borin fram  um haustbeit þess efnis að girðing væri opnuð til haustbeitar fyrir hesta. Beitargjald verði kr. 300 á mánuði og greiðist fyrirfram. Rætt var um rukkun árgjalda og gengur innheimta þeirra ekki vel samkvæmt upplýsingum frá gjaldkera. 
Hagnaður af happdrætti var um 75.000 kr. og hefur aldrei verið meiri. 
Bæjarstjórinn í Keflavík hefur skýrt frá því í bréfi að bygginganefnd hafi samþykkt lóðaúthlutun til Hestamannafélagsins Mána fyrir sitt leyti.
Framkvæmdar voru skoðaðar við girðingu á Mánagrund í ágúst og þóttu ekki ganga nógu vel. Bréf var sent til Varnarmálanefndar varðandi umsókn um land. Dræm aðsókn hafði verið að haustbeit og nóg beit fyrir hendi. Ákveðið var að auglýsa hana á frjálsum markaði og jafnframt var samþykkt að halda landsþing hestamannafélagana í Keflavík 1973. 
Máni hefur fengið styrk úr reiðvegasjóði, alls 20.000 kr. Sigurði Thoroddsen verkfræðistofu var falið að gera kostnaðaráætlun um teikningu hesthúsanna. Bæjarstjórn hefur staðfest úthlutun á athafnasvæði fyrir Hestamannafélagsins Mána Svæðið takmarkast af  Sandgerðisvegi að sunnan, Garðvegi að austan og bæjarmörkum Keflavíkur að vestan og norðan. Gert er ráð fyrir æfingabrautum, hesthúsum og félagsheimili. Rætt um nauðsyn þess að girða af þessi svæði. 
Úr grein í Faxa 1972 eftir Jakob Indriðason:

 
"Það var fyrir nokkrum árum að unnendur hestaíþróttar hér á skaganum stofnuðu „Hestamannafélagið Mána". Þá var hér í Keflavík og nágrenni heldur erfið aðstaða til þessarar tómstunda íþróttagreinar. En nú með vaxandi skilningi stjórnvalda byggðarlaganna á Reykjanesskaga og vaxandi skilningi fólksins yfirleitt rætist vonandi úr. Ég veit ekki annað en að til standi hjá ráðamönnum Keflavíkurbæjar að úthluta landi, þar sem Hestamannafélagið Máni fengi varanlega að stöðu fyrir hesthús, tamningarvöll og félagsheimili. Áður var félagið búið að fá land sem er í eigu ríkisins, og Varnarmáladeild ræður yfir, fyrir norðvestan bæinn. Það er eiginlega ævintýraheimur þessa unga félags, eins og allir kunnugir vita voru þetta „örfoka melar", sem félagsmenn hafa í 3-4 s.1. ár verið að græða upp, og það merkilega er að u.þ.b. allt starf við girðingu, sáningu og áburðardreifingu á þessu landi, sem við höfum skýrt „Mánagrund" hefur verið unnið í sjálfboðavinnu. Ungir og aldnir hafa staðið þar hlið við hlið og orðið merkilega mikið ágengt. Að vísu ber þess að geta að ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt nokkuð af mörkum."
  
1973
Bréf barst frá skattstofu Reykjanesumdæmis þar sem beðið var um upplýsingar frá Hestamannafélaginu Mána.  Bréf barst einnig  frá Varnarmálanefnd þar sem leyfi var veitt til þess svæðis sem Hestamannafélagið Mána hafði sótt um. Þá barst einnig kostnaðaráætlun frá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen vegna teikninga af hesthúsum og var ákveðið að leggja hana fyrir almennan félagsfund.
Ákveðið að selja happdrættishestinn vegna þess að vinnings hafði ekki verið vitjað. Máni hefur á fjórðungsmótum styrkt Hrossaræktarsamband Suðurlands og samþykkt var að halda því áfram. 
Rúmlega 70 félagar hafa greitt árgjald en 18 félagar hafa ekki greitt fyrri árgjöld. Samþykkt var að hækka árgjald eftir 1. maí ár hvert. 
Stjórn Hestamannafélagsins Mána 1973 skipuðu eftirtaldir aðilar:
Guðfinnur Gíslason formaður
Sigurður Vilhjálmsson gjaldkeri
Elías Guðmundsson ritari
Ingvar Hallgríms varaformaður
Meðstjórnendur: Maríus Gunnarsson og Þröstur Einarsson
Varamaður: Jón Þórðarson.
Rætt var um væntanlegt vegastæði og tillaga borin fram um að sækja um reiðvegastyrk til Landssambands hestamanna.
Reiðvegur til Sandgerðis sunnan þjóðvegarins var einnig til umræðu en vegastæðið hefur nú verið kannað og ákvörðun hefur verið tekin um hvar vegurinn skyldi lagður og slóði fyrir hann ruddur. Hrossaræktarsambandið hefur sent jákvætt svar varðandi inngöngu Mána í sambandið og var formanni falið að halda áfram samræðum við sambandið. Félagsmönnum verður sent bréf þar sem minnt er á árgjöldin. 
Hestamót Mána 1973 rætt ítarlega og fyrirhuguð kynningarvika íslenska hestsins. Girðingarmál til umræðu og var samþykkt að girða tvær girðingar fyrir 40.000 kr. 
Formaður var boðaður á fund nokkurra hestamannafélaga vegna sameiginlegra kappreiða allra félaganna á Fáksvelli. Áhugi var mikill á þessu móti. Framkvæmdastjóri Landverndar kom í heimsókn og lýsti yfir mikilli ánægju með ræktunarframkvæmdir Mána. Hann taldi eðlilegt að Landvernd styrkti Mána með fræi og áburði. 
Ákveðið var að þeir sem hafa áhuga á að fá lóð undir hesthús sæki um það til byggingarnefndar. Ný lega girðingar á Berginu var rædd og ákveðið að bjóða 5000 kr. þeim tveimur aðilum sem fást til að sjá um hana. Slitnað upp úr viðræðum við Hjálparsveit skáta í  Njarðvík um að standa að sameiginlegu hestamóti í sumar en þeir munu aðstoða Mána á hestamóti um sumarið. Um 236 firmu eru búin að skrá sig til keppninnar og dagskráin hefur verið ákveðin. 
Tillaga hefur borist frá bæjarstjóra um að byggingarnefnd úthluti hesthúsum til einstaklinga og taki byggingarleyfisgjald. Lokasamningar verða, samkvæmt tillögunni, gerðir við einstaklinga og lóðaleiga verður 5% af verkamannakaupi. Engin gatnagerðagjöld verða tekin enda sjái félagið um veginn. Vatnsaðstaða fæst frá bænum. Svæðið fyrir utan einkalóðir verður afhent Mána sem íþróttasvæði um 34.7 hektarar að stærð. Stjórninni fannst þetta aðgengilegt og ákvað að taka upp viðræður við bæjarstjóra. Áburðarmál voru rædd. Vírnet og gaddavír var pantaður samkvæmt ráðleggingum landgræðslustjóra. Bréf barst frá Landssambandi hestamanna með fyrirheiti um reiðvegastyrk að upphæð kr. 20.000. 
 
 
  
1974
Stjórn Hestmannafélagsins Mána þetta ár skipuðu eftirfarandi aðilar:
Valgeir Helgason, formaður
Birgir Scheving, ritari
Sigurður Vilhjálmsson, gjaldkeri
Viðar Jónsson, varaformaður
Maríus Gunnarsson, meðstjórnandi
Á 85. stjórnarfundi Hestmannafélagsins Mána var m.a. rætt um skipulagskrá fyrir „Dreyrabikarinn“. Skipulagsskráin er svohljóðandi samkvæmt fyrstu drögum:
„Bikarinn heitir „Dreyrabikar“ gefinn af Guðfinni K. Gíslasyni í Keflavík til minningar um hest er hann átti sem unglingur og hét Dreyri. Tilgangurinn er sá að örva unglinga í hestamennsku innan 16 aldurs og skal unglingurinn eiga hestinn sjálfur og hafa tamið hann og vera knapi. Bikarinn er farandbikar og vinnst ekki til fullrar eignar. Bikarinn er heiðursverðlaun og skal veittur besta góðhesti í firmakeppni eða góðhestakeppni félagsins. Ef bikarinn er veittur í firmakeppni skal hann afhentur forráðamanni þess fyrirtækis sem vinnur í þessum flokki, en ef keppt er um hann í góðhestakeppni félagsins fyrir unglinga innan 16 ára, skal hann afhentur eiganda þess hests sem vinnur.
Hestmannafélagið Máni lætur letra á bikarinn nafn hests og eiganda hverju sinni nafn fyrirtækis sem vinnur ef keppt er um bikarinn í firmakeppni. Bikarinn er í vörslu þess fyrirtækis sem vinnur ef keppt er um hann í firmakeppni, annars í vörslu eiganda hestsins. Bikarinn er vátryggður gegn eldsvoða á kostnað Hestmannafélagsins Mána. Stjórn Hestmannafélagsins Mána ákveður hversu oft skuli keppt um bikarinn. Eftir það skal hann verða eign félagsins og geymdur á skrifstofu þess. Gefandi hefur þann forkaupsrétt að gefa annan verðlaunagrip.“
Þá var samþykkt að þrír úr stjórn félagsins hefðu viðræður við bæjarstjóra Keflavíkur vegna væntanlegra byggingarframkvæmda. 
Stjórnin sendi eftirfarandi bréf til byggingarnefndar Keflavíkur:
„Stjórn Hestmannafélagsins Mána mælir með skipulagsbreytingu á innkeyrslu að byggingarsvæði félagsins samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Þá fer stjórn félagsins þess á leit við háttvirta byggingarnefnd að hún leyfi breytingar á hesthúsum þannig að á Faxagrund 1-17 rísi 8 hesta hús í stað 16. Ákvörðun um efnisval verður tekin síðar ef um breytingarnar verður að ræða.“
  
1975
Nokkrar umræður voru um hesthúsabyggingar og var samþykkt að fela formanni að leita hófanna með það fyrir augum að breyta húsunum þannig að hesthúsin lækkuðu um 50 cm og uppstöðum þeirra yrði breytt úr 2x5 í 2x4, ef hægt væri. Fram kom bréf frá Maju Loebell til stjórnarinnar og var hún leyst frá störfum í fjáröflunarnefnd. 
Rætt var um reiðskóla fyrir börn og unglinga og Þresti Einarsson falið að aðstoða Pál Sigurðarson við byrjunarundirbúning. Samþykkt var að leggja fram 100.000 kr. á móti 100.000 kr. frá Landvernd vegna áburðarkaupa. Hagbeit verður kr. 1200 fyrir hestinn á mánuði. Nokkrar umræður urðu um Berggirðinguna og reynt var að fá einhvern til að taka hana að sér. Var í því sambandi stungið upp á 80-100.000 kr. greiðslu fyrir vikið.
Rætt var um reiðskólann en um 50 börn hafa látið skrá sig. Búið er að girða Berggirðinguna en eftir er að ganga frá hliðinu. Ákveðið var að hafa firmakeppni 7. júní en kappreiðar 15. júní. Undirbúa þarf keppnissvæðið. 
Óformlegt tilboð barst frá Sigtryggi Árnasyni vegna skemmu sem hann býður félaginu til kaups. Tilboðið var rætt en umræðu síðan frestað vegna þess að félaginu hefur verið úthlutað byggingarsvæði. Landssamband hestamanna hefur úthlutað Mána 100.000 kr. til reiðvegagerðar. Ákveða þarf framkvæmdir og staðsetningu reiðvegar. Mikill vilji er fyrir að byggja eftir öðrum teikningum og úr öðru efni en því sem tillögur hafa verið gerðar um. Haft verður samráð við Vilhjálm Grímsson tæknifræðing hjá Keflavíkurbæ vegna þessar framkvæmda. 
Stjórn Mána 1975 skipuðu eftirtaldi aðilar:
Viðar Jónsson formaður
Birgir Scheving ritari
Sigurður Vilhjálmsson gjaldkeri
Maríus Gunnarsson meðstjórnandi
Þröstur Einarsson meðstjórnandi
Haft verður samband við Brynleif Jónsson klæðskera til að athuga með saum á jökkum sem yrðu væntanlegur félagsbúningur í framtíðinni.
Um 150 einstaklingar og fyrirtæki tóku þátt í firmakeppninni sem haldin var í tíunda sinn. Tókst hún vel til í alla staði. UM 300 áhorfendur mættu á kappreiðarnar í góðu veðri.
Stjórnarfundur var haldinn 10. september og var þá rætt um efni í félagsbúninga. Lagðar voru fram tillögur frá fataverksmiðjunni Gefjunni og samþykkt að mæla með prufu nr. 1 sem var ljósbrúndrappaður litur. 
Bréf barst frá Landssambandi hestamanna vegna þings Landssambandsins á Suðurnesjum 8.-9. nóv. 1975. Skemmtinefnd falið að sjá um undirbúning að 10 ára afmæli félagsins en þingið verður haldið í Stapa.
Tillögur um hesthús voru ræddar og fjallað um breytingar. Þröstur kom uppdressaður í nýja jakkanum sem honum var falið að láta sauma sem félagsbúning. Lagt var til að skreðari tæki mál af mönnum sem vildu eignast slíkan jakka. Miklar umræður urðu um landsþing hestamanna og miðaði undirbúningi vel áfram.
Á 100. stjórnarfundi 16. des. var fyrsta málið happdrættisskil og var hagnaður rúmlega 160.000 kr. Bréf barst frá byggingarnefnd vegna byggingarleyfis fyrir hinar nýju teikningar sem byggingarfulltrúi óskaði eftir og var samþykkt að senda með umsókn bréf þar sem Máni kynnir upplýsingar vegna breytinga á hesthúsum félagsins. Í bréfinu sagði að vilji hefði verið til að gera verulegar breytingar á hesthúsum félagsins og hafði það komið fram fyrr á árinu. Vilhjálmi Grímssyni hafði verið falið að gera nýjar teikningar og þær ræddar á félagsfundi. Megn óánægja var með fyrri teikningar. Breytingar voru aðallega á efnisvali og byggingarnar voru mun lægri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Félagsfundurinn samþykkti teikningar Vilhjálms með öllum greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá.
  
1976
Stjórn Hestmannafélagsins Mána 1976 skipuðu eftirfarandi aðilar:
Viðar Jónsson formaður
Birgir Scheving ritari
Sigurður Vilhjálmsson gjaldkeri
Þröstur Einarsson meðstjórnandi
Arnoddur Tyrfingsson meðstjórnandi
 
Á fyrsta fundi var rætt um undirbúning að fjórðungsmóti hestamannafélaganna. Fjallað var um geymslupláss því rýma þyrfti geymslu sem félagið hefur haft til umráða hjá Hilmari Jónssyni.
Upplýst var að Sigtryggur Árnason hefði haft samband vegna reiðskólahalds í Kópavogi hjá Gusti. Ákveðið var að senda bæjarráði Keflavíkur bréf þar sem fram kom að Máni hefði sett á fót reiðskóla fyrir börn og unglinga síðastliðið sumar. Þátttakendur sem komust að voru 64 á aldrinum 4-8 ára. Margir urðu að láta sér nægja að vera áhorfendur að þessu sinni. Mikil þörf er talin á að koma þessum námskeiðum af stað og verulegur áhugi virðist vera fyrir hendi. Talið er nauðsynlegt að auka þessa starfsemi verulega ekki síst vegna þess að æskan í bæjarfélaginu sýnir slíkan áhuga. Þetta er kostnaðarsamt fyrir Mána og þátttökugjaldi þarf að halda í lágmarki. Þess vegna er þess farið á leit við bæjarráðið að það styrki þetta starf eins og mörg önnur bæjarfélög gera. 
Landssambandi hestamanna var send prufa að væntanlegum félagsbúningi Mána sem er jakki með dökkbrúnum kraga. Er þess farið á leit að Landssamband hestamanna staðfesti þennan búning fyrir sitt leyti. Síðar var upplýst að Landssamband hestamanna hefði samþykkt búninginn formlega fyrir sitt leyti með bréfi þar að lútandi. Í bréf frá fjórðungssambandi hestamanna á Suðurlandi er rætt um að halda gæðingakeppni fyrir börn og unglinga. Rætt var um að fá leiðbeinanda fyrir börnin og unglingana og einnig að senda mann á dómaranámskeið. 
Vel er fylgst með öllum nefndum og störf þeirra ganga vel. Stjórnarmenn skipta með sér verkum varðandi nefndarstörfin. Hestamót verður haldið 13. júní. Sótt hefur verið um vegna Skógarhólamótsins í júní og útvega þarf mann vegna mótsins.
Upplýst var að kappreiðar í sumar kæmu upp á sjómannadeginum og verður því skipt um mótsdag. Fulltrúar allra nefnda mættu á þennan stjórnarfund og skýrðu frá starfi nefndanna sem hefur gengið afar vel. Framkvæmdanefnd var falið að sjá um áburðardreifingu.
Samþykkt var að kaupa 10 tonn af áburði og rætt var við Landvernd og Guðleif Sigurjónsson um áburðarstyrk. Hagbeit á Mánagrund kostar nú kr. 1500 á mánuði. Samþykktar voru sérstakar  hagbeitarreglur og lagt ríkt á við félaga að fara eftir þeim. Námskeið í reiðmennsku voru rædd ítarlega og ákveðið að halda slíkt námskeið þegar færi gefst. 
Verkefnum var skipt milli stjórnar og nefndarmanna á kappreiðum félagsins í júní. Jón Þórðarson leiðbeinir unglingum á unglingakeppni sem fyrirhuguð er á Hellu. Rætt var um hópreið á hestum á fjórðungsmótið en ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag.
Firmakeppnin var haldin 27. maí á uppstigningardag og hafði fjáröflunarnefnd veg og vanda af henni. Um 200 einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki styrktu félagið með aðild sinni. Veður var gott til keppni og félaginu til sóma. Kappreiðar fóru fram sunnudaginn 13. júlí og hófust með góðhestadómum. Um 250 manns sóttu mótið.
Samþykkt var að Ingvar Hallgrímsson yrði dómari og skeiðeftirlitsmaður á Skógarhólamóti 26. júlí. 
Þörf er á að laga veginn að byggingasvæði félagsins. Nálgast þarf styrk þann sem sveitarfélögin á Suðurnesjum gáfu vilyrði fyrir vegna Landsþings hestamanna á síðasta ári.
Samþykkt var að Arnoddur tæki að sér að koma reiðskóla af stað og ræða við Rafn Sveinsson um að taka að sér kennsluna. Ákveðið að byrja með reiðskólann í girðingu félagsins að Fitjum. Gjaldið verður 1500 kr. fyrir 5 klst. kennslu. 
Gjald fyrir teikningar af hesthúsum og fyrir 8 hestahús verður kr. 8000 en 12.000 fyrir 16 hesta hús. Þessu fylgir það skilyrði að teikningar verði leystar út fyrir áramót, annars hækka teikningar um 20%. Félaginu var úthlutaður 20.000 króna reiðvegastyrkur.
  
1977
Sigtryggur Árnason verður varaformaður félagsins. Engar upplýsingar eru um stjórnarkjör þetta árið í fundargerðum.
Blikur hafa verið á lofti varðandi framtíð Skógarhóla. Lagt er til að þar verði ferðamiðstöð fyrir hestamann , sumarbúðir og námskeiðshald. Mótshald verði í samvinnu við Landssamband hestamanna Þessar tillögur fengu góðar undirtektir en Landssamband hestamanna óskar eftir skriflegri afstöðu. Rætt var um lífrænan áburð og að þiggja hænsnaskít af Reyni Jónssyni. Sigtryggur sér um það. Bera þarf á Bergið. Upplýst var að 60.000 kr. eru til reiðu vegna reiðvegastyrks hjá Vegagerð ríkisins  og var því fagnað. Formaður hefur haft samband við sveitarstjóra og bæjastjóra á Suðurnesjum vegna styrks fyrir reiðskóla og fengið jákvæð viðbrögð við því. 
Farið var út á Mánagrund og Berg ásamt Guðleifi Sigurjónssyni og landið skoðað. Ákveðið með áburðardreifingu og rætt um að dreifa á Bergið með flugvél. Ákveðið að kaupa fimm hnakka og átta hjálma vegna reiðskóla félagsins. Miklar umræður urðu um reiðskólann og stjórn hans. 
Samþykkt var að opna Mánagrund til beitar 7. júní. Kappreiðar til umræður og kappreiðabrautin verður mæld. Kvartað um of strangar reglur í gæðingakeppninni, þannig að sá sem væri ekki skuldlaus hefði fyrirgert rétti sínum. Töluverð óánægja vegna þessa. Samþykkt var að leita sáta við þá sem þetta varðaði. Rætt um að fá hús, um 60 fm, frá sölunefnd varnarliðseigna. Sigtryggur gengur í málið. Rætt um að vinna að grasrækt í Grindavík.
Sigtryggur athugar með vatnsöflunarmál fyrir Mánagrund og hefur það gengið vel. Hægt er að fá 40 fm skúr frá sölunefndinni og kvaðst Sigtryggur hafa athugað málin og var talað um að nýta skúrinn fyrir kappreiðar félagsins.
Formaður upplýsti að hann hefði haft samband við sveita- og bæjarstjóra á Suðurnesjum viðvíkjandi styrk vegna reiðskóla og hefði fengið jákvætt svar.
Orðsending barst frá Þresti Einarssyni þess efnis að hægt væri að fá ca. 40 fm skúr frá sölunefnd varnarliðseigna. Sigtryggur upplýsti að hann hefði athugað þessi mál nokkuð og kom fram áhugi á að nýta skúrinn við kappreiðarsvæði félagsins. Kaupverð á skúrnum, kr. 50.000, var samþykkt og var Ólafi Gunnarssyni og Guðmundi Gestssyni falið að sjá um útvegun manna og tækja til að sjá um flutninginn. 
  
1978
Maja Loebell var kjörin formaður Hestmannafélagsins Mána 1978.
Ritari var Gunnar Árnason
Ragnhildur Guðjónsdóttir gjaldkeri
Aðrir í stjórn voru Sigtryggur Árnason og Ragnar Þór Skúlason
Sextán nýir félagar voru teknir inn í Hestmannafélagið Mána.
Tveir sérfræðingar frá Búnaðarfélagi Íslands komu til að skoða grasrækt félagsins. Voru þeir fengnir til ráðuneytis um framhaldandi ræktunarþörf . Ráðunautarnir ráðlögðu að bera á landið 16 tonn af áburð og mætti þá reikna með 12 hestum á hektara. Græðir 2 væri heppilegur áburður. Reyna ætti einnig þrífosfatáburð, hann vantaði sennilega í jarðveginn. Talið heppilegt að taka jarðvegssýni og efnagreina það. Rætt var um að hafa salt fyrir beitarhestana á sumrin og sleppa þeim ekki fyrr en gras væri það sprottið að það væri að minnsta kosti þverhandarhátt. Skaðlegt væri að beita langt fram á haust. Rætt var um að sækja um styrk til Landaverndar og biðja bæði um fræ og áburð til að rækta upp ógróna mela á Mánagrund. 
Rætt um hækkun á verði fyrir teikningar af hesthúsum. Ákveðið var að halda Dag hestsins á veglegan hátt á Mánagrund.
Rætt var um kaup á húsi á Hafnargötu 35 af Ragnari Skúlasyni, Gömlu Alþýðubrauðgerðina. Stjórnin samþykkir að kaupa húsið fyrir hönd Hestmannafélagsins Mána fyrir kr. 400.000. Skuldbindur seljandi sig til að flytja húsið á Mánagrund og ganga frá því tilbúnu til afnota. Greiða skal strax kr. 300.000 og 100.000 síðar á árinu. Hús sem keypt var á Keflavíkurflugvelli var skemmt og reyna á að selja það. Hús þarf að fá fyrir fyrirhugaðan reiðskóla barna og unglinga sem hefst bráðlega.
Hestamenn hvattir til að eignast félagsbúning síns félags og vera í honum á Landsmóti hestamanna 1978. Sérstaklega á þetta við knapa sem keppa fyrir hönd félagsins. Ekki er talið eðlilegt að utanfélagsmenn klæddust þessum búningi. Tillaga kom fram um að búningurinn verði áður samþykktur jakki, ljósar buxur, ljós peysa og dökk reiðstígvél.
Ekki færri en 153 fyrirtæki tóku þátt í firmakeppninni og fór keppnin fram á nýjum 300 metra velli félagsins.
Guðmundur Elíasson var gerður að heiðursfélaga Mána
Rætt var um hesthús og lóðir. Fyrir liggja hjá byggingafulltrúa 10 umsóknir um hesthús en stjórnin mælir með því að úthluta 5 lóðum í viðbót í öðrum áfanga. Lóðahafar leggi undirlag vegar og mætti nota það efni sem félagið hefur látið keyra að en félagið sjái um yfirlag og viðhald og greiðist sá kostnaður jafnt af öllum lóðahöfum miðað við hesthússtærð. Setja þarf ákveðnar reglur um hve lengi menn geti haldið lóðunum. Umsækjandi verður að vera meðlimur í Mána og vera skuldlaus við félagið.
Viðræður höfðu farið fram um vatnslögn á svæði Mána og kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að lögnin verði lögð með hitaveitustokknum til Sandgerðis. Einar Þorsteinssyni var falin umsjón með vatnslögninni. Ákveðið var að breyta skipulagi á hesthúsasvæðinu með það fyrir augum að nýta svæðið betur og teikningar lagðar fram þar að lútandi. 
Samþykkt var að senda út fréttabréf um hesthúsareglur, vatnslögn og frá þingi Landsmóts hestamanna. Fréttabréf af þessu tagi er nýjung.
  
1979
Byggingarnefnd Mána falið að skila inn greinargerð um hesthúsamálin. Grindvíkingar eru nú komnir inn í félagið og var lagt til að kosin yrði nefnd þriggja Grindvíkinga og tveggja til vara. Rætt var um fá land og aðstöðu fyrir félagið þar og sérstaklega var fjallað um aðstöðu hestamanna í Grindavík. Grindvíkingar hafa áður tekið þátt í firmakeppnum félagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Grindvíkingar eru nefndir í fundargerðum Hestmannafélagsins Mána .
Samþykkt var að kanna afstöðu bæjarstjórnar til félagshesthúss og bréf lagt fram til bæjarstjórnar varðandi þetta og lögð fram drög að skipulagi um hagbeit á Mánagrund.
Formaður félagsins 1979 var kosinn Þórarinn Þórarinsson
Gunnar Árnason ritari
Auðunn Guðmundsson gjaldkeri.
Meðstjórnendur:
Sigtryggur Árnason
Kolbrún Guðjónsdóttir
Hallgrímur Jóhannesson
Afrakstur firmakeppni var góður og inn komu 1.8 milljón kr. hjá 202 fyrritækjum og einstaklingum á Suðurnesjum. Beitarmál til umræðu og samþykkt var að lýsa yfir vilja til að taka alla þá hesta sem verið hafa á beit á Mánagrund á beit strax. Beitt verður fram til 1. sept. en engri haustbeit er lofað.
Nýtt skipulag síðari hluta fyrsta áfanga að Mánagrund og til ráðstöfunar eru 8 lóðir undir 8 hesta hús. Stjórnin leggur til að þessi nýja gata beri nafnið Faxagrund. Lagt verður gatnagerðargjöld á öll hús á Mánasvæðinu.
Rætt um að hringvelli félagsins breytt í P-völl og Einari Þorsteinssyni falið verkið í samráði við skipulagsnefnd Keflavíkur og annarra bæjaryfirvalda ef með þyrfti. Sigtryggur Árnason falið að yfirfara girðingar Mána til að missa þær ekki í niðurníðslu.
Vilhjálmur Grímsson bæjartæknifræðingur segir að hæðapunkta vanti á byggingarsvæði Mána og stinga þarf út þessa punkta sem eru nauðsynlegir vegna framkvæmda á svæðinu.
Tuttugu og tveir nýir félagar voru teknir inn í félagið á aðalfundi. 
Tillaga kom fram frá Maju Loebell þess efnis að hver lóðahafi sjái sjálfur um bráðabirgðavegi að sínu hesthúsi og var tillagan samþykkt. 
Tekið var til endurskoðunar verð framkvæmda á þeim lóðum sem Máni hefur haldið fyrir sig og var ákveðið að selja þær framkvæmdir á kr. 400.000 pr. lóð. Stjórn Mána lítur svo á að lóð sem skapaðist við breytt skipulag við Mánagrund og framkvæmdir á lóðinni séu eign Mána.
Grindavíkurnefnd var skipuð til að vinna að hagsmunamálum Grindvíkinga. Unnið var að gerð hringvallar og kannað með land til beitar, einkum Seltjörn. Landeigendur og Landvernd eru jákvæð í þessu máli.
 
1980
Rætt um að kynna sveitarfélögum á Suðurnesjum starf Mána enn frekar. Rætt einnig um land á Stapa til að græða og girða. Vegamál rædd og ákveðið að bera ofan í veginn við Mánagrund. 
Rætt um hagbeit í Holti í Stokkseyrarhreppi. Ólafur Dýrmundsson ráðunautur og beitarsérfræðingur hefur skoðað Mánagrund og segir ekki hægt að beita fleiri hestum þar en 50. Búið var að panta beit fyrir 80-90 hesta. Sigtryggur Árnason biðst formlega lausnar úr stjórn Mána vegna anna.
Grindavíkurnefnd var skipuð til að vinna að hagsmunamálum Grindvíkinga. Unnið var að gerð hringvallar og kannað með land til beita og kom helst til greina land við Seltjörn og voru bæði landeigendur og Landvernd jákvæð í því máli.
Hestaþing Mána var haldið á Mánagrund 14. og 15. júní. Keppnisgreinar: A flokkur, B flokkur, unglinga, 12 ára og yngri, unglinga 13—15 ára, opin töltkeppni, 800 m brokk, 800 m stökk, 350 m stökk, 250 m stökk, 250 m skeið og 150 nýliðaskeið.
Helst bar það til tíðinda á mótinu að Börkur Ragnars Tómassonar setti nýtt Íslandsmet í nýliðaskeiði, rann skeiðið á 14,2 sek. Knapi var Tómas, sonur Ragnars. Þá geystist hin aldna kempa hestamennskunnar, Sigurður Ólafsson, inn á völlinn og gerði sér lítið fyrir og hirti þriðju verðlaun í skeiði.
Ágrip af grein um starfsemi Mána úr Faxa 1980 eftir Jakob Indriðason:
 
„Þegar ég nú á vordegi lít yfir grænkandi Mánagrundina leitar hugurinn 11 ár aftur til baka, þegar við nokkrir Mánafélagar stóðum á þessu örfoka landi suðvestur á Berghólum, með fötu í hönd. 
Okkar beið bílhlass af áburði og fræi, sem við hugðumst dreifa á melinn. Það land sem við vorum að byrja á að græða upp, hafði þá verið girt allt, eða 80 hektarar. Auðvitað hefði þetta verið óframkvæmanlegt fyrir þetta unga og févana félag, ef ekki hefði notið við stuðningur einstaklinga, fyrirtækja, bæjarfélaga og ríkisins. Bæði girðingarvinnan og sáningin var öll unnin í sjálfboðavinnu af Mánafélögum og er sáralítið eftir að græða upp innan girðingar. 
Mánagrundin hefur leyst mikinn vanda hjá hestamönnum á Suðurnesjum með beit, þó að sjálfsögðu leysi hún ekki allan vanda. Þarna hefur líka verið komið upp tamningagerði, æfingavelli og síðast en ekki síst 800 m beinni hlaupabraut fyrir kappreiðar. Einnig hafa allar þessar framkvæmdir verið unnar í sjálfboðavinnu af félögum, svo og velunnurum þeirra. Fyrir þremur árum var hafist handa við byggingu hesthúsa eftir skipulagi því er Hestamannafélagið Máni hafði látið gera, á landi því er þeim hafði verið úthlutað af Keflavíkurbæ. Þar eru nú fullbyggð og í smíðum 16 hesthús fyrir 8 eða 16 hesta hvert. Vegir hafa verið lagðir að þessum húsum og verið er að leggja vegi að lóðum, sem hefur þegar verið úthlutað. Vatn hefur verið lagt á svæðið. 
Allt eru þetta miklar framkvæmdir og af fullum krafti er haldið áfram að vinna eftir því skipulagi sem áður er að vikið, og þó það falli ekki inn í skipulagið hefur verið unnið að samskonar málum í nagrannabyggðunum, þó sérstaklega í Grindavík. Að framansögðu má ljóst vera, að hestamenn á Suðurnesjum standa vel að sínu félagi. Það hafa verið haldnar kappreiðar á hverju ári allt frá stofnun þess, svo og firmakeppni fyrstu árin á landi Ásgarðs við Garðskaga, en hin síðari ár á Mánagrund. 
Námskeið í meðferð hesta hafa verið ár hvert. Einnig hefur félagið tekið þátt í landsmótum hestamanna bæði á Norður og Suðurlandi og hafa þá Mánafélagar farið á þau ríðandi, t.d. á landsmót að Hólum í Hjaltadal, að Vindheimamelum og eins á Þingvöll og stundum fjölmennt og vel ríðandi, enda unnið til verðlauna á þessum mótum. Félagar í Mána eru nú 166 karlar og konur á öllum aldri. Hestamannafélagið Máni var stofnað í desember 1965 og verður því 15 ára á þessu ári. Hagur félagsins hefur ætíð farið vaxandi, enda verkefnin sem við er að fást skemmtileg. Samvinnan við hestinn er hverjum manni holl.“
Stjórn hestamannafélagsins skipa nú:
Reynir Óskarsson Sandgerði, formaður
Loftur Jónsson Grindavík, ritari
Auðunn Guðmundsson Keflavík, gjaldkeri
Borgar Ólafsson Keflavík, meðstjórnandi,
Sigtryggur Árnason Keflavík, meðstjórnandi.
 
„Dreifbýlismenn og þeirra ráðunautar hafa nokkrar áhyggjur af ört fjölgandi hrossaeign þéttbýlismanna, vegna ofbeitar. Sjálfsagt er það á rökum reist, en það skyldi þó ekki vera að það væri einhvers staðar melur sem mætti græða upp svo þar yrði snöp fyrir hest? Minnumst þess að landið bregst ekki, ef eitthvað er gert fyrir það.“
„Félagar í hestamannafélaginu Mána í Keflavík héldu hestamót á Mánagrund laugardaginn 
9. ágúst og sunnudaginn 10. ágúst og var það kallað metamót. A laugardeginum fór fram opin keppni í hestaíþróttum og kappreiðar, en sunnudagurinn var helgaður kappreiðum.
Kappreiðavöllurinn á Mánagrund er í mjög góðu standi í sumar og var jafnvel búist við að Íslandsmet yrðu sett. Það kom reyndar á daginn að hestar hlupu undir gildandi Íslandsmeti og ekki í einni grein,heldur tveimur, 800 metra stökki og 400 metra stökki. Auk þess hlupu hestar á besta tíma sumarsins í 350 metra stökki og 250 metra stökki. 
Kappreiðar Mána á Mánagrund stóðu undir nafninu Metamót. Það leit ekki út fyrir í byrjun að neitt yrði úr kappreiðunum því veðrið var með afbrigðum leiðinlegt, rigning og gjóla og völlurinn háll. Á laugardeginum náðust ekki mjög góðir tímar nema að Stormur, Hafþórs Hafdal, hljóp undir gildandi Íslandsmeti í 400 metra stökki, hljóp á 27.8 sek. Seinni daginn tóku Íslandsmetin að tínast inn. Þrátt fyrir mikla rigningu og hálan völl náðu 
hestarnir að sýna sitt besta.“
 Vísir, 12. ágúst 1980

1981
Beitarmál brenna enn á félagsmönnum Mána og fram kom að Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri tók illa í að félagið fengi beitarland á Vogastapa. 
Staða fjárhagsmála rædd og innheimta þarf félagsgjöld hjá þeim sem ekki hafa borgað. Lög félagsins rædd og lagt til að samin yrðu ný lög og endurskoða félagaskrá vegna mikilla breytinga 1980. Drög að nýjum lögum voru í skoðun nær allt þetta ár. 
Rætt um að fá land hjá Varnarmálanefnd til ræktunar og beitar vestan og norðvestan við þáverandi girðingu á Mánagrund. Aðstaða hestamanna í Grindavík rædd. Mána boðið að taka þátt í sautjánda júní hátíðarhöldunum og það boð var þegið.
Stjórn Mána skipa eftir aðildar árið 1981:
Reynir Óskarsson formaður
Loftur Jónsson ritari
Borgar Ólafsson
Kolbrún Guðjónsdóttir
Auðunn Guðmundsson
Á aðalfundi félagsins gengu inn 8 nýir félagar. Félagssvæði Mána verði Suðurnes sunnan Straums og nafni félagsins breytt samkvæmt því í Hestmannafélagið Máni Suðurnesjum. Samþykkt var að byggt að austanverðu við Faxagrund samskonar 8 hesthús og byggð hafa verið til þessa. 
„Landslið hestamanna var valið á Mánagrund 1981. Fyrsta landslið íslenskra knapa var valið í Keflavík 8. og 9. ágúst. Liðið mun keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumóti eigenda íslenskra hesta, sem verður háð í Larvik í Noregi um mánaðarmótin ágúst/september. Evrópumót þetta er það fimmta í röðinni og hafa Íslendingar tekið þátt í þeim öllum og háð þar harða keppni við Þjóðverja um sigrana. Áður var þó tæpast hægt að kalla keppnissveitina landslið, þar sem hún fór utan á vegum SÍS, sem hefur annast markaðsmál og sölu á íslenskum hestum til Evrópu um langt skeið. Nú hefur hinsvegar verið tekin upp ný skipan mála, þannig að Landssamband hestamannafélaga hefur orðið aðili að Evrópusambandi eigenda íslenskra hesta sem velur nú landslið. SÍS annast markaðsmál eftir sem áður. Landsliðið skipa sjö keppendur og þurfa hestar þeirra að vera æði fjölhæfir, því helst þurfa að vera fimm keppendur í hverri grein, sem eru skeið, tölt, hlýðni keppni, fjórar gangtegundir og fimm gangtegundir. Ekki er sennilegt að það náist, en því fjölhæfari sem hestarnir eru, þeim mun meiri möguleikar eru á að sigurvegari mótsins verði úr röðum Íslendinga. Landsliðsvalið fer fram á opnu hestaíþróttamóti, sem verður háð á Mánagrund. Jafnframt verða þá haldnar ágústkappreiðar hestamannafélagsins Mána og má búast við að þar keppi flest hörðustu kappreiðahross sumarsins. Skráning fyrir íþróttamótið er hjá Einar Þorsteinssyni en kappreiðahross skrá Borgar Ólafsson og Reynir Óskarsson.“
  Mbl. 1984, Valdimar Kristinsson

 
Reglur um bygginga og athafnasvæði Mána  (landið, sem afmarkast af Sandgerðisvegi að sunnan, Garðvegi að austan og bæjarmörkum Keflavíkur að vestan og norðan):
Hesthúsin séu 1 eigu fullgildra félagsmanna og eingöngu notuð til starfsemi, er viðkemur hestamennsku.
2. Hesthúsaeigendur ber að fara að öllu leyti eftir fyrirmælum byggingarfulltrúa um frágang húsa, lóða og girðinga.
Ekki er lóðarhöfum heimilt að ráðstafa úthlutaðri lóð til annars félagsmanns. Um ráðstöfunarrétt lóða gilda sömu reglur og hjá Keflavíkurbæ.
3. Lóðarumsóknir skulu samþykktar af stjórn Mána áður en lóð er úthlutað af bygginganefnd. Lóðarumsækjandi setji tryggingu fyrir greiðslu gjalda af lóðinni til félagsins.
Þurfi að leggja á hesthúseigendur gjöld umfram það er nú er í gildi vegna vega, vatnslagna, rafmagns eða annarra framkvæmda, er sérstaklega varða hesthús félagsmanna, skulu þau hljóta samþykki félagsfundar.
5. Öll skipulagsmál á hesthúsasvæðinu og samskipti við bæjaryfirvöld varðandi þau, séu í höndum stjórnar félagsins. Allar breytingar skipulags skulu öðlast samþykkis félagsfundar.
6. Fjármál öll er varða framkvæmdir á félagssvæðinu vegna hesthúsa félagsmanna sérstaklega og fjármagnaðar eru með gjöldum hesthúsaeigenda, skuli vera fráskilin félagssjóði.
6. Kjósa skal á félagsfundi þrjá menn í hesthúsanefnd. Í nefndinni skulu vera þrír hesthúseigendur er kosnir skulu til eins árs í senn. Þeir séu ekki í aðalstjórn Mána. Nefndin skal skipuleggja og sjá um sameiginlegar framkvæmdir sem kostaðar eru af gjöldum hesthúseigenda af húsum sinum. Ekki þarf nefndin samþykki hesthúseigenda eða félagsfundar fyrir þeim framkvæmdum, en ber að gæta þess að verkin séu vel unnin. Gjaldkeri félagsins annast innheimtu samþykktra gjalda af hesthúseigendum og greiðir reikninga vegna framkvæmda hesthúsanefndar úr sjóði hesthúseigenda. Ekki er hesthúsanefnd heimilt að láta vinna fyrir meira fé en til er í sjóðnum hverju sinni. Gjaldkeri félagsins gerir rekstraryfirlit vegna framkvæmda hesthúsnefndar og stöðu hesthússjóðs og leggur það fyrir aðalfund félagsins.
8. Hestmannafélagið Máni hefur forkauprétt að hesthúsum á svæðinu.
9. Þeir sem ekki virða ofangreindar reglur fyrirgera rétti sínum sem félagsmenn og hafa ekki nein afnot af eignum og aðstöðu félagsins.
  
1982
Hestaþing Hestamannafélagsins Mána í Keflavík var haldið um helgina 5. og 6. júní síðastliðinn í ákaflega góðu veðri. Góðhestar voru dæmdir á laugardeginum en kappreiðar og góðhestasýning ásamt verðlaunaafhendingu voru á sunnudeginum. Sigurður Ólafsson skeiðkappi var gerður heiðursfélagi Mána og var honum afhentur veglegur verðlaunapeningur til staðfestingar því.
Sautján nýir félagar gengu í félagið á aðalfundi, flestir úr Keflavík en nokkrir einnig úr Sandgerði, Garði og Grindavík.
Fram kom að 1981 hefðu aðeins tvö sveitarfélög á Suðurnesjum styrkt Mána með framlögum, þ.e. Keflavík og Njarðvík. Samþykkt var að menn mættu vinna af sér gjöld, ekki síst unglingar sem gætu lagt fram vinnuframlag sem næmu 10 klukkustundum.
Stjórnina skipuðu 1982 þessir aðilar:
Hallgrímur Jóhannesson formaður
Páll J. Pálsson ritari
Sæþór Þorláksson gjaldkeri
Auðunn Guðmundsson meðstjórnandi
Ólafur Gunnarsson meðstjórnandi
Íslandsmót í hestaíþróttum var haldið á félagssvæði Hestamannafélagsins Mána 21. ágúst. Góð þátttaka var í flestum greinum mótsins og keppni yfirleitt nokkuð jöfn. Veður var hagstætt til mótshalds báða dagana, hlýtt en sólarlaust á laugardag en á sunnudag var sólskin og smá vindgola. Að öðrum keppnisgreinum ólöstuðum er það tvímælalaust töltið sem mestum vinsældum á að fagna meðal áhorfenda. Að þessu sinni var það norsk stúlka, Olil Amble, sem vann töltkeppnina á hestinum Fleyg frá Kirkjubæ. Hlaut hún 103 stig í forkeppninni og 96,5 stig í úrslitum. Hún sigraði einnig í fjórgangi og hlýðnikeppni og var jafnframt stigahæst í íslenskri tvíkeppni en það eru samanlögð stig úr tölti og fjórgangi eða fimmgangi. Hlaut hún 169,03 stig. 
Stigahæsti keppandi mótsins varð Tómas Ragnarsson en hann er aðeins sextán ára gamall en hefur í sumar skipað sér á bekk með fremstu reiðmönnum landsins með árangri sínum. Sigraði hann einnig í fimmgangi með 73,24 stig en í samanlögðu var hann með 369,74 stig. Í unglingakeppninni voru tveir keppendur sem nokkuð skáru sig úr, í eldri flokknum varð stigahæstur Sævar Haraldsson með 227,05 stig, sigraði hann í bæði fjórgangi og tölti, varð annar í hlýðniæfingum og fjórði í fimmgangi. Er hér á ferðinni einn efnilegasti reiðmaður yngri kynslóðarinnar og hefur hann vakið athygli fyrir prúðmannlega reiðmennsku. Í yngri flokknum bar Haraldur Snorrason höfuð og herðar yfir aðra keppendur og á það einnig við í orðsins fyllstu merkingu. Sigraði hann í tölti, fjórgangi og íslenskri tvíkeppni og varð stigahæstur með 152,95 stig. 
  
1983
Þrettán sóttu um inngöngu í Hestmannafélagið Mána á aðalfundi 6. mars og voru flestir úr Keflavík og Höfnum. Átök um fjármál einkenndu aðalfundinn þetta ár og talið að ársgjaldið væri of hátt. Fundarsókn þótti með lélegra móti en þrettán nýir félagar voru samþykktir inn í félagið.
Mjög vel tókst til með reiðvegagerð á árinu undir stjórn Hákonar Kristinssonar og taldi að skilyrðislaust ætti að halda áfram á sömu braut.
Stjórn Hestmannafélagið Mána 1983:
Hallgrímur Jóhannesson var endurkjörinn formaður
Gjaldkeri er Sæþór Þorláksson
Páll J. Pálsson ritari.

 
„Fimm ára knapi var yngstur í unglingakeppni Mána í byrjun júní. Eftir að veðurguðir höfðu verið hagstæðir hestamönnum á Suðurlandi vorið 1983 endaði sælan með ósköpum í Keflavík laugardaginn 4. júní er gæðingakeppni Hestamannafélagsins Mána fór fram. Rigning var mikil og tilþrif hestamanna því ekki eins og við mátti búast. Þó voru einkunnir efstu hesta furðu góðar. 
Daginn eftir er verðlaunaafhending fór fram, svo og kappreiðar, var veðrið skárra. Þegar hellirignir á meðan á gæðingakeppni stendur er ekki við að búast að einkunnir verði háar. Þó fengu þeir hestar sem efstir urðu í Keflavík furðu háar einkunnir. Maja Loebell sigraði tvöfalt og ekki í fyrsta skipti á Haka í B flokki með 8,30 í einkunn en Laska í A flokki með 8,14 í einkunn. Í öðru sæti í B flokki var Dior Hallgríms Jóhannessonar með 8,12 í einkunn. Í þriðja sæti var Bliki Brynjars Vilmundarsonar sem Olil Amble sat með einkunnina 8,09. Í öðru sæti í A flokki var Bára Jóns Þórðarsonar, sem sat hana sjálfur, en Bára fékk 7,87 í einkunn. Kolbakur Hákonar Kristinssonar var í þriðja sæti með einkunnina 7,85 en Guðmundur Hinriksson sat Kolbak. 
Fáir keppendur voru í unglingakeppninni enda flestir farnir í sveitina. Efstur í yngri flokki var Þorvaldur Auðunsson á Ými. Jón Guðmundsson var annar á Gæfu en Sigríður Ásta Geirsdóttir, sem er ekki nema fimm ára gömul, var í þriðja sæti á Óðni. Í eldri flokki sigraði Sigurður Kolbeinsson á Flugar. Unnur Guðmundsdóttir var í öðru sæti á Skyggni en Guðmundur S. Ólason þriðji á Eldi. Geysilegur fjöldi hesta var skráður í kappreiðamar enda hafa veríð sett mörg Íslandsmet á Mánagrund. Í þetta skipti voru Íslandsmetin látin í friði enda veðráttan ekki hagstæð.“
 Dagblaðið-Vísir 10 júní:

 
1984
Sautján nýir félagar gengu í Hestmannafélagið Mána á aðalfundi þetta ár. Tillaga kom fram um stofnun kvennadeildar innan félagsins en áhugi var ekki mikill og málið tekið af dagskrá með öllum greiddum atkvæðum. 
Hallgrímur Jóhannesson var endurkjörinn formaður
 Gunnar Árnason var kosinn gjaldkeri
Jóhannes Sigurðsson var kosinn ritari
Meðstjórnandi er Guðmundur Jónsson 
Mótsdagar á árinu verða sem hér segir:
1. maí. Firmakeppni Mána
20. maí. Íþróttamót
31. maí. Gæðingakeppni
2. Júní. Kappreiðar
Fram kom hjá skemmtinefnd að lítill áhugi væri fyrir stofnun kvennadeildar félagsins. Samþykkt var að kappreiðar verði eingöngu fyrir félagsmenn, þ.e. innanfélagskappreiðar.
Fundur hesthúsaeigenda á Mánagrund, Faxagrund, sem haldinn var í Framsóknarhúsinu 14. mars 1984 hvatti stjórn Hestmannafélagsins Mána til að hefja nú þegar undirbúning framkvæmda að félagslegri aðstöðu á svæði félagsins í Keflavík.
Sex nýir félagar voru teknir inn í félagið.
Aðalfundur Hestmannafélagsins Mána samþykkti að fela stjórn félagsins að reyna til þrautar að ná samningum við Varnarmáladeild um eftirfarandi:
A. Fá heimild til að girða nátthaga fyrir beitarhross á Mánagrund upp frá efri jaðri Mánagrundar að hæfilegri fjarlægð frá Sandgerðisvegi og þaðan að lóðamörkum hesthúsa þeim megin Mánagrundar.
B. Fá heimild til að girða land í Hópsheiði í Grindavík til afnota fyrir hestamenn í Grindavík samkvæmt teikningu þar að lútandi.
C. Fáist heimild Varnarmáladeildar til að girða annað eða bæði þessi svæði. Skal það gert á komandi vori og vera til afnota á komandi sumri.
  
1985
Fjórir nýir félagsmenn teknir inn í félagið. Rætt var hugmynd um byggingu félagsheimilis á Mánagrund.
Nýr formaður félagsins var kosinn Jóhannes Sigurðsson.
Gunnar Árnason gjaldkeri
Ragnhildur Guðjónsdóttir ritari
Meðstjórnandi er Viðar Jónsson 
Rætt var um byggingu félagshesthúss á Mánagrund en talið var að slík bygging myndi kosta um 700.000 kr.
Sigtryggur Árnason ræddi hesthúsamál á Mánagrund og þóttu honum hestar standa í of góðum högum þar sem óþarflega væri borið á. Hann lagði fram umsókn um tvær lóðir á Mánagrund undir byggingu hesthúss sem leiguhúsnæði fyrir félagsmenn. Samþykkt var að vísa tillögu Sigtryggs til byggingarnefndar Keflavíkur til afgreiðslu.
Á fundinn í apríl mætti klæðskeri til að taka mál af þeim félagsmönnum sem ætla að kaupa félagsjakka.
Það liggur fyrir að ráðast þarf í töluvert miklar framkvæmdir á Mánagrund. Þetta svæði var til fyrirmyndar en í dag er ekki sjón að sjá það, segir í fundatgerð 1985. Lagfæra þarf hringvöll og veg upp frá honum, einnig áhorfendasvæði við hringvöll. Hlaupabrautin er varla nothæf, henni þarf að koma í gott stand. Lagfæra það lóð félagsins nr. 16 við Mánagrund. Áætlað er að girða næturhólf í Krókamýri ef leyfi fæst.
„Allt frá stofnun Skátafélagsins Heiðabúa 1937 hefur sumardagurinn fyrsti verið aðal hátíðisdagur þeirra og vígsludagur nýliða. Eftir margar og allstrangar æfingar á liðnum vetri og nám í skátafræðum rennur langþráður fyrsti sumardagur upp. Ungir og gamlir skátar hópast að Skátahúsinu. Veðurfar skiptir ekki máli. Allt verður er gott — bara dálítið mismunandi gott. Og eitt af því sem skáti á að læra, er að laga sig að veðri eins og hverju öðru er við verðum að búa við hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni. Við skátahúsið taka foringjarnir á móti nýliðum og öðrum skátum sem ætla að taka þátt í skrúðgöngu um bæinn til kirkju þar sem nýliðarnir vinna skátaheitið. Sveitaforingjar fylkja sveitum sínum undir yfirstjórn félagsforingjans og aðstoðarfélagsforingjans og síðan er „marsérað" af stað, gjarnan með lúðrasveit í broddi fylkingar ef kostur er á. Stundum hafa hestamenn úr hestamannafélaginu Mána bætt virðuleik á fylkinguna og voru þá riddarar þessir með fána í fararbroddi. Oftast er skrúðganga skáta mjög fjölmenn.“
  Faxi 1985

 
  
1986
Fram kom að innheimtumál eru í ólestri hjá félaginu og gera þarf gangskör að innheimtu félagsgjalda.
Fjórtán nýir félag voru teknir inn í félagið.
Frá stjórnarkjöri:
Jóhannes Sigurðsson var einróma endurkjörinn formaður
Ragnhildur Guðjónsdóttir var endurkjörin ritari til tveggja ára
Kristján Sigurðsson var kosinn gjaldkeri
Tillaga um að innheimta félagsgjöld með gíróseðlum var samþykkt. Einnig var samþykkt tillaga um að koma upp aðvörunarmerki á Sandgerðisvegi um hestaumferð og kanna hvort unnt væri að koma upp síma á félagssvæðinu.
Hulda Geirsdóttir var skipaður fréttaritari Mána enda lítið verið um fréttir frá félaginu í blöðum hestamanna og þarf að bæta úr því.
Mánahesturinn eftir Erling Jónsson
„Ég sá fyrir mér Mánahestinn ljóslifandi,“ sagði Erlingur Jónsson, myndhöggvari, í viðtali við Aftenposten í Noregi. Erlingur hafði lokið við gerð „Mánahestsins", styttu sem 
var komið fyrir við bæjarmörk Keflavíkurkaupstaðar á sumardaginn fyrsta, 24. apríl. 
Er höggmyndin 2,40 m á breidd, 1,70 m á hæð og vegur 350 kíló. 
„Íslendingar eru ekki of auðugir af höggmyndum og mig hefur alltaf langað til að bæta þar dálítið úr skák. Þess vegna tók ég því fagnandi þegar Keflvíkingar báðu mig að gera þessa mynd, sagði Erlingur í viðtali við norska blaðið. „Ég var beðinn um að gera mynd af hesti á skeiði og þegar ég var að skoða mig um á Mánagrund, svæði Hestamannafélagsins Mána, kom ég auga á gæðing, sem gaf mér hugmyndina, ég sá fyrir mér „Mánahestinn" ljóslifandi. Á íslensku er orðið fákur haft um góða hesta. Mánafákur er ævintýrahestur og sævarfákur er skipið, sem býður hafinu byrginn. Þetta reyni ég að tjá í myndinni," sagði Erlingur ennfremur.
  
1987
Tuttugu og sex nýir félagar voru samþykktir inn í félagað sem er met á starfstíma Hestmannafélagsins Mána undanfarin 20 ár. 
Mikill áhugi fyrir starfi þess er greinilegur á Suðurnesjum. Rætt var um félagsaðstöðu á Mánagrund og ákveðið að efna til byggingarhappdrættis í sambandi við þær framkvæmdir. Framkvæmdir eru hafnar við grunn félagsheimilisins og rætt um fjáröflun og einnig um sjálfboðavinnu við þessar framkvæmdir og hjálp almennra félagsmanna til við að koma húsinu upp. 
Formaður og gjaldkeri voru einróma endurkjörnir. 
Jóhannes Sigurðsson formaður
Ragnhildur Guðjónsdóttir ritari
Kristján Sigurðsson gjaldkeri
Stjórn Mána var gefin heimild til framkvæmda vegna byggingar félagsaðstöðu og hringvöll á Mánagrund samkvæmt framlögðum teikningum. Öllum bæjarstjórnum á félagssvæðinu hafa verið send óskir um styrk við þessa framkvæmd. Framkvæmdir við grunn félagsheimilis byggja eingöngu á sjálfboðaliðsstarfi.
Íþróttamót íþróttadeildar Mána var haldið á Mánagrund um síðustu helgi og var þátttaka góð. Veður var hið besta þegar mótið fór fram og mátti sjá marga snjalla hesta og knapa sýna hæfileika sína. Mótið hófst á laugardagsmorguninn með keppni yngri knapanna og eftir hádegi fór keppni fram í flokki fullorðinna. 
Í tölti sigraði Símon Ólafsson á Tinna, Þórir Ásmundsson á Eldi í 4 gangtegundum, Viðar Jónsson á Salomon í 5 gangtegundum og í gæðingaskeiði sigraði Jón Guðmundsson á Vin. Þar varð Viðar Jónsson annar á Salómon, Ólafur Eysteinsson á Perlu varð fjórði, Stella Ólafsdóttir á Gjafar varð fjórða og í fimmta sæti varð Páll Sigurðsson á Ögra. 
Glæsilegasti hestur mótsins var valinn og þann titil hlaut Tinni, sem er sameign þeirra Sigurðar Kolbeinssonar og Rúnars Guðbrandssonar. Næsta stórmót verður svo 15. og 10. júní, en þá fer fram hestaþing Mána á Mánagrund. Tinni fékk hæstu einkunn sem gefin hefur verið hjá Mána
Hestaþing Mána fór fram á Mánagrund laugardaginn 13. og sunnudaginn 14. júní sl. Veðurblíðan lék við þá Mánamenn og tókst mótið ákaflega vel að sögn Jóhannesar Sigurðssonar, formanns Mána. Á laugardaginn var keppt í gæðingakeppni og í kappreiðum á sunnudaginn. Það bar helst til tíðinda að Tinni sem þeir Rúnar Guðbrandsson og Sigurður Kolbeinsson eiga í sameiningu, fékk hæstu einkunn sem gefin hefur verið í B flokki hjá Mána. Hæstu einkunn fyrir átti Maja Loebell á Bjarma. Sigurður Kolbeinsson reið Tinna til dóms og fékk hann einkunnina 8. 
Það var mál manna að ekki hafi fyrr verið annað eins úrval af gæðingum og í keppni hjá Mána að þessu sinni. Þá vakti frammistaða yngri kynslóðarinnar mikla athygli og gáfu krakkarnir þeim eldri ekkert eftir í reiðmennskunni nema síður sé. Á sunnudeginum voru kappreiðar og verðlaunaafhendingar fyrir gæðingakeppnina. Kappreiðarnar tókust vel og mátti þar sjá margan fallegan sprettinn.
  
1988
Þrettán nýir félagsmenn voru samþykktir inn í félagið. 
Hjá gjaldkera kom fram að dræm sala hefði verið á happdrættismiðum félagsins vegna byggingar félagsheimilis og félagið hefði borið tap af þessari sölu. Samþykkt var að stjórn félagsins veldi sér sérstakan blaðafulltrúa. Samþykkt var að hafa tvo gjalddaga á ársgjaldi svo skipa mætti upphæðinni hjá þeim sem vildu borga það í tvennu lagi.
Stjórnarkjöri:
Guðmundur Jónsson formaður
Kristín Jóhannsdóttir ritari
Magnea Guðmundsdóttir gjaldkeri
 Meðstjórnandi:
Gunnar Auðunsson.
Þátttaka var góð á íþróttamóti félagsins þar sem keppt var í flokkum unglinga og fullorðinna.
Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna 4. júlí var haldinn hátíðlegur á Keflavíkurflugvelli laugardaginn 2. júlí. Suðurnesjamönnum, starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli ásamt fjölskyldum þeirra var boðið að taka þátt í hátíðarhöldunum sem voru með „carnival"sniði. Félagar í Hestamannafélaginu Mána komu með hesta sína á hátíðarsvæðið og stóðu menn í löngum biðröðum til að komast á bak íslensku hestunum sem vöktu mikla athygli.
Formaður lýsti framkvæmdum á vegum félagsins á liðnu ár. Ræddi hann um þær fjáröflunarleiðir sem farnar voru og einnig framkvæmdir á reiðleiðum. Formaður tók fram að Hákon Kristinsson hefði frá upphafi reiðveganefndra verið starfandi þar og þakkaði honum sérstaklega fyrir hönd stjórnar fyrir vel unnin störf. Ræddi formaður um hin ýmsu störf og fræðslustörf á vegum félagsins og þakkaði viðkomandi. Hann þakkaði einnig bæjarstjórnum í Keflavík og Grindavík stuðning við félagið vel unnin störf.
  
1989
Bygging félagsheimilis miðar nokkuð áleiðis og samþykktir voru inn í félagið 16 nýir félagsmenn.
Stjórnina skipa:
Guðmundur Jónsson formaður
Magna Guðmundsdóttir gjaldkeri
Helgi Tómasson gjaldkeri
Meðstjórnendur:
Arnoddur Tyrfingsson og Gunnar Auðunsson.
Tillaga Rúnars Guðbrandson þess efnis að íþróttadeild fengi ágóðann af firmakeppninni til skeiðvallargerðar var samþykkt. Íþróttadeildin stóð í fjárfrekum framkvæmdum þetta árið.
Hestmannafélagið Máni tók að venju þátt í þrettándann að venju og settu hátíðlegan blæ á samkomuna. Hefur almenn þátttaka bæjarbúa ekki verið jafn mikil og nú. Keflavíkurbær stóð að hátíðarhöldunum sem fram fóru á íþróttavellinum við Hringbraut að lokinni blysför um bæinn og er þessi siður sem var tekinn upp fyrir nokkrum árum að verða fastur liður í bæjarlífinu. Safnast var saman við jólatréð í skrúðgarðinum og þaðan gengin blysför að íþróttavellinum. Í göngunni voru álfakóngur og drottning, jólasveinar, púkar, ýmsar furðuverur og síðan en ekki síst félagar í Hestamannafélaginu Mána sem riðu um skrautklæddir á glæstum fákum.
  
1990
Þrettán nýir félagsmenn samþykktir inn í félagið.
Stjórnarkjör:
Formaður var endurkjörinn Guðmundur Jónsson
Gjaldkeri er Ragnheiður Júlíusdóttir
Ritari er Brynjar Guðmundsson
Meðstjórnandi er Jón Olsen.
„Hestaþing Mána fór fram á svæði félagsins á Mánagrund í júní. Auk gæðingakeppni fóru fram kappreiðar og opin töltkeppni þar sem Fríða Steinarsdóttir sigraði á hestinum Ögra og náði lágmarkspunktafjölda fyrir landsmótið. Í gæðingakeppninni náðust góðar einkunnir, en kappreiðarnar hafa oft verið tvísýnni en í ár. Sigurbjörn Bárðarson náði þó ágætum tíma í 250 m skeiði á hestinum Snarfara sem rann skeiðið á 24,13 sek og Sigurbjörn sat einnig hestinn Hannibal sem fékk tímann 24,95 sek. Hörð keppni varð um efsta sætið í A flokki, en þar sigraði Hinrik Bragason á Fiðringi 7 vetra, fékk einkunnina 8,24. Í öðru sæti varð Sigurður Halldórsson á Svarti 6 vetra, hann fékk 8,20 í einkunn. Fyrri skeiðsprettur Fiðrings var sérlega glæsilegur og réð eflaust úrslitum. Eigandi Fiðrings er Brynjar Guðmundsson en eigandi Svarts er Ástríður Guðjónsdóttir. Í þriðja sæti varð Flosi 9 vetra með 8,13 í einkunn, knapi var Angantýr Þórðarson en eigandi Kristinn Jóhannsson.
Anna Auðunsdóttir lét mikið að sér kveða í kappreiðunum, hún sigraði í tveimur greinum og var kosin knapi mótsins.“
 Morgunblaðið 1990

 
  
1991
Aðalfundur þetta ár var haldinn í félagsheimili Mána á Mánagrund og var þetta fyrsti aðalfundur þar sem þar var haldinn. Teknir voru inn í félagið 15 nýir félagsmenn á þessum fundi.
Stjórnarkjör:
Guðmundur Jónsson gekk úr sæti formanns og í hans stað var kjörinn Brynjar Guðmundsson. Ritari var Rúnar Sigtryggsson
Gjaldkeri Ragnheiður Júlíusdóttir
Meðstjórnendur voru Jón Olsen og Margeir Þorgeirsson.
Fimmtán nýir félagar voru teknir inn og ársgjald var ákveðið 5500 pr. einstakling en 7500 pr. fjölskyldu.
Hörð keppni og ágætar einkunnir í gæðingakeppni og kappreiðum Hestamannafélagsins Mána sem fóru fram í Keflavík helgina 22. og 23. júní. Fengu margir gæðingar háar einkunnir að þessu sinni sem sýnir glögglega að miklar framfarir hafa orðið í þessari íþrótt á Suðurnesjum. Athyglisverðasti knapi mótsins var tvímælalaust Þóra Brynjarsdóttir sem er aðeins 14 ára, en hún keppti við atvinnumennina í A-flokki á hestinum Fiðringi sem er graður og náði þar öðru sæti á eftir knapanum kunna Ragnari Hinrikssyni. 
Keppnin í A flokki var óvenju jöfn og spennandi og mjótt á mununum á milli 5 efstu hestanna. Gammur frá Ingveldarstöðum sem setinn var af Ragnari Hinrikssyni var efstur með einkunnina 8,40. Flottur frá Hofstaðaseli, knapi Þórður Þorgeirsson, var í öðru sæti með 8,39 og Þóra Brynjarsdóttir og Fiðringur frá Ingveldarstöðum voru í þriðja sæti með einkunnina 8,29. Í úrslitakeppninni gerði Þóra sér lítið fyrir og skaust upp í annað sætið og fékk hún geysilegt klapp þegar hún lagði Fiðring á skeiðið. Þóra og Fiðringur höfðu ekki þar með sagt sitt síðasta orð, því þau sigruðu einnig í eldri flokki unglinga og síðan í 150 m skeiði.
BB
Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar fór í heimsókn á félagssvæði Mána og skoðaði reiðhöllina Sörlaskjól. Segir í fundargerð ráðsins að ljóst sé að félagsmenn Mána hafa lyft Grettistaki við að gera Sörlaskjól og æfinga- og keppnissvæði félagsins hið glæsilegasta. 
Samningur félagsins við TÍR um reiðskóla í sumar gengur samkvæmt áætlun og mikil gróska er í barna- og unglingastarfinu.
  
1992
Samþykktir voru inn 17 nýir félagsmenn. 
Vilberg Skúlason fjallaði um sveppasýkingu í hrossum. 
Stjórnarkjör:
Brynjar Guðmundsson gaf ekki kost á sér sem formaður áfram og var Vilberg Skúlason kosinn formaður í hans stað
Ragnheiður Júlíusdóttir gjaldkeri
Ásdís Adolfsdóttir ritari
Meðstjórnendur:
Jóhannes Sigurðsson
Hlynur Kristjánsson
Erfiðleikar eru enn á innheimtu félagsgjalda. Óinnheimtar voru 234.000 kr. og ekki hefur gengið að bjóða út innheimtu á félagsgjöldunum. Innheimta á gjöldum 1991 var mun betri. Tillaga borin upp að samningi milli bæjarstjórnar Keflavíkur, Hestmannafélagsins Mána og Bridsfélags Suðurnesja keppnisdeild. Lagt er til að gengið verði til samninga við þessa aðila í sambandi við uppbyggingu á íþróttamannvirki á félagssvæði Mána.
Samþykkt var tillaga frá sjö félögum þess efnis að lausaganga hunda á athafnasvæði Hestmannafélagsins Mána verði bönnuð.
Deilur hafa risið vegna lagningar nýs vegar í Garðinn. Vegurinn mun liggja frá Reykjanesbrautinni ofan Keflavíkur og tengjast veginum í Garðinn rétt norðan við Helgarvíkurveginn. Ástæðan fyrir deilunum er sú að vegurinn mun liggja yfir svokallaða Mánagrund en þar hafa hestamenn aðstöðu. Vegur mun meðal annars liggja yfir hornið á hlaupabraut hestamannafélagsins Mána. Í viðtali við Víkurfréttir sagði Finnbogi Björnsson, oddviti Gerðahrepps, nýlega að allt hefði verið gert til að koma til móts við hestamennina  „en í Garðinum taka menn ekki einhverja U-beygju út af einhverjum 50 truntum sem eru á beit" sagði Finnbogi meðal annars um kvartanir hestamanna.
Gæðingakeppni og kappreiðar hestamannafélagsins Mána í Keflavík voru háð nýlega við hinar bestu aðstæður. Mikill fjöldi gæðinga var dæmdur og þátttaka í kappreiðunum óvenju mikil. Til dæmis voru fjórtán keppendur í 300 metra brokki, en sú keppnisgrein hefur farið halloka fyrir skeiði undanfarin ár. Knapabikarinn vann Jón Guð mundsson, en glæsilegasti gæðingur mótsins var valinn stóðhesturinn Fiðringur frá Ingveldarstöðum. Fiðringur og knapi hans, Þóra Brynjarsdóttir, sem enn keppir í unglingaflokki, voru einnig í öðru sæti í A flokki gæðinga, eftir að hafa fengið hæstu einkunn í dómi, efst í unglingakeppninni, í fimmta sæti í töltkeppninni. Þá keppti þau einnig í skeiði. Jón B. Olsen þarf ekki að kvíða því að komast ekki á hestbak því hann átti þrjá hesta í úrslitum, var sjálfur í öðru sæti í töltkeppninni auk þess sem dóttir hans, Marta, sigraði í barnaflokki. 
Vilberg Skúlason er greinilega kominn með sterkan skeiðhestastofn því þrír hestar frá honum höfnuðu í verðlaunasætum í skeiðgreinunum og einnig voru tvö barna hans í verðlaunasætum í barnaflokki. 
  
1993
Átján nýir félagar voru teknir inn á aðalfundi félagsins þetta ár. 
Stjórnina skipa:
Vilberg Skúlason formaður
Ragnheiður Júlísdóttir gjaldkeri
Ásdís Adolfsdóttir ritari
Meðstjórnendur:
Jóhannes Sigurðsson
Hlynur Kristjánsson 
Eftirfarandi tillaga barst frá bæjarráði Keflavíkur um drög að samningi milli Keflavíkurbæjar annarsvegar og Hestmannafélagsins Mána og Bridsfélags Suðurnesja hinsvegar. Fundurinn samþykkti mótatkvæðalaust að gefa stjórninni fullt um boð til að ganga til samninga við Keflavíkurbæ.
Bæjarstjórn Keflavíkur samþykkti á fundi sínum þann 6. júlí 1993 að ganga til samninga við Hestamannafélagið Mána, íþróttadeild og Bridsfélag Suðurnesja, keppnisdeild, um uppbyggingu íþróttamannvirkja á félagssvæði Hestamannafélagsins Mána, sem tengjast æskulýðs-, íþrótta og umhverfismálum. Samhliða samningnum verði gert samkomulag um bætt útlit og umhirðu á félagssvæði Hestamannafélagsins Mána. Jafnframt verði gerður samningur um æskulýðsstarf félaganna. Meðfylgjandi tillögunni voru drög að samningi um framangreind verkefni sem send verða íþróttaráði til umsagnar
Í greinargerð segir: 
Með þessari tillögu vilja flutningsmenn tryggja að lokið verði uppbyggingu í æskulýðs- íþrótta og umhverfismálum fyrir Hestamannafélagið Mána og Bridsfélag Suðurnesja. Heildaráætlun nemur kr. 32,000,000 en hlutur Keflavíkurbæjar nemur kr. 18,000,000 um er að ræða 5 greiðslur í peningum á árunum 1994-1998, samtals kr. 8.000.000. Þá leggi bæjarfélagið fram á byggingartímanum í formi efnis, vinnuvéla og vinnuframlags kr. 6,500,000 vegna uppgræðslu og gróðursetningar leggur bæjarsjóður fram plöntur og stjórnarkostnað allt að kr. 1,000,000 og vegna bifreiðastæða, reiðvega og keppnisvallar mun bæjarfélagið leggja til efni og vélarvinnu að verðmæti kr. 2,500,000. 
Hestamannafélaginu Mána, íþróttadeild og Bridsfélagi Suðurnesja, keppnisdeild, hefur vantað betri aðstöðu til æskulýðs- og íþróttastarfs. Með því að skapa félögunum bætta aðstöðu verður hægt að auka æskulýðs- og íþróttastarf á vegum þeirra, og verður gert sérstakt samkomulag um þann þátt. Þá er það afar mikilvægt að mati flutningsmanna sem og meirihlutans alls að lokið verði fullnaðarfrágangi hvað varðar útlit og umhverfi á félagssvæðinu. Samningurinn felur einnig í sér verulega bætt útlit og umhirðu á félagssvæði Hestamannafélagsins Mána. 
Flutningsmenn tillögunnar voru Drífa Sigfúsdóttir, Garðar Oddgeirsson og Ellert Eiríksson.
Sex nýir félagar voru teknir inn á árinu.
Stjórnarkjör:
Formaður félagsins var endurkjörinn Vilberg Skúlason
Vignir Agnarsson gjaldkeri
Hafdís Adolfsdóttir ritari
Meðstjórnendur:
Jóhannes Sigurðsson
Hlynur Kristjánsson
  
1994
Stjórn Hestmannafélagsins Mána þetta ár skipuðu:
Vilberg Skúlason formaður
Guðmundur Snorri Ólafsson gjaldkeri
Ragnheiður Júlíusdóttir ritari
Jóhannes Sigurðsson meðstjórnandi
Hlynur Kristjánsson meðstjórnandi
Nýtt félagsheimili hestamanna 
„Þetta á eftir að gjörbreyta allri aðstöðu og kemur okkur á íslandskortið. Í framtíðinni getum við tekið að okkur að halda Íslandsmót. Þá er verið að fegra allt umhverfið og vil ég þakka Keflavíkurbæ fyrir það framlag. Reiknað er með að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Þá verður hestamannafélagið 30 ára,“ sagði Vilberg Skúlason, formaður hestamannafélagsins Mána, við DV. Máni og Bridsfélag Suðurnesja eru að byggja í sameiningu rúmlega 400 m2 hús með rúmlega 90 m2 kjallara. Það er við hesthúsin á Mánagrund. Máni á 70% og Bridsfélagið 30%. Í kjallaranum verður rekið leðurverkstæði og verslun með hestavörur og þar verður æskulýðsstarfsemi. Einnig baðaðstaða fyrir hesta og geta eigendur komið með og þvegið þá. „Bridsfólk var í sömu vandræðum og við. Það er gott að geta nýtt húsið vel og það eru allir í skýjunum yfir því að vera að fá þessa góðu að stöðu. Þarna verður spilasalur og einnig bridskennsla. Hana hefur vantað, einkum fyrir yngra fólkið," sagði Vilberg.
 DV-Vísir 1985

 
  
1995
Reikningar félagsins til umræðu og vakin athygli á að bæði Mánaþing og árshátíð voru á núlli bæði í tekjum og gjöldum. Tuttugu nýir félagar teknir inn í Mána. Ingvar Hallgrímssyni hefur verið falið að skrá sögu félagsins í 30 ár. Ingvar hvatti félagsmenn til að geyma gögn sem snertu félagið, þau væru sögulegar minjar sem ekki mættu glatast.
Tuttugu og þrír nýir félagar voru teknir inn. 
Í stjórn voru kosin:
Ragnheiður Júlíusdóttir formaður
Jóhannes Sigurðsson varaformaður
Guðmundur Snorri Ólason gjaldkeri
Lárus Þórhallsson ritari
Meðstjórnandi: Bragi Guðmundsson.
Ingvar Hallgrímsson tók til máls og þakkaði það traust sem honum var sýnt með þeirri ósk stjórnarinnar að hann skráði sögu félagsins í 30 ár. Einnig óskaði hann eftir að ritari skráði ræðuna sem Rúnar Guðbrandsson flutti og fræddi fundarmenn á ýmsu sem félagði afrekaði hér á árum áður. Hér voru og eru miklir afreksmenn, sagði Ingvar. Hvatti hann félagsmenn til að halda vel utan um allt sem félaginu viðkemur, reikninga, skýrslur og annað því þetta væru sögulegur menjar sem ekki mættu glatast.
  
1996
Samþykktir 66 nýir félagsmenn inn í félagið á aðalfundi og hafa aldrei verið teknir jafn margir félagar inn í Mána á einu ári.
Stjórnarkjör:
Ragnheiður Júlíusdóttir var endurkjörin formaður
Varaformaður var Lárus Þórhallsson
Gjaldkeri var Svala Jónsdóttir
Ritari var Sigrún Valdimarsdóttir.
Meðstjórnandi Gunnar Maríusson. 
Í grein um átak í gróðurvernd í Tímanum 1996 er Mánamönnum hrósað fyrir frábæran árangur í landverndarmálum Greinin fer hér á eftir í heild sinni:
 
„Einu sinni enn birtast okkur hestamönnum heldur ófagrar lýsingar á ofbeit af völdum hrossa. Þetta endurtekur sig ár eftir ár. Þó var ein frétt af beitarmálum sem okkur var kærkomin, en það var sú viðurkenning sem Landgræðslan veitti Hestamannafélaginu Mána fyrir frábæran árangur í uppgræðslustarfi. Það félag hefur 
grætt upp gróðurlausa mela og breytt þeim í góðan bithaga. Þetta framtak þeirra Mánamanna er svo sannarlega til eftirbreytni fyrir önnur hestamannafélög. Í skoðun á hrossahögum á þessu ári kom í ljós að ástandið er í raun verra en frumrannsóknir í fyrra gáfu til kynna. Í ljós kom að ástand haganna, sem eru í nánd við þéttbýli, er víða mjög slæmt. Þetta eru beitilönd sem félagar í hestamannafélögum viðkomandi þéttbýlisstaða nýta. Oftast eru þessir hagar þannig staðsettir að þeir blasa við almannaumferð. Þegar slík umgengni blasir við ferðamönnum, þá skapar það að vonum slæma ímynd af meðferð okkar á landinu. 
Sú ímynd færist yfir á hestamennskuna almennt og kemur þannig niður á hestamönnum öllum. Menn verða að gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki eingöngu að skemma fyrir mönnum á viðkomandi svæði, heldur fyrir hestamönnum almennt, jafnt ræktendum sem reiðmönnum. Á þessu er hægt að vinna bug með samstilltu átaki. Öll hestamannafélög starfa að stórum hluta í þéttbýli. Það ætti að vera sameiginlegt áhugamál þeirra að laga það sem fer úrskeiðis á þessu sviði. Því verður ekki trúað að ekki sé hægt að ná samkomulagi við viðkomandi sveitarfélög, sem í flestum tilfellum eru eigendur landsins, um úrbætur. Verði það ekki gert, er eins víst að þessum beitilöndum verði lokað með tilskipun'og það er trúlega ekki það sem hestamenn í þéttbýli vilja. 
Í flestum tilfellum eru þessir hagar í lítilli fjarlægð frá heimilum manna og því þægilegt að geta nýtt þá. Það er enginn vafi á því að Landgræðslan myndi styðja menn í þessu starfi eftir því sem hún hefur tök á. Mánamenn, sem þegar búa yfir mikilli reynslu, eru eflaust líka tilbúnir að gefa ráð. Það er kominn tími til að gera eitthvað í þessum málum, en humma þetta ekki fram af sér í hvert skipti sem á vandamálin er bent. Þá endar það með því að þessum hólfum verður lokað. 
Hvernig væri nú að hefja átak strax á næsta ári, þannig að þegar við höldum næst landsmót 1998 verði komið verulegt ræktunarverkefni í gang. Umhverfis- og ferðanefnd Landssambands hestamanna er kjörin til að hrinda þessu í framkvæmd og styðja félögin. Tímarit hestamanna geta síðan flutt okkur fréttir af árangrinum og full ástæða er til að veita því hestamannafélagi verðlaun sem bestum árangri hefur náð á hverju ári. Það yrði áreiðanlega hægt að finna aðila sem vildu standa að slíkum verðlaunum. En þó að þetta átak yrði gert hjá þéttbýlisbúum, þá er pottur víða brotinn hjá hrossabændum og þar er úrbóta þörf. 
Við bændur á ofsetnum jörðum þarf að gera samkomulag um skipan mála með þeim hætti að um landníðslu verði ekki að ræða. Hún er því miður allvíða fyrir hendi. Og ótrúlega seint gengur að fá menn til að viðurkenna vandann og horfast í augu við að uppskera minnkar með ári hverju á ofbitnu landi. Það er raunar alveg makalaust að þess skuli vera dæmi að menn fjölgi jafnvel gripum í þessum högum í stað þess að hvíla landið og gefa því næði til þess að geta gefið fulla uppskeru. Síðan þarf að halda því í jafnvægi. Það er með þessa bændur eins og nefnt var með þéttbýlisbúana hér að framan, að það er ekki þeirra einkamál hvernig þeir umgangast landið. Við heyrum svæsnar sögur af því hvernig menn umgangast fiskimiðin með því að henda ungfiskinum fyrir borð. En þetta er það sama sem þeir sem leyfa grasinu að vaxa til fulls þroska. Þeir koma í veg fyrir möguleika plantnanna til að endurnýja sig með því að eyðileggja rótarkerfið. 
Góðir hestamenn. Um þessi áramót skulum við vinna heit að því að bæta umgengni okkar um landið og gera átak í því að auka gróðurland og þar með haga. Ég heiti á umhverfis- og ferðanefnd Landssambands hestamanna að taka þetta mál upp, um leið og ég heiti á öll hestamannafélög að bregðast vel við. Látum frábæran árangur þeirra Mánamanna, sem þeim er óskað til hamingju með, verða okkur hvatning í þessum efnum. Árangur í þessum efnum myndi vekja athygli og skapa jákvætt hugarfar í okkar garð.“
Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Jakob Jónsson, bóndi að Varmalæk í Borgarfirði, Björn Bjarnason, bóndi í Birkihlíð í Skriðdal og Hestamannafélagið Máni í Keflavík fengu landgræðsluverðlaun fyrir árið 1996. Guðmundur Bjarnason landbúnaðarráðherra afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti að viðstöddum fjölda gesta. 
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sagði m.a. við verðlaunaafhendinguna að með verðlaununum vildi Landgræðslan sýna frú Vigdísi Finnbogadóttur, einstaklingum og Hestmannafélaginu Mána  örlítinn þakklætisvott fyrir ötult starf að landgræðslumálum. Frú Vigdís hefði allan starfsferil sinn sem forseti Íslands lagt ríka áherslu á að hvetja landsmenn til dáða við að takast á við eyðingu gróðurs og jarðvegs, sem væri eitt mesta umhverfisvandamál þjóðarinnar. Með áhuga sínum og stöðugri hvatningu hafi Vigdís náð til þjóðarinnar allrar og átt ríkan þátt í að gera gróðurvernd og skógrækt að sameiginlegu baráttumáli landsmanna, ungra jafnt sem aldinna. 
Landgræðslustjóri sagði að Hestamannafélagið Máni hlyti verðlaunin fyrir ötult uppgræðslustarf á Mánagrund við Keflavík, en árið 1968 kom félagið upp landgræðslugirðingu á Mánagrund með lítilsháttar aðstoð Landgræðslunnar og hóf þar viðamikið uppgræðslustarf með liðsinni Landverndar. Síðan hefur tugum hektara af örfoka melum verið breytt í gróskumikið land sem reynst hefur úrvals beitiland fyrir hross. 
Landgræðsluverðlaunin voru nú veitt í fimmta sinn. Leitað er eftir tilnefningum um verðlaunahafa frá öllum búnaðarsamböndum og umhverfisnefndum landsins, en dómnefnd skipuð Huldu Valtýsdóttur, Sigurgeiri Þorgeirssyni, Níelsi Árna Lund, Sigurði Þráinssyni og Sveini Runólfssyni valdi verðlaunahafana úr tilnefningunum.
Úr Morgunblaðinu 1996 eftir Valdimar Kristinsson:
Í allri umræðu um landvernd og umgengni um landið hefur neikvæð umfjöllun um meðferð hestamanna á landinu verið mjög áberandi.
Landgræðsluviðurkenning Mána
Í allri umræðu um landvernd og umgengni um landið hefur neikvæð umfjöllun um meðferð hestamanna á landinu verið mjög áberandi. Það er því skemmtilegt innlegg í málið þegar hestamannafélagið Máni á Suðurnesjum fékk viðurkenningu frá Landgræðslunni fyrir uppgræðslu á félagssvæðinu. Valdimar Kristinsson kynnti sér hvernig þeir Mánamenn stóðu að málum.
Þar í hópi eru félagar Mána sem hafa grætt upp 100 hektara af gróðurlausu landi á tæpum þrjátíu árum. Ragnheiður Júlíusdóttir formaður Mána sagði að hér væri fyrst og fremst verið að veita forkólfum uppgræðslunnar viðurkenningu.
Spunninn hinn græni vefur
Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið og það á svo sannarlega við um hér því beitiland fyrir hross var mjög af skornum skammti hjá félögum í Mána á þessum árum. Umræða eða stemmning fyrir landgræðslu var hljóðlát á þessum árum og því ljóst að upp var lagt af brýnni þörf frekar en hugsjón einni saman. Uppgræðslan hefur byggst að mestu leyti á tilbúnum áburði og grasfræi en á tímabili var hænsnaskítur notaður með. Horfið var frá því eftir að salmonellusýkingar fóru víða að skjóta upp kollinum á seinni árum. Hægt og sígandi hefur græna teppið á félagssvæði Mána stækkað ár frá ári. Ragnheiður formaður segir að ekki verði látið staðar numið þótt erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa í dag en áður var, viðurkenningin virki vonandi sem hvatning til frekari afreka á þessu sviði og sömuleiðis vonaðist hún eftir að auðveldara verði að fá ýmsa aðila til að styrkja verkefnið. Búið er að girða fjörutíu hektara af ógrónu landi sem til stendur að rækta upp.
Hámarks nýting ­ hófleg nýting
Mánamenn hafa fyrir alllöngu byrjað að uppskera af erfiðinu. Í dag eru allt að eitt hundruð hross félagsmanna í beit á svæðinu. Frá júníbyrjun og fram í desember eru þar samfellt á milli 80 og 90 hross og á sumrin er randbeitt með rafmagnsgirðingu sem færð er daglega. Fyrst á vorin þegar gróður er að ná sér á strik er um dagbeit að ræða þ.e. hrossunum er hleypt út um hádegisbilið og hýst að kvöldi. Hámarksnýting næst með þessu móti án þess að gengið sé nærri landinu. Reiðskóli hefur verið rekinn um árabil hjá Mána og er skólahrossunum beitt þarna auk hrossa sem verið er að þjálfa fyrir keppni. Félagsmönnum er úthlutað beit eftir ákveðnum reglum og er reynt að hafa beitargjaldið í samræmi við það sem gerist í næsta nágrenni, á höfuðborgarsvæðinu. Sérstakur beitarstjóri er skipaður úr röðum félagsmanna og hefur hann umsjón með þessari þjónustu.
Viðurkenning sem vítamínsprauta
Þetta áratuga starf hefur ekki verið mikið í umræðu hestamanna á meðal og því hefur beitilandið þeirra ekki þótt neitt merkilegra en annað land sem hross bíta. En nú þegar vakin er athygli með þessum hætti á þessu stórmerkilega starfi má glöggt sjá hvað hægt er að gera með dugnaði og stefnufestu.
Á þessu ári keypti félagið um tólf tonn af áburði og sagði Ragnheiður að þrátt fyrir að mikill meirihluti félagsmanna væri ánægður með þessa starfsemi væri því ekki að neita að lágværar óánægjuraddir heyrðust um það hversu miklum fjármunum væri eytt í þessa starfsemi. Væru það helst raddir aðila sem ekki nýttu sér beitina.
Ekki er að efa að þessi viðurkenning virkar sem vítamínsprauta á félaga í Mána um að halda áfram á sömu braut. En það sem er ekki síður mikilvægt er að þetta verði hvatning til hestamanna annars staðar á landinu um að feta í fótspor Suðurnesjamanna. Ingvar Hallgrímsson einn af frumkvöðlunum segir að vissulega hafi þeim sem brautina ruddu hlýnað um hjartarætur að fá þessa viðurkenningu. Það er notalegt að vita til þess að maður sé ekki að eyða landinu heldur aðeins að njóta ávaxtanna af því sem maður hefur búið til sjálfur. Til hamingju Mánamenn.
Beitarmál hrossa voru mikið í umræðunni um þessar mundir og þótti framtak félaga í Mána á Suðurnesjum í uppgræðslu síðustu þrjá áratugi mjög lofsvert og til eftirbreytni fyrir aðra hestamenn. Þóttu þeir vel komnir að viðurkenningu Landgræðslunnar.
Með randbeit er hægt að stórauka nýtingu beitarlands verulega en það er einmitt það sem félagar í Mána gera og með góðu eftirliti er tryggt að ekki sé gengið nærri landinu.“
  
1997
„Hestamannafélagið Máni: Félögum fjölgaði um 40% 1996
Hestamennskan er orðin mjög vinsæl á Suðurnesjum. Mikil aukning varð í félaginu í fyrra og enn fer hestamönnum fjölgandi. Þörfin eykst hjá okkur að komast í snertingu við náttúruna og dýrin," sagði Ragnheiður Júlíusdóttir, formaður Hestamannafélagsins Mána í Reykjanesbæ, í samtali við DV. Í fyrra varð 40% aukning í hestamannafélaginu og eru félagarnir 280 fjölgar nánast á hverjum degi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Mánagrund, svæði Mána, á undanförnum árum. Einnig mikil fjölgun hesthúsa. Yfir 100 hestamenn með á þriðja hundrað hesta fóru í árlega reiðferð 10. maí með fram ströndinni til Voga. Þar var fólk á öllum aldri í frábæru veðri, sólskini og blíðu. Að sögn Ragnheiðar er þessi ferð vinsælust meðal hestamanna og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri en nú.“
   Vísir 1997.
Samþykktir inn nýir 29 félagsmenn. 
Formaður til eins árs var kjörinn Jón B. Olsen. Jóhannes Sigurðsson, fulltrúi Mána í húsnefnd, rakti sögu félagsheimilisins, flutti skýrslu byggingarnefnda og las rekstrareikninga félagsheimilisins,.
„Hringtorg er á veginum skammt frá hesthúsum Hestamannafélagsins Mána en þar liggja leiðir til allra átta, þ.e. út í Garð, til Keflavíkur og Sandgerðis. Að sögn Jónasar Snæbjörnssonar umdæmisverkfræðings vegagerðar ríkisins á Reykjanesi, er verið að leggja síðustu hönd á framkvæmdir við þessa vegi og er gert ráð fyrir að þeir verði opnaðir fyrir umferð í vikunni en verið er að merkja þá og setja upp ljósastaura við hringtorgið.“
 Morgunblaðið 1997
  
1998
Fundargerð aðalfundar 1998 vantar í fundargerðabók
Úr Morgunblaðinu í júní 1998:
 
„Hestamannafélagið Máni á Suðurnesjum hélt sitt árlega hestamót um helgina þar sem valdir voru hestar og knapar til þátttöku á landsmóti fyrir hönd félagsins. Einnig var opin töltkeppni á dagskrá og kappreiðar. Ætla má að Máni á Suðurnesjum mæti sterkur til leiks á landsmótinu á Melgerðismelum í A og B flokki, ungmenna og unglingaflokki. Efstu hrossin voru með háar einkunnir sem ættu að duga í úrslit á landsmótinu verði leikurinn endurtekinn á Melgerðismelum. 
Mánamenn hafa rétt til að senda þrjú hross í hvern flokk. Athygli vakti í A og B flokki hversu fáir félagsmenn riðu hestum sem náðu í úrslit. Þóra Brynjarsdóttir kom ein Mánafélaga hestum í úrslit en hún var með tvo hesta í B flokki og þar á meðal þann er efstur stóð, Kjarna frá Flögu, og hlutu þau í einkunn 8,65. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur á landsmótinu en Þóra hefur lengi þótt efnileg og verðskuldar vísast að kallast góð í dag því hún skákaði þarna nokkrum af fremstu knöpum landsins. Sigurður Sigurðarson var með efsta hestinn í A flokki, Skafl frá Norðurhvammi, en þeir hlutu í einkunn 8,76. Einnig var keppt í áhugamannaflokkum í bæði A og B flokki og þar voru hlutskarpastir Jón Olsen á Fjarka frá Hafsteinsstöðum í B flokki og Sigurður Kolbeinsson og Týr frá Hafsteinsstöð um í A flokki. 
Heldur var keppnin fátækleg hjá ungmennum því aðeins tveir keppendur voru skráðir til leiks og annar þeirra féll út svo ekki var mikil spenna hjá Mörtu B. Jónsdóttur sem mætti til leiks með Krumma frá Geldingarlæk. Hún lét ekki keppnisleysið draga úr sér og hlutu þau 8,68 í einkunn sem er vafalítið ein hæsta einkunn sem gefin hefur verið í ungmennaflokki á þessu ári ef ekki sú hæsta. Í bónus var Krummi valinn glæsilegasti hestur mótsins og þótti vel að því kominn. Í unglingaflokki hafði Hrafnhildur Gunnarsdóttir talsverða yfirburði en hún keppti á Sóta frá Vallanesi sem var fyrrum keppnishestur Mörtu. Hlutu þau 8,51 í einkunn og Hrafnhildur hlaut ásetuverðlaun félagsins að auki. Í barnaflokki varð efst Gunnhildur Gunnarsdóttir á Skugga frá Skeljabrekku með 8,14. Þrír knapar náðu lágmarkseinkunn inn á landsmót í töltkeppninni sem er 6,67, þeir Snorri Dal, Sigurður Kolbeinsson og Sigurbjörn Viktorsson.“
  
1999
Formaður Jón Olsen las skýrslu stjórnar og rakti starfsemi hússins undanfarið ár. Matarlyst hefur tekið við rekstri félagsheimilisins frá 1. jan. 1999. Hrossapestin hefur sett svip sinn á allt starf á vegum félagsins. Annars hefur verið reynt að halda uppi hefðbundinni starfsemi eftir bestu getu. Rætt um kaup félagsins á svokallaðri reiðhöll. 
Samþykktir voru 41 félagi inn í félagið sem nýir félagsmenn.
Jón Olsen var endurkjörinn formaður
Guðrún Guðbjartsdóttir gjaldkeri
Guðni Grétarsson ritari. 
Samþykkt var að forráðamenn þeirra hesta sem valdir verða á landsmót hestamanna 2000 sjái til þess að knapar þeirra séu í Mánajökkum á sýningu.
Reiðhallarmál voru rædd. Sigurður Ragnarsson rakti aðdraganda þess að til hafði komið umræðna um kaup félagsins á reiðhöllinni. Hann óskaði eftir umboði fundarins til stjórnar um áframhaldandi umræða um hallarkaupin og benti á að það væri forsenda fyrir að fá upp úrræði til kaupa ef af yrði. Ekki væri vegur að vinna áfram að þessu nema vilji félaga væri til staðar. Fram kom að óformlegar viðræður við bæinn væru hafnar. Miklar umræður hófust um verð og tekjumöguleika hallarinnar. Tóku margir félagsmenn til máls og mörg sjónarmið litu dagsins ljós. Stjórn félagsins óskaði eftir atkvæðagreiðslu um umboð til áframhaldandi viðræðna um kaup á höllinni og samþykkti meirihluti fundarmanna það. 
  
2000
Aðalfundur samþykkti að forráðamenn þeirra hesta sem valdir yrðu sem fulltrúar Mána á landsmót hestamanna árið 200 sjái um að knapar þeirra séu í Mánajökkum á sýningum.
Í stjórn félagsins voru kosin:
Jón B. Olsen formaður
Sigrún Valdimarsdóttir varaformaður
Guðrún Guðjónsdóttir gjaldkeri
Erla Zakaríasdóttir ritari
Sigurður V. Ragnarsson meðstjórnandi
Friðbjörn Björnsson meðstjórnandi
 
Ingvar Hallgrímsson tók til máls á fundinum og hvatti félagsmenn til að stefna í þá átt að kaupa reiðhöllina og taldi það vera góðan kost fyrir alla reiðmenn. Brynjar Vilmundarson var ekki sammála Ingvari og taldi að Sörlaskjól fullnægði ekki þeim kröfum sem til þyrfti. Höllin þyrfti að vera 20x40 og fannst Brynjari reiðhöllin líka vera alltof dýr (25 milljónir kr.)
 2001
Stjórn félagsins þetta ár skipuðu eftirfarandi aðilar:
Jón B. Olsen formaður
Sigrún Valdimarsdóttir varaformaður
Sigurður V. Ragnarsson
Guðrún Guðbjartsdóttir
Margeir Þorgeirsson
Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar afhenti styrki úr Afreks og styrktarsjóði og Tómstundasjóði, samtals að fjárhæð liðlega 2,5 milljónir kr. Hestamannafélagið Máni fékk 150 þúsund kr. fyrir gott barna og unglingastarf. 
Aðildarfélög Íþróttabandalags Reykjanesbæjar hafa eignast 214 Íslandsmeistara á árinu. Þar af gefur hestamannafélagið Máni eignast þrjá og Golfklúbbur Suðurnesja tvo Íslandsmeistaratitla. 
Tómstunda og íþróttaráð Reykjanesbæjar og Hestamannafélagið Máni gerðu með sér samning um rekstur reiðnámskeiða og fleira í Reykjanesbæ 25. janúar 2001. Markmið námskeiðanna er að kenna börnum og unglingum undirstöðuatriði í hestamennsku.
Markmiðum námskeiðanna hyggst verksali (Máni) ná m.a. með því að auglýsa og standa fyrir reiðnámskeiðum fyrir börn og unglinga, þar sem þeim verða kennd umgengni við hesta, reiðmennska, fræðsla um íslenska hestinn og annað það er viðkemur hestamennsku almennt. Áhersla er lögð á að verksali hafi hæfa leiðbeinendur við kennslu á námskeiðunum. Máni innheimtir og hirðir öll þátttökugjöld. Aðstoð til félagsins á vegum Vinnuskóla Reykjanesbæjar, verði óskað eftir henni, skal gjaldfærð sem styrkur til Mána.
Máni skal skila til íþrótta og tómstundaskrifstofu skýrslu að námskeiðum loknum um framkvæmd þeirra og fjölda þátttakenda.
Máni samþykkir að halda áfram því uppbyggingastarfi á félagssvæði Mána sem unnið hefur verið að undanfarin ár, s.s. uppbygging og viðhald keppnisvallar, ásamt tilheyrandi endurbótum á reiðvegum innan félagssvæðisins.
Máni samþykkir að taka þátt í ýmsum verkefnum sem eru á vegum íþrótta og tómstundaskrifstofu s.s. vinabæjaíþróttamótum og íþrótta og leikjaskólum. Auk þess samþykkir verksali að hefja samstarf við íþróttafélagið Nes um þátttöku fatlaðra einstaklinga á þess vegum.
Mána er heimilt samkvæmt samningi þessum að kaupa þá leigutíma er þeir telja sig þurfa til að ná fram þeim markmiðum sem að ofan greinir.
Fyrir samning þennan greiðir TÍR kr. 1.800.000. (átján hundruð þúsund krónur) Greiðslufyrirkomulag skal vera í samráði við eftirlitsaðila og fjármálastjóra, en greiðslum skal að fullu lokið eigi síðar en 1. september 2001, enda liggi þá fyrir skýrsla frá Mána. 
  
2002
Aðalfundur hestamannafélagsins Mána, haldinn í félagsheimili félagsins, fimmtudaginn 07.02. 2002, samþykkti að óska eftir við byggingarnefnd Reykjanesbæjar að fá heimild til stækkunar á hesthúsum við Mánagrund, þau stærri um 6 metra og þau minni um 6 metra, eins og fram kom á afstöðumynd, sem lá frammi eftir Harald Valbergsson.
Jafnframt samþykkti fundurinn, ef þessi tillaga yrði samþykkt að fela formanni félagsins að kjósa með sér félagsmenn til að fylgja þessu máli eftir við byggingarnefnd Reykjanesbæjar.
Í nýrri stjórn Hestmannafélagið Máni 2002 eru:
Margeir Þorgeirsson formaður
Harpa Guðmundsdóttir gjaldkeri
Björn Viðar Ellertsson
Sigurður V. Ragnarsson
Þórarinn Þórarinsson
Samþykktir voru inn 21 félagi.
 
Samningur var gerður við Íþrótta- og tómastundaráð Reykjanesbæjar um reiðskóla. Skólastjóri var Snorri Ólason og var skólinn vel sóttur. 
Eins og árin á undan vakti árangur barna, unglinga og ungmenna mikla athygli og átti Hestmannafélagið Máni meðal annars nokkra Íslandsmeistara. Þeir eru: Sigurður Kolbeinsson fullorðsins flokki, Elva Margeirsdóttir unglingaflokki og Camilla Petra Sigurðardóttir í barnaflokki. Hestaíþróttamaður Mána 2001 var kosinn Sigurður Kolbeinsson.
Farið var í byggingu nýs keppnisvallar og náðist samstillt átak félagsmanna sem lögðu á sig mikla vinnu og fyrirhöfn. Fór svo að nýr völlur var tilbúinn á mettíma. Jón Olsen notaði tækifærið og þakkaði þeim fjölmörgu félagsmönnum Mána sem ætíð voru boðnir og búnir til starfa.
Rekstur kvennadeildar var með hefðbundnu sniði og færði deildin félaginu höfðinglega gjöf á árinu, sjónvarp og myndbandstæki.
  
2003
Tillaga að breyttum keppnisjakka Hestmannafélagsins Mána var lögð fram 28. nóv. 2003
Sigurður Kolbeinsson, Hrönn Ásmundsdóttir og Sigurður V Ragnarsson ásamt fjölda annarra félagsmanna leggja fram eftirfarandi tillögu fyrir aðalfund.
 Keppnisjakka félagsins verði breytt þannig: Jakki félagsins verður einlitur svartur, á brjóst jakkans verði saumað merki félagsins í gulum lit, skyrta verður hvít, bindi karrýgult. Buxur verði hvítar, stígvél svört.
Varatillaga:
Ef tillagan fæst ekki samþykkt þá vill hópurinn gera það að tillögu sinni að nýi búningurinn verði varabúningur félagsins og verði félagsmönnum heimilt að keppa í honum til reynslu til næstu tveggja ára.
Rökstuðningur.
Jakki félagsins eins og hann er núna kemur illa út við suma hestaliti, og er nú svo komið að allflest hestamannafélög hafa breytt sínum jökkum til samræmis við breyttar þarfir nútímans. Það er eindreginn vilji allra þeirra sem stunda keppni að jakkanum verði breytt eins og nú er lagt til, og finnst okkur ekki eðlilegt að neyða keppendur til að vera í jakka sem fellur ekki að þeirra smekk. Í þriðja lagi má benda á það að flestallir dómarar svo og hestaáhugamenn hafa bent á það í gegnum árin að litur jakkans stendur sumum hrossum fyrir þrifum í dómum og er ekki lengur hægt að horfa framhjá þessum sjónarmiðum.
Stjórn félagsins 2003 skipuðu eftirtaldir aðilar:
Margeir Þorgeirsson formaður
Björn Viðar Ellertsson varaform.
Sigurður V. Ragnarsson ritari
Harpa Guðmundsdóttir gjaldkeri
Þórarinn Þórarinsson meðstjórnandi
Skýrsla vegna æskulýðsstarfs 2003 Hestmannafélagsins Mána:
Æskulýðsstarf Mána var með svipuðu sniði og síðustu ár, lögð áhersla á að byggja upp félagsanda og að allir félagar séu þátttakendur í starfinu hvort sem um er að ræða byrjendur, lengra komna eða keppendur í hestamennsku.
Á síðasta ári var samningur á milli Reykjanesbæjar og Mána endurnýjaður og áhersla lögð á æskulýðsstarf sem fyrr.
Reiðnámskeið voru haldin og sá Hugrún Jóhannsdóttir reiðkennari um þjálfun eldri hópa.
Snorri Ólason sá um kennslu byrjenda. Sóley og Elva Björk Margeirsdætur um þjálfun fatlaðra barna og unglinga.
Í byrjun janúar var haldinn fundur með foreldrum og starfið kynnt. 
Undirbúningur fyrir sýninguna „Æskan og hesturinn“ stóð frá miðjum okt. 2002 og mætti fulltrúi Mána á reglulega fundi vegna undirbúnings. Sigurður Kolbeinsson og Snorri Ólason sáu um þjálfun a sýningaratriði félagsins búningar og val á tónlist var í höndum krakkanna sex sem voru á aldrinum 14-19 ára. Auk þess tókum við þátt í sameiginlegum atriðum fánareið, grímutölti og pollareið. 20 fulltrúar tóku þátt og skiptu með sér sýningunum sem voru 4. Myndband frá sýningunum hefur verið sent í alla grunnskóla landsins.
Þann 1. mars var sameiginleg unglinga árshátíð félaga á stór Reykjavíkursvæðinu. Æskudagur Mána. Börn unglingar og ungmenni voru með sýningu með svipuðu sniði og „Æskan og hesturinn“ og sáu foreldrar um undirbúning. Mikil vinna var lögð í sýninguna bæði hvað varðar búninga og tónlist og ekki síst hestakostur góður. Sýningin tókst í alla staði mjög vel og var áhorfendastúkan þéttstaðin. Margir af yngstu knöpunum eru farnir að undirbúa sig fyrir sýninguna á næsta ári og tilhlökkunin er mikil.
15 apríl var haldið páskabingó og var fullur salur að venju. Um það bil 60 manns mættu.
Í vor var tekið á móti nemendum 2 bekkjar úr Holtaskóla og fengu þau fræðslu um hestinn. Sáu Elva Björk og Camilla Petra um kennsluna.
Í sumar var haldinn reiðskóli fyrir börn á í Reykjanesbæ og nágrenni. Sáu Elva Björk Margeirsdóttir og Camilla Petra Sigurðardóttir um þau . Þátttaka á námskeiðin var mjög góð u.þ.b.100 börn sóttu námskeiðin. Leiðbeinendur útbjuggu námsefni fyrir bóklegan þátt kennslunnar. Vegna þess að börn af Keflavíkurflugvelli sækja námskeið hjá félaginu þurfti að útbúa námsefnið bæði á íslensku og ensku.
 
Félagar úr Mána voru að venju duglegir að sækja mót sumarsins og skipuðu sér með efstu keppendum í úrslitum.
 
Á Íslandsmóti barna unglinga og ungmenna sem var haldið í Mosfellsbæ kepptu félagar úr Mána í öllum aldursflokkum og vann Camilla Petra Sigurðardóttir  einn Íslandsmeistara titil, Elva Björk Margeirsdóttir einn Íslandsmeistaratitil og Sveinbjörn Bragason einn Íslandsmeistaratitil. Aðrir félagar stóðu sig mjög vel.
Mánudaginn 27. október 2003 fékk Hestamannafélagið Máni viðurkenninguna „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ og gæðaviðurkenning fyrir gott starf að barna- og unglingaíþróttum.
Til að öðlast gæðaviðurkenningu ÍSÍ þurfa félög að uppfylla fjölmörg skilyrði, það þarf t.d. að skoða vel skipulag félagsins, umgjörð þjálfunar og keppni, fjármálastjórn, þjálfaramenntun innan félagsins, félagsstarf, foreldrastarf fræðslu og forvarnarstarf, jafnréttismál og umhverfismál. Reykjanesbær hefur haft frumkvæði að því að fá sín félög til að beita sér í málefnum barna og unglinga.
  
2004
Stjórn félagsins 2004 skipuðu eftirtaldir aðilar:
Margeir Þorgeirsson formaður
Styrmir Jóhannsson varaformaður
Sigurður V. Ragnarsson ritari
Harpa Guðmundsdóttir gjaldkeri
Þórarinn Þórarinsson meðstjórnandi

 
Mbl. 23. júlí, Valdimar Kristinsson:
 
„Mikil uppbygging hefur verið á svæði Hestamannafélagsins Mána á Reykjanesi undanfarið og uppsveifla í hestamennsku í Reykjanesbæ, og nú um helgina verður ný aðstaða nýtt til fullnustu á Íslandsmóti fullorðinna í hesta íþróttum. Keppnin hefst í dag, föstudag, og lýkur um kl. 16 á sunnudag. Þórarinn Þórarinsson, stjórnarmaður í Hestamannafélaginu Mána, segir að yfir 200 þátttakendur hafi skráð sig til leiks, og reiknað sé með um 1.500 áhorfendum. Von er á flestum helstu afreksmönnum landsins í hestamennsku og segist Þórarinn lofa góðri skemmtun og harðri keppni. Keppt er í mörgum greinum; fjórgangi, fimmgangi og fimi, auk ýmissa afbrigða af tölti og skeiði; og keppt í opnum flokki og meistaraflokki. Krakkar úr vinnuskólanum voru að leggja lokahönd á uppbygginguna þegar blaðamann bar að garði, og unnu í því að tyrfa garða og mála staura til að öll ásýnd verði sem best þegar mótið hefst í dag. Búið er að endurbyggja hringvöllinn frá grunni, leggja nýjan skeiðvöll og gera aðstöðu fyrir áhorfendur. Bílastæði og önnur aðstaða hefur einnig verið endurbætt og nýtt dómarahús byggt. Máni í fremstu röð „Með þessu teljum við okkur vera komna í fremstu röð hvað aðstæður varðar til alls keppnishalds. Auk þess nýtist þetta okkar keppnisfólki og starfið því allt að eflast hjá okkur,“ segir Þórarinn. Hann bendir á að unga fólkið í félaginu hafi unnið fjóra titla á Íslandsmóti um síðustu helgi, og staðið sig frábærlega í heildina séð. „Við sjáum fram á mjög bjarta framtíð hér hjá Mána. Félagið er virkilega að stimpla sig inn á landsvísu. Hér er mikill metnaður á öllum sviðum og við ætlum okkur stóra hluti, bæði á þessu móti og í framtíðinni.“ 
Þórarinn segir að félagið sé mjög þakklátt Reykjanesbæ fyrir rausnarleg framlög við uppbyggingu, sem hann skýrir helst á því hversu öflugu barna og unglingastarfi Máni hafi haldið uppi undanfarið. Einnig segir hann fyrirtæki og verktaka hafa verið duglega að styðja við bakið á félaginu með fjárframlögum eða sjálfboðavinnu. Barna og unglingastarf lykillinn Markvisst hefur verið unnið að barna og unglingastarfi hjá Mána undanfarin ár, og hefur starfið verið verðlaunað af Landssambandi hestamannafélaga, fengið æskulýðsbikar, og verið valið fyrirmyndarfélag hjá ÍSÍ, fyrst hestamannafélaga. „Það hefur verið eftir þessu tekið, og ég held að stuðningur sveitarfélags og annarra sem koma að þessu móti sé ekki síst því að þakka. Þeir eru að meta við okkur þetta frábæra barna og unglingastarf sem fer hér fram,“ segir Þórarinn.“
Menningar, íþrótta, og tómstundaráð Reykjanesbæjar undirritaði í síðustu viku 16 samninga við ýmis íþrótta og ungmennafélög í bænum, samtals fyrir tæpar 15 milljónir króna. Nokkrir samningar höfðu þegar verið undirritaðir en forsvarsmenn MÍT ráðgera að gera 35 samninga við félög og klúbba í ár að upphæð um 40 milljónir króna. Á fundi nefndarinnar lagði formaður hennar, Gunnar Oddsson, áherslu á að það væri vilji bæjaryfirvalda að gera fleiri sambærilega samninga. Hæstu styrkina í ár hlutu Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, 7.000.000 kr. vegna þjálfaralauna 12 ára og yngri, Íþróttafélögin Keflavík og UMFN vegna umsjónar með skemmtidagskrá 17. júní, kr. 3.000.000, Hnefaleikafélag Reykjaness, kr. 900.000 vegna húsaleigu, Keflavík, íþrótta og ungmennafélag, kr. 920.000 vegna reksturs íþrótta og leikjanámskeiða og Hestamannafélagið Máni, kr. 800.000.
Vaskir menn og konur ráða ríkjum í Mána
 
„Hestmannafélagið Máni hélt Íslandsmót árið 1982 með miklum myndarbrag á þeirra tíma mælikvarða. Nú, tuttugu og tveimur árum seinna, halda þeir sitt annað Íslandsmót og má segja að á milli þessara tveggja móta sé þó himinn og haf í gæðum í öllum skilningi, nýafstöðnu móti að sjálfsögðu í vil. Keppnin nú var hörkuspennandi þar sem keppt var að sjálfsögðu í öllum greinum hestaíþrótta, í opnum flokki og meistaraflokki. Með réttu er hægt að segja að mótið sé enn einn vitnisburðinn um hina stöðugt vaxandi breidd þar sem unga fólkið lætur æ meira til sín taka. Nýtt nafn verður nú skráð á töltbikarinn eftirsótta en það vekur athygli að enginn knapi hefur unnið hann oftar en tvisvar. Það kom engum á óvart að Björn Jónsson, bóndi á Vatnsleysu í Skagafirði, skyldi sigra eftir glæstan sigur á landsmótinu á dögunum. Ekki var við neina aukvisa að eiga og vildu margir meina að þetta hefðu verið öflugustu töltúrslit sem fram hafa farið á Íslandi. Það segir sína sögu þegar keppandi í sjötta sæti er með yfir átta í einkunn, sem einhvern tíma hefði dugað til sigurs. 
Jón hetja Mánamanna
 Jón Olsen í Mána hélt uppi heiðri heimamanna og sigraði í tölti opins flokks á Núma frá Miðsitju og var sá sigur að því er virtist aldrei í hættu. Olil Amble mætti galvösk til leiks með Suðra frá Holtsmúla en þau sigruðu nokkuð örugglega eins og í fyrra. Fengu að vísu ekki tíu fyrir brokk eins og í fyrra en hins vegar gaf einn dómarinn þeim tíu fyrir stökk. Olil hefur án efa sterkar taugar til Mánagrundar því hún vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á mótinu 1982 en þá sigraði hún í tölti á Fleyg frá Kirkjubæ, þá kornung og lítt þekkt í heimi hestamennskunnar. Suðri er um margt sérstakur hestur og einkum er það brokkið sem vekur alltaf athygli fyrir mikið svif og hreyfingar en einnig hversu erfitt það virðist ásetu og vafalaust ekki nema á færi snjöllustu knapa að sitja það svo vel fari. Sigurður Sigurðarson komst næst því að veita Olil einhverja keppni á landsmótssigurvegaranum Pyttlu frá Flekkudal. Mágur Sigurðar, Þorvarður Frið björnsson, sigraði hins vegar í fjórgangi opins flokks á lánshesti frá Sigurði, Hyllingu frá Kimbastöðum. Má þar segja að Þorvarður hafi farið Krýsuvíkurleiðina að sigrinum því hann þurfti að sigra í Búrslitum til að komast í A úrslitin. Ekki var kálið sopið þótt þangað væri komið og þurfti Þorvarður að hafa mikið fyrir sigrinum í harðri keppni við bæði Bylgju Gauksdóttur á Hnotu úr Garðabæ og Snorra Dal á Vöku úr Hafnarfirði sem er afar athyglivert hross. 
Töltið og skeiðið skóp sigur Hinriks og Skemils Keppnin var ekki síður tvísýn og spennandi í fimmgangi meistara þar sem Hinrik Bragason tryggði sér sigurinn með meistaralegum skeið sprettum Skemils frá Selfossi í úrslitunum. Lengi vel leit úr fyrir sigur Sigríðar Pétursdóttur á Þyti frá Kálfhóli sem leiddi keppnina alla úrslitakeppnina eða þar til kom að skeiðinu. En þar tókst ekki alveg nógu vel til og höfnuðu þau í fjórða sæti á eftir Sigurbirni Bárðarsyni á Sörla frá Dalbæ og Atla Guðmundssyni á Tenór frá Ytri Skógum. Í opna flokknum var það hins vegar Sindri Sigurðsson sem sigraði eftir jafna keppni við Karenu Líndal Marteinsdóttur á Ögra frá Akranesi. Í skeiðgreinum mótsins voru það Sigurbjörn Bárðarson og Logi Laxdal sem skiptu á milli sín gullinu í kappreiðagreinum 150 og 250 metrum. Logi á Þormóði ramma á 15,22 sek. en Sigurbjörn á Óðni frá Búðardal á 23,59 sek. Í 250 metrunum. 
Í gæðingaskeiði meistara var Logi einnig atkvæðamestur á Feykivindi frá Svignaskarði. Í opna flokknum var það hins vegar Ævar Örn Guðjónsson, á Bergþóri frá Feti, sem kvaddi sér hljóðs sem upprennandi keppnismaður. Áhorfendastæði samkvæmt þörfum Mánagrund reyndist vel á þessu móti enda tiltölulega nýbúið að endurgera svæðið og hefur greinilega tekist vel til. Eitt vekur sérstaka athygli en það er áhorfendasvæðið. Í fyrsta skipti virðist áhorfendasvæði hannað með það fyrir augum að fólk geti setið í bílum. Með fram annarri langhlið eru bílastæði á tveimur hæð um, sem sé einmitt það sem á við hér á Íslandi. Fólk þarf að geta setið inni þegar horft er á keppni hesta í misjöfnu veðri – þetta er löngu kunn stað reynd. 
Vel var staðið að framkvæmd mótsins enda vaskir menn og konur sem ráða ríkjum í Mána þar sem hefur verið mikil uppsveifla undanfarin ár á flestum sviðum og gleggsta dæmið þar um afar góð frammistaða Mánafélaga í yngri flokkum. Hið nýja tölukerfi Landssambands hestamanna, mótafengur og kappi, var notað á þessu móti og brást það á ýmsa lund eins og á fyrri mótum sem það hefur verið notað á. Ljóst er að fara verður gaumgæfilega ofan í saumana á kerfinu fyrir næsta keppnistímabil og sníða af þá skavanka sem á því eru. Það er gaman að vera hestaáhugamaður á Íslandi og fylgjast með þeirri miklu uppsveiflu sem á sér stað í hestamennskunni í dag. Ljóst er að hinir villtustu draumar Gunnars Bjarnasonar, fyrrverandi hrossaræktarráðunautar, eru komnir vel af stað með að rætast. Heildarúrslit birtast síðar í blaðinu. Íslandsmótið í hestaíþróttum var haldið á Mánagrund í Reykjanesbæ um helgina .“
  Mbl. 26 júlí 2004
  
2005
Starfsskýrsla æskulýðsnefndar Mána árið 2005:„Þann 31. janúar 2005 hófum við vetrarstarfið með fundi fyrir börn og foreldra þeirra í reiðhöllinni. Farið var yfir dagskrá vetrarins, skráningar á reiðnámskeið og skráningar í Æskuna og hestinn.
Í lok febrúar var byrjað að huga að sýningunni Æskan og hesturinn. Redda búningum og æfingar. Æskan og hesturinn var svo haldinn 1213 mars, 15 börn og unglingar tóku þátt frá Mána. Börnin klæddu sig í grímubúninga og unglingarnir voru með flotta skrautsýningu.
22. mars var svo haldið okkar árlega páskabingó. Var það mjög vel sótt og mörg páskaegg í vinning. 4. júní var haldinn opinn dagur á Mánagrund. Börn á aldrinum 414 ára klæddu sig upp 1 ýmsa búninga og riðu nokkra hringi úti á hringvellinum á fákum sínum og sýndu sig og hesta sína. Boðið var svo upp á kaffi, svala og nýbakaðar kleinur. Teymt var undir börnum sem komu í heimsókn.
Einar Öder kom til okkar og hélt 10 vikna reiðnámskeið fyrir polla, börn, unglinga og ungmenni. Þau voru mjög vel sótt. Haldin voru fjögur reiðnámskeið eða samtals 24 börn sem sóttu námskeiðin.
Fimm mót voru haldin á Mánagrund þetta starfsár þar sem pollar, börn og unglingar tóku þátt. Þetta voru vetrarmót, íþróttamót, Firmakeppni, Mánaþing og að sjálfsögðu íslandsmótið. Þau voru dugleg að sækja þessi mót sem og önnur mót sem haldin voru um land allt með góðum árangri. 
Íslandsmótið var vel sótt eða um 360 skráningar og heppnaðist mótið vel. Á Íslandsmóti barna og unglinga áttum við marga fulltrúa og stóðu þar efst Camilla Petra, þrefaldur Íslandsmeistari og Elva Björk Íslandsmeistari í fimi.“ 
Menningar, íþrótta og tómstundasvið Reykjanesbæjar  (MÍT) hefur gert samstarfssamninga við sextán félög og félagasamtök í bænum. Reykjanesbær greiðir félögunum samtals um 20 milljónir kr. samkvæmt samningunum. Samningarnir eru flestir gerðir vegna kynningar á starfi félaganna, meðal annars vegna sumarnámskeiða sem þau annast. Einnig taka þeir til greiðsluþátttöku vegna afnota af húsnæði og greiðslu hluta þjálfaralauna vegna barna og unglinga. Stærsta einstaka fjárhæðin er greidd til Íþróttabandalags Reykjanesbæjar vegna þátttöku bæjarins í launum þjálfara barna og unglinga. Átta milljónir eru greiddar vegna barna 12 ára og yngri og 1.350 þúsund vegna 13-14 ára barna. Íþróttafélögin í Keflavík og UMFN fá 3 milljónir til að sjá um skemmtidagskrá á þjóðhátíðardaginn. Skátafé lagið Heiðabúar fær 1380 þúsund vegna þjónustusamnings og til að sjá um smíðavöll, Björgunarsveitin Suðurnes fær 950 þúsund fyrir að sjá um flugeldasýningu, gæslu og umsjón þrettándabrennu, Keflavík fær 920 þúsund til reksturs íþrótta- og leikjanámskeiðs, Hnefaleikafélag Reykjaness fær 900 þúsund upp í húsaleigu, Hestamannafélagið Máni fær 800 þúsund fyrir að sjá um reiðnámskeið og Golfklúbbur Suðurnesja 600 þúsund fyrir að sjá um og reka púttvelli. Lægri fjárhæðir eru í öðrum samningum, en þeir eru alls sextán. Félögin þurfa að skila skýrslu um framkvæmd samningsins Kveðið er á um það í samningunum að félögunum beri að standa
MÍT skil á ákveðnum upplýsingum um framkvæmd samningsins, meðal annars um þátttöku bæjarbúa, menntun leiðbeinenda og kostnað viðkomandi félags. Fram kom við undirritun samninganna að þetta væru ómetanlegar upplýsingar fyrir MÍT við mat á því hvernig til hefði tekist. 
  
2006
Nýir félagar sem teknir voru inn þetta ár voru 11 talsins.
Eftirtaldir aðilar skipuðu stjórn Hestmannafélagsins Mána 2006 samkvæmt fundargerð það ár:
Margeir Þorgeirsson formaður
Haukur Aðalsteinsson
Gunnar Pétur Róbertsson

 
Fyrsta úthlutun úr Styrktarsjóði Þroskahjálpar á Suðurnesjum fór fram nú á dögunum en þá var ákveðið að styrkja félagsmenn Þroskahjálpar til að sækja reiðnámskeið hjá Hestamannafélaginu Mána í Reykjanesbæ. Með styrknum var unnt að niðurgreiða kostnað vegna námskeiðsins um helming og var afar góð aðsókn. Hestanámskeið hafa lengi notið vinsælda hjá fötluðum einstaklingum jafnt sem ófötluðum og því þótti þessi úthlutun afar vel við hæfi. Þar að auki er það alþekkt að útivera og snerting við náttúruna og ekki síst dýrin hafa mikið og jákvætt gildi. Hestamannafélagið Máni er vel í stakk búið til að taka á móti einstaklingum með sérþarfir. Má þar m.a. nefna sérútbúna hnakka og starfsfólk með mikla kunnáttu til leiðbeininga. Allt þetta skiptir miklu máli til að vel takist.
Hestamannafélagið Máni mun ekki hefjast handa við byggingu reiðhallar á félagssvæði sínu Mánagrund í nágrenni Keflavíkur fyrr en tryggð verður full fjármögnun byggingarinnar. Félagið fékk loforð landbúnaðarráðuneytisins fyrir styrk, en lægri fjárhæð en reiknað var með, að sögn Margeirs Þorgeirssonar, formanns Mána. Mánafélagar hyggjast reisa um 2000 fermetra reiðhöll og er áætlað að hún kosti 80 milljónir króna. Reiknað var með að ríkið myndi leggja til að minnsta kosti 30 milljónir, Reykjanesbær 30 milljónir og að félagsmenn myndu standa undir því sem eftir stæði og greiða um 20 milljónir króna. Jafnframt var búið að tryggja rekstrargrundvöll hússins með starfsmanni. Ekki skortur á verkefnum Margeir Þorgeirsson segir að nú verði að hugsa fjármögnunina upp á nýtt og ekki verði farið af stað fyrr en hún verði að fullu tryggð. Segir hann koma til greina að leita til Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ og Fjölbrautaskóla Suðurnesja enda sé áhugi fyrir því að byggja upp hestabraut þar. „Við höfum byggt upp góða útiaðstöðu með hringvelli og höfum haldið tvö Íslandsmót. Okkur vantar reið höll til að þróa þetta áfram og geta rekið reiðskóla og haldið reiðnámskeið allt árið. Bygging reiðhallar yrði hestamennskunni hér til mikils framdráttar. Eitt er víst að það verður ekki skortur á verkefnum í þessari aðstöðu,“ segir Margeir Þorgeirsson. Máni er hestamannafélag allra Suðurnesjamanna. Máni var því einnig aðili að umsókn um styrk til byggingar reiðskemmu í Grindavík. Margeir segir eðlilegt að Grindvíkingar vilji fá eigin reiðhöll enda heill fjallgarður á milli. Landbúnaðarráðuneytið lofaði 7 milljónum króna í það verkefni. Öflug fyrirtæki og einstaklingar standa aðallega að baki þeirri byggingu.
  
2007
Sextán nýir félagar voru teknir inn í félagið. Val á íþróttamanni ársins: Elva Margeirsdóttir og knapi ársins var Jóhanna Margrét Snorradóttir.
Nýja stjórn skipuðu:
Guðbergur Reynisson formaður
Pétur Bragason varaformaður
Erla Valgeirsdóttir ritari
Gunnhildur Vilbergsdóttir gjaldkeri
Gunnar Eyjólfsson meðstjórnandi
Camilla var heiðruð sem íþróttamaður ársins en Hanna Margrét var efnilegasti knapinn.
„Hestamannafélagið Máni í Keflavík hlaut æskulýðsbikar Landssambands hestamanna fyrir árið 2007. Er þetta í annað sinn sem félagið hlýtur bikarinn, fyrra skiptið var árið 2001. Mikið og öflugt æskulýðsstarf hefur verið í Mána síðastliðin tvö ár og að sögn Guðbergs Reynissonar, formanns félagsins, hefur það skilað sér í aukinni þátttöku og betri árangri. „Við settum á laggirnar sérstakt vetrarmót fyrir börn og unglinga, sem hefur vakið mikla lukku. Við erum einnig viss um að nýja reiðhöllin mun verða önnur vítamínsprauta, en hún verður væntanlega tekin í notkun í febrúar á næsta ári,“ segir Guðbergur.
Þótt næðingurinn biti nokkuð duglega í kinn voru félagar í Mána mættir út á Mánagrund til sjálfboðaliðstarfa á laugardaginn. Menn létu ekki kuldann á sig fá, gölluðu sig bara vel og unnu sér til hita við að byggja grunn undir nýja og glæsilega reiðhöll sem verður tæplega 2 þúsund fermetrar að stærð eða um helmingi stærri en sú eldri. Aðstaðan í nýju reiðhöllinni verður eins og best verður á kosið og er stefnt að því að húsið verði tilbúið í mars á næsta ári.“
   Víkurfréttir 2007

 
  
2008
Nýja stjórn félagsins skipuðu samkvæmt fundargerð:
Guðbergur Reynisson formaður
Gunnar Eyjólfsson varaformaður
Gunnhildur Vilbergsdóttir
Pétur Bragason
Bjarni Stefánsson
Björn Viðar Ellertsson
Fyrirhugað er að fá Sæmund Oddson sem starfar á vegum Landssambands hestamanna til að skrá GPS punkta á reiðvegum . Ekki er í öllu farið eftir bæklingi Landssambandsins þar sem takmörkuð upphæð er í boði við uppbyggingu þessara reiðvega. Bærinn hefur rutt reiðvegi eftir bestu getu og ekki er vitað annað en það verði áfram.
Gunnar Eyjólfsson varaformaður las skýrslu byggingarnefndar. Honum og öðrum í byggingarnefnd var klappað lof í lófa fyrir þann frábæra árangur sem bygging reiðhallarinnar er.
Félagsgjöld fyrir árið 2009 voru ákvörðuð og munu skuldlausir félagsmenn hafa frían aðgang að nýju Reiðhöllinni til prufu í eitt ár eftir reglum sem byggingarnefnd setur.
Hugmyndin er sú að byrja að nota Reiðhöllina í lok desember 2008. Einnig fá skuldlausir félagsmenn frían aðgang að Wordfeng og fjöldi annarra fríðinda fylgir því að vera skuldlaus félagi í Mána.
Teknir voru inn alls 25 nýir félagar á árinu.
Tilkynnt var kjör hestaíþróttamanns ársins 2008 og efnilegasta knapann. Að þessu sinni var íþróttamaður ársins 2008 kjörinn Ásmundur Ernir Snorrason fyrir framúrskarandi árangur á árinu og fékk hann eignarbikar frá Mána og farandbikar sem Margeir Þorgeirsson og fjölskylda gáfu ásamt heiðursskildi sem félagið fékk með upptalningu íþróttamanna Mána frá 1996. Systir Ásmundar, Jóhanna Margrétt Snorradóttir, fékk verðlaunin efnilegasti knapi Mána 2008.
Reiðhöll Mána vígð um áramót
Hestamannafélagið Máni hefur lokið við byggingu reiðhallar við Mánagrund. Reiðhöllin er einkar glæsileg og á eftir að bæta umgjörð félagsins til muna. Að sögn Gunnars Eyjólfssonar, varaformanns, hefur bygging hallarinnar verið ævintýri líkast, margir hafa lagt hönd á plóginn og unnið í sjálfboðavinnu. Stefnt var á að koma út á sléttu eftir framkvæmdirnar og það stefnir í að það takist. Félagið fór fram styrk frá Reykjanesbæ, vegna framkvæmdanna við Reiðhöllina, uppá 10 milljónir króna og hefur bæjarráð samþykkt það. Gunnar var að vonum ánægður með myndarlegt framlag bæjarins og sagði formlega vígslu hallarinnar verða um næstu áramót.
 Úr Víkurfréttum, október 2008
  
2009
Stjórn félagsins 2009 skipuðu eftirtaldir aðilar:
Snorri Ólason formaður
Guðbergur Reynisson gjaldkeri
Bjarni Stefánsson
Björn Viðar Ellertsson
Gunnar Eyjólfsson
Tuttugu nýir félagar voru teknir inn í félagið en 33 sögðu sig úr því. Félagar í Mána eru nú 501 talsins.
Hestamannafélagið Máni hefur tekið í notkun nýja og glæsilega reiðhöll, Mánahöllina, á Mánagrund í Reykjanesbæ. Byggingin kostar um 80 milljónir króna en Mánafólk skuldar aðeins ríflega 2 milljónir króna í framkvæmdinni. Höllin var formlega vígð að viðstöddu fjölmenni sl. laugardag. Ítarlega er fjallað um vígsluna og myndir frá hátíðinni í Víkurfréttum sem koma út á morgun. Nánar í blaðinu á morgun. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Ný reiðhöll hestamannafélagsins Mána í Keflavík, Mánahöllin, var vígð með pompi og prakt laugardaginn 9. maí. Boðið var upp á hátíðardagskrá þar sem félagar í Mána, bæði börn og fullorðnir, sýndu listir sínar á eigin gæðingum, auk þess sem ýmsir góðir gestir koma í heimsókn. Húsið opnar klukkan 19.00. 
Mánahöllin er 70x26 metrar að flatarmáli. Þar af er reiðgólfið 60x20 metrar. Guðbergur Reynisson, formaður Mána, segir að reiðhöllin sem slík sé tilbúin til notkunar. Ennþá eigi þó eftir að fullklára áhorfendastúkuna og félagsheimilið, sem verður á efri hæð hússins.
„Við höfum sniðið okkur stakk eftir vexti við byggingu þessa húss. Byggingarkostnaður stendur nú í 80 milljónum króna, en við skuldum ekki nema 2,3 milljónir. Við munum ráðast í að ljúka húsinu þegar við sjáum fram á að við höfum efni á því. En það er komið í notkunarhæft ástand sem reiðhöll, sem er aðalatriðið,“ segir Guðbergur.
Snorri Ólason tilkynnti um skjöld sem keyptur hafði verið þar sem rita átti nöfn hesta sem valdir yrði glæsilegustu hestar komandi gæðingamóta. Endurvekja á þennan skemmtilega sið.
Gunnar Eyjólfsson var með sýnikennslu um umferðarreglur í Reiðhöllinni við mikinn fögnuð fundarmanna.
Mótanefnd útbjó reglur til að auðvelda val á íþróttamanni ársins. Þetta er stigatafla, þ.e. viss stig fyrir hvert sæti í hvaða móti. Sett voru stigalágmörk fyrir 10-15 ára. 400 stig þarf til að fá viðurkenningu fyrir góðan árangur. 1000 stig þarf til að koma til greina í val íþróttamanns Mána 16 ára og eldri Alexander Freyr Þórisson, Jóhanna Margrét Snorradóttir og Hafdís Hildur Gunnarsdóttir uppfylltu þessi skilyrði í flokki 10-15 ára og fengu þau verðlaunaskildi fyrir góðan árangur. Camilla Petra og Ólöf Rún Guðmundsdóttir komu til greina við val á íþróttamanni Mána. Þær stóðu sig frábærlega þetta ár en Ólöf Rún hlaut titilinn íþróttamaður Mána 2009. Hlaut hún farandbikar og verðlaunaskjöld í verðlaun. Camilla hlaut einnig skjöld fyrir góðan árangur.
2010
Aðalfundur Mána var haldinn þann 25. nóvember . Á dagskránni  voru meðal annars lagabreytingar, ákvörðun félagsgjalda og inntaka nýrra félaga. 
Formaður, Snorri Ólason gaf kost á sér til eins árs og var það samþykkt.
Guðbergur Reynisson var kosinn gjaldkeri
Böðvar Jónsson er ritari
Þeir Bjarni Stefánsson og Björn Viðar Ellertsson gáfu kost á sér í aðalstjórn til 2 ára. 
Félagsgjöld haldast óbreytt.
Félagar eru nú 512. Þrjátíu og þrír gengu í félagið á árinu og sami fjöldi úr félaginu.
Formaður kynnti val á íþróttamanni Mána og efnilegasta knapa Mána 2010. Efnilegasti knapi Mána 2010 varð Alexander Freyr Þórisson með stórglæsilegan árangur á árinu. Íþróttamaður Mána 2010 varð Sunna Sigríður Guðmundsdóttir sömuleiðis með glæsilegan árangur á árinu.
Camilla Petra Sigurðardóttir kynnti námskeið sem verða í vetur, en það eru knapamerki 1-3, stöðupróf í knapamerkjum 1-2 sem og almenn námskeið f.yngri félagana, byrjendur, lengra komna og einkatíma. Hún er nýútskrifuð úr Hólaskóla með reiðkennarapróf C. Nokkrar umræður sköpuðust um knapamerkin.
Jóhannesi Sigurðssyni var klappað lof í lófa fyrir flottar breytingar á félagsheimilinu.
Sagt var frá hugmynd sem Æskulýðsdeildin hafi sett fram á fundi þar sem ákveðið var að sleppa því að vera með á Æskan og hesturinn í Reykjavík og halda frekar okkar æskulýðs / fjölskyldudag í byrjun maí þar sem börn og fullorðnir verða með atriði og hestamennskan kynnt almenningi. Auglýst verði í skólum, leikskólum og bæjarblöðum.
Sigurður Ragnarsson kom með fyrirspurn um skýrslu stjórnar varðandi að Reykjanesbær hefði ekki staðið við sitt. Fannst honum það of hart orðað þar sem bærinn hefði stutt okkur vel. Einnig fagnaði hann umræðu um umgengni í hesthúsahverfinu og spurði hvort ætti ekki að taka á því. Finnst einnig frábært að við skulum halda íslandsmót barna nk.sumar.
Bryndís Líndal spyr hvort standi til að hafa fjölskyldudag eins og átti að vera í vor, í stað Æskunnar og hestsins. Snorri svaraði að vonandi yrði svo og sennilega yrði líka Dagur hestsins í haldinn í Reykjavík í byrjun apríl. Hann segir einnig frá því að bikarmót verði með öðru sniði þetta árið, það á að sleppa stuðningsmannakeppninni, þ.a.l. minni læti og fækkað í 3. Hann kom einnig að klæðningunni á reiðhöllinni en hún er ónýt og stendur til að skipta um klæðninguna fljótlega. Landstólpi sér um það.
Snorri hvatti félagsmenn einnig til að taka vel í námskeiðin sem Camilla verður með, þar sem hún er að byrja sem reiðkennari.
Margeir Þorgeirsson kom í pontu og sagði að hann hefði verið skipaður hundaeftirlitsmaður sl.vetur og það hafi gengið vel. Hann sagðist vera spenntur fyrir komandi vori og sumri, framundan væru Landsmót og íslandsmót.
Hann sagði einnig frá því að hann hefði fengið tilboð frá Skógarvinnslunni varðandi íslenskan spæni, hann væri ódýrari en spónninn sem í boði er núna. Hann óskaði Camillu velfarnaðar með námskeiðin.
Snorri þakkaði að lokum Gunnari Eyjólfssyni fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
  
2011
Hestamannafélagið Máni var stofnað 6. des. 1965, stofnfélagar voru 40. Í dag eru félagsmenn um 520 og aðstaða félagsins með þeim betri á landinu og félagsstarfið mikið og fjölbreytt. 
Snorri Ólason bauð sig fram til áframhaldandi setu sem formaður og var það samþykkt.
Aðrir í stjórn eru:
Guðbergur Reynisson
Böðvar Snorrason
Rúnar Bjarnason
Björn Viðar Ellertsson.
Fjörutíu hættu í félaginu en 10 nýir félagar bættust í hópinn. Mánamenn eru 475 árið 2011.
Víkurfréttir birtu sérlega greinargott og skemmtilegt viðtal við formann Hestamannafélagsins Mána, Snorra Ólafsson 2011og fer það hér á eftir:
„Hestamannafélagið Máni hefur hlotið æskulýðsbikar Landssambands hestamanna tvisvar sinnum, fyrst 2001 og svo árið 2007. 
Við tókum G. Snorra Ólason formann félagsins tali og fræddumst um starfsemi félagsins. Snorri byrjaði sjálfur í hestamennsku í kringum 6 ára aldurinn í sveitinni hjá ömmu og afa og hérna á svæðinu en þá voru hesthúsasvæðin ansi dreifð. 
Það voru t.d. kofar um Keflavík og Njarðvíkurnar og Turner-svæðið. Einnig í braggahverfinu þar sem Heiðarbólið er núna og fyrir ofan Háaleiti og hingað og þangað. Í kringum 19745 var byrjað að skipuleggja hesthúsahverfi við beitaraðstöðuna og í raun ræktaði félagið upp alla þessa beitaraðstöðu við Mánagrund, áður voru þetta bara melar og móar. Í dag tel ég þetta vera eitt flottasta hesthúsahverfi landsins og eitt það best skipulagða að mínu mati. Hesthúsin sjálf og aðstaðan eru rýmri en víða annars staðar og félagið á glæsilega reiðhöll og félagsheimili auk þess sem starfræktur er reiðskóli á Mánagrund yfir sumarið.
520 félagsmenn í Mána
Félagsmenn eru um 520 og telur Snorri það vera sjötta stærsta félagið á landinu. Félagsstarf er mikið og fjölbreytt og þá aðallega á veturna. Fólk á það til að færa sig um set á sumrin, margir eiga sumarhús og eru úti á landi með hrossin sín yfir sumartímann. Við erum eitt af fáum félögum í þéttbýli sem er með beitaraðstöðu hálft árið og því er fjöldi félagsmanna sem heldur kyrru fyrir hér árið um kring.
Hestur frá 200.000 kr.
Er dýrt að vera í hestamennsku? 
Já þetta getur verið það, en það er líka hægt að hafa þetta frekar hagstætt. Þú getur keypt þér þokkalegan hest á bilinu 200 þúsund og upp í nokkrar milljónir, hnakkur kostar frá 100-500 þúsund. Fólk á yfirleitt sinn eigin hest og margar fjölskyldur eiga nokkra hesta. Svo er hægt að leigja sér pláss, það kostar u.þ.b. 20 þúsund á mánuði með öllu. Stofnkostnaðurinn er kannski talsverður eins og í öðrum íþróttum eins og t.d. golfi eða skíðaiðkun. Oft hefur því verið haldið fram að kostnaður við að eiga hest sé svipaður og að reykja einn pakka af tóbaki á dag. 
Hvað er heillandi við hestamennskuna? Það er auðvitað útiveran og umgengnin við skepnurnar. Svo er þetta náttúrulega íþrótt og mikil keppni. Ég keppti mikið á mínum yngri árum og börnin mín gera það núna. Einnig er ég mikið að dæma. Þetta sameinar svo margt og er mikið fjölskyldusport. Þetta býður upp á svo mikið, ferðalagasport, félagslífið er gott. Svo er þetta auðvitað atvinnustarfsemi líka. Hér á svæðinu eru stórir og miklir ræktunarmenn sem eru að gera það mjög gott á landsvísu. Við leggjum mikla áherslu á æskulýðsstarf hjá Mána og stór hópur af ungum knöpum sem keppir reglulega á landsvísu eru mjög efnileg. Við reynum að styðja mikið við bakið á þessum krökkum og þjálfunaraðstaða er með besta móti. 
Yfirleitt koma ungir krakkar inn í íþróttina í gegnum foreldra sína en við rekum einnig reiðskóla á sumrin þar sem fólk getur kynnst hestamennskunni á ódýran hátt. Það eru nokkur dæmi um það að barnið hafi byrjað á námskeiði hjá okkur og svo í framhaldinu dregið alla fjölskylduna með.
Afreksknapar
Félagið á nokkra afreksknapa, sérstaklega í yngri flokkunum. Við höfum m.a. annars átt knapa á heimsmeistaramótinu sem er nú útskrifuð frá Háskólanum á Hólum sem reiðkennari og er margfaldur Íslandsmeistari en hún heitir Camilla Petra Sigurðardóttir. Erlendis er gríðarlegur áhugi á íslenska hestinum, sérstaklega í Norður Evrópu og Ameríku. Erlendis eru 200 þúsund íslenskir hestar á meðan hérlendis eru 70 þúsund og heimsmeistaramót íslenska hestsins orðið mikið og alþjóðlegt mót. Í Þýskalandi og á Norðurlöndunum eru gríðarlegir peningar í íslenska hestinum. Snorri telur hestamennsku alls ekki fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum en þó sé hún að aukast og hefur RÚV t.d. verið að standa sig mjög vel. Það eru mót að jafnaði hverja einustu helgi frá því um áramót og fram í september en þetta er íþrótt sem fær ekki nægilega mikla athygli þó svo að Landssamband Hestamannafélaga sé þriðja stærsta íþróttasambandið innan ÍSÍ. Það er töluvert mikið um það núorðið að fólk sé eingöngu að stunda hestamennsku á sumrin. Þetta fólk á ekki hesta en fer jafnan í útreiðartúra með hestaleigufyrirtækjum. Þetta er fólk sem vill kannski ekki binda sig of mikið en vill stunda þetta á sumrin. Hjá Íshestum í Hafnarfirði er t.d. hægt að koma nokkrum sinnum í viku og leigja jafnvel sama hestinn 
Áfengið heyrir sögunni til
Snorri segir það heyra fortíðinni til að áfengi sé haft um hönd á hestbaki. Þetta er ekkert orðið miðað við hvernig þetta var og það er undantekning ef að það sést vín á fólki á hestbaki. Fólk fær sér að sjálfsögðu í útreiðartúrum og slíkt, rétt eins og fólk gerir í veiðiferðum eða í golfskálanum. Menn ríða út yfir daginn og fá sér svo kannski einn tvo bjóra í bústaðnum á kvöldin, en það er af sem áður var.
Verða menn helteknir af þessu, verður þetta della?
Já, það verða mjög margir gjörsamlega helteknir af þessu. Það fer mikill tími í þetta hjá mörgum en fólk getur svo sem haft sína hentisemi í þessu en hjá mjög mörgum verða menn helteknir af þessu og mestur frítíminn fer í þetta. Hjá mér er það soldið þannig, við erum öll fjölskyldan í þessu og okkar frítími fer að mestu leyti í hestamennsku. Foreldrar mínir voru í þessu og afi minn og frændi, þannig að fjölskyldutengslin eru mikil í þessu, enda mikið fjölskyldusport.Fyrir byrjendur myndi Snorri mæla með því að fara fyrst í reiðskólann hjá þeim sem hefst núna í þessari viku og stendur fram að verslunarmannahelgi. Eina sem þarf að gera er að mæta í viðeigandi góðum fatnaði. Allt annað er skaffað á staðnum, hestur, hjálmur og allt tilheyrandi.“
Sjötta stærsta hestamannafélag landsins  
Hestamannafélagið Máni stóð fyrir Íslandsmóti yngri flokka í hesta íþróttum og hófst fjörið fimmtudaginn 21. júlí og stóð fram á sunnudag. Yfir 430 keppendur voru skráðir til leiks en Máni hélt síðast Íslandsmót yngri flokka árið 2005. Fyrstu tvo dagana lék veðrið við keppendur sem og aðra en svo tók að hvessa verulega seinni dagana tvo. Það létu keppendur ekkert á sig fá og eignuðust Mánamenn Íslandsmeistara þegar Jóhanna Margrét Snorradóttir og hesturinn Flaumur frá Leirulæk sigruðu í fimmgangi unglinga en hún vann einnig unglingaflokk á Landsmóti hestamanna fyrir skömmu. Jóhanna Margrét hafnaði einnig í þriðja sæti í fjórgang á hestinum Bárði frá Skíðbakka. Ásmundur Ernir Snorrason sem er einmitt bróðir Jóhönnu Margrétar hafnaði í þriðja sæti í fjórgang ungmenna og varð fjórði í tölti á hestinum Rey frá Melabergi. Sunna Sigríður Guðmundsdóttir og Skálmar frá Hnjúkahlíð frá Mána komst svo í A úrslit í T4 töltkeppni ungmenna og endaði í 5 sæti. Nadía Sif Gunnarsdóttir og Tara frá Hala komust í B úrslit í 4-gangi barna og enduðu í 10 sæti. Aðrir keppendur frá Mána stóðu sig með mikilli prýði og voru félagi sínu til mikils sóma.
  
2012
Á aðalfundi Mána 22.nóvember voru meðal annars á dagskrá lagabreytingar, ákvörðun félagsgjalda og inntaka nýrra félaga.
Snorri Ólason gaf kost á sér áfram og var kosinn til eins árs.
Böðvar Snorrason og Helga Halldórsdóttir voru kosin til tveggja ára
Björn Viðar Ellertsson og Rúnar Bjarnason sitja eitt ár í viðbót
í varastjórn sitja Bryndís Líndal og Sigrún Pétursdóttir
Guðbergur Reynisson gengur úr stjórn. 
Þórhalla Sigurðardóttir afhenti félaginu formlega hátíðarfána sem Kvennadeild Mána gaf félaginu. Félagið hafðir alltaf vantað svona fána og tók Þórhalla fram að Ásta Karitas Aðalsteinsdóttir hefði átt allan heiðurinn að láta gera hann og koma honum á staðinn. 
Fram kom að Máni væri með 12% iðkenda ÍRB af 15 íþróttagreinum og að félagið skuldaði minnst af öllum og ætti mestu eignirnar.
Íþróttamaður ársins var valinn samkvæmt stigagjöf stjórnar Mána og hlaut þann titil Ásmundur Ernir Snorrason með 30-90 stig. Ásmundur náði glæsilegum árangri á árinu og var m.a. valinn efnilegasti knapi landsins. Fram komu hugmyndir um að eiga hesthús til að leigja á sanngjörnu verði til nýliða. Önnur hugmynd var að safna saman lausum plássum í hverfinu og úthluta þeim sem vantar. Fundarmenn lýstu ánægju með lýsinguna sem verið var að bæta við hjá reiðhöllinni og jafnvel niður að Garðvegi. Stefnan var tekin á að lýsa upp tryppahringinn í framtíðinni. 
Framhaldsaðalfundur Hestamannafélagsins Mána var haldinn þann 23. febrúar sl. í félagsheimili Mána að Mánagrund. Á milli 30 og 40 manns sáu sér fært að mæta á fundinn og er það með ágætum. Gjaldkeri félagsins, Guðbergur Reynisson, skýrði frá reikningum félagsins en hagnaður félagsins nam 1.850.000.- árið 2011 og er það mest að þakka Íslandsmóti barna og unglinga sem haldið var á Mánagrund árið 2011 þar sem flest allir félagsmenn lögðu hönd á plóg. Eignir félagsins hafa einnig aldrei verið meiri en þær eru samkvæmt ársreikningi 195 milljónir og skammtímaskuldir 61.000 um áramót 2011-12, en langtímaskuldir eru engar. Helstu eignir eru Mánahöllin, stórglæsileg reiðhöll félagsins, sem tekin var í notkun árið 2009. Félagsheimilið að Mánagrund sem vígt var 1996, hringvöllur félagsins, dómskúr, reiðvegir og tamningagerði félagsins bæði á Mánagrund og í Grindavík.

 
Mikil gróska í félagsstarfi Mána
Gríðarleg stemmning hefur verið á árshátíðum Mána síðastliðin ár og er nú svo komið að uppselt var á hátíðina 18. mars sl. Mánafélagar sáu sjálfir um öll skemmtiatriði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, enda eru hestamenn glaðlynt fólk sem kann að skemmta sér og öðrum í sátt og samlyndi.
Eins og hjá mörgum öðrum, hefur veðráttan í vetur sett sitt mark á allt starf og leik hjá hestamönnum, reiðvegir meira og minna lokaðir. Eina reiðleiðin sem hægt er að notast við er Helguvíkurvegurinn, en hann er óupplýstur og liggur yfir hraðbraut. Hann er hin mesta slysagildra, en þrátt fyrir það láta menn ekki bugast og notast við það sem nýtilegt er, og bíða betra veðurs.
Mikill uppgangur hefur verið í öllu starfi hjá Mána síðustu ár. Menn hafa tekið sig saman í andlitinu varðandi viðhald og endurbyggingu hesthúsa. Flestir eru komnir með lokaðar útiþrær og óhætt að fullyrða að þessi jákvæða breyting er félaginu til framdráttar á mögum sviðum. Nýir félagar hafa bæst í félagið og nú er litið á hestaíþróttina sem fjölskylduvænt áhugamál og íþróttaiðkun, enda hefur Máni blandað sér í toppbaráttuna á helstu hestaíþróttamótum á landinu. Menn hugsa sér því gott til glóðarinnar á Landsmótinu sem haldið verður í byrjun júlí á sumri komanda. 
Mikið og gott unglingastarf hefur verið unnið hjá Mána, og var til þess tekið í vetur þegar öll helstu hestamannafélög á Stór-Reykjavíkursvæðinu héldu sameiginlega árshátíð, hve margir komu frá Mána og hve framkoma þeirra þar var til mikillar fyrirmyndar. Nú líta mörg félög á Mána sem fyrirmynd að þessu leyti.
Talandi um aukin áhuga á hestamennsku, má benda á að sl. vetur voru haldin reiðnámskeið á vegum Mána, með bestu reiðkennurum sem völ var á , bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Um 100 manns fóru á þessi námskeið, og er nú talið að um 500 hross séu í hverfinu.
Stofnuð hefur verið Hrossaræktunardeild Mána og hafa nokkrir fyrirlesarar mætt í félagsheimili Mána og frætt félaga um hrossaræktun, enda eru nokkrir félagar á kafi í hrossarækt. Einn þeirra, Brynjar Vilmundarson, er orðinn helsti ræktandi á landinu, og hefur fengið viðurkenningu sem slíkur.
Blikur eru nú á lofti varðandi reiðhöllina, en hún hefur verið sett á sölu, og væri það mjög slæmt að missa þessa aðstöðu. Reiðhöllin hefur lagt grunn að þeirri framþróun sem hefur átt sér stað í félaginu, varðandi námskeiðahald, þ.e. reiðkennslu, tamningar, járninganámskeið, einkatíma, undirbúning fyrir mót, innimót og annarri starfsemi fyrir félagið. Það er von okkar að þessi mál leysist á farsælan hátt öllum í hag.
  Úr Víkurfréttum 2012
  
2013
Framhaldsaðalfundur Mána 2013 Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Gjaldkeri skýrir frá reikningum félagsins og þeir bornir undir samþykkt fundarmanna. 
Snorri Ólason formaður setur fundinn og tilnefnir Hlyn Kristjánsson sem fundarstjóra og Þóru Brynjarsdóttur fundarritara. Samþykkt. Hlynur athugar lögmæti fundarboðs sem er samþykkt og fer yfir dagskrá fundarins.
Guðbergur Reynisson fráfarandi gjaldkeri fer yfir reikninga ársins 2012.Margeir Þorgeirsson gerir athugasemd við útistandandi beitar- og félagsgjöld. Guðbergur gerir grein fyrir því að nú séu sendir greiðsluseðlar fyrir beit og félagsgjöldum og því séu gjöldin innheimt seinna.Hlynur spyr um tamningagerði og hringvöll í Grindavík, hvort Brimfaxi kaupi þessar eignir ekki af Mána. Snorri svarar að Máni eigi ennþá félaga í Grindavík og því eigi Máni þessar eignir ennþá. Guðbergur þakkar fyrir sig. Reikningar samþykktir.
Lárus Þórhallsson spyr hvort ekki eigi að bæta loftræstingu í reiðhöllinni. Snorri svarar að það sé í vinnslu.
Guðmundur Gunnarsson spyr um göturnar í hverfinu, hvort það sé virkilega ekki hægt að gera eitthvað fyrir þær, þær séu skelfilegar og ómögulegar. Stjórnin svarar að félagið eigi göturnar og það kostar miklar fjárhæðir að laga þær en bærinn sé að skoða þetta með stjórninni og hvað sé hægt að gera.
Hlynur biður félagsmenn að ganga betur um reiðhöllina, það sé ekki borin nógu mikil virðing fyrir þessari glæsilegu eign okkar félagsmanna. Húsið er farið að láta á sjá og vill hann að fólk hugsi um að ganga betur um. Gunnar Eyjólfsson vill koma því á framfæri að það séu einstaklingar sem ganga virkilega vel um höllina og beri að þakka fyrir það.
Borgar Jónsson þakkar fyrir lýsinguna sem komin er niður fyrir hringvöll, það sé mikill munur.
Haukur Aðalsteinsson bendir á að það vanti peru í undirgöngin við byggðina, Snorri svarar að bærinn eigi að redda því og þetta sé í vinnslu.
Gunnar Eyjólfsson spyr hvað lýsingin kostaði niður að hringvelli og hvort það kosti mikið að bæta við hana, t.d. að setja lýsingu tryppahringinn. Stjórn svara að það sé verið að skoða framhaldið og verði vonandi að veruleika fyrr en síðar.
Linda Helgadóttir spyr hvort það verði bara eitt vetrarmót í vetur. Snorri svarar fyrir hönd mótanefndar að nefndin hafi sett bara eitt vetrarmót á (vetur en hinsvegar gæti vel verið að bætt verði við móti ef áhugi er fyrir hendi. Mikið annað sé í boði m.a. æfingamót sem fram fer 5. apríl sem sé fyrir alla.
Hlynur spyr af hverju Brimfaxi sé með okkur í Mánaþinginu. Snorri svarar að það sé til hagræðingar fyrir bæði félög.
Snorri ræðir dagskrá vetrarins og kemur svo þeirri hugmynd á framfæri hvort ekki sé sniðugt að fara að huga að sögu félagsins þar sem Máni verði 5o ára eftir 2 ár. Spurning hvort ætti að stofna nefnd til að byrja að safna efni. Þetta muni kosta eitthvað og Snorri spyr hvort félagsmenn séu sáttir við að stjórnin fari að skoða þetta mál. Fundarmenn samþykkir því.
Snorri þakkar Hlyn fyrir góðar ábendingar varðandi reiðhöllina og bendir félagsmönnum á að spyrja fólk hvort það sé í félaginu og einnig að menn sem séu með leigjendur bendi þeim á að ganga í félagið.
Aðalfundur Mána 2013 var haldinn miðvikudaginn 20. nóvember. Snorri formaður setti fundinn og tilnefndi fundarstjóra Guðberg Reynisson og fundarritara Þóru Brynjarsdóttir.  Guðbergur spurði salinn hvort fundurinn væri löglega boðaður. Það var samþykkt. Snorri las skýrslu stjórnar og skýrslur kvenna-, ferða- og mótanefndar. Sigrún Pétursdóttir las upp skýrslu fræðslunefndar. Linda Helgadóttir las upp skýrslu æskulýðsdeildar og Margeir Þorgeirsson las skýrslu ræktunarnefndar. Skýrslur samþykktar. 
Snorri gaf kost á sér áfram til formennsku og var það samþykkt. Borgar Jónsson og Sigrún Pétursdóttir buðu sig fram í stjórn til 2 ára. Helga Halldórsdóttir og Böðvar Snorrason gáfu kost á sér áfram. Þorvaldur Þorvaldsson og Kristmundur Hákonarson gáfu kost á sér í varastjórn. Samþykkt. Úr stjórn gengu Rúnar Bjarnason og Björn Viðar Ellertsson ásamt Bryndísi Arnbjörnsdóttur úr varastjórn. Samþykkt. 
Jóhann Magnússon formaður ÍRB kom í pontu og sagði nokkur orð, hann hefur komið á fundi í 12 ár samfleytt. Hann sagði að Mánamenn væru með mestu aðsókn á aðalfundi félags innan ÍRB. Hann óskaði nýjum stjórnarmönnum góðs gengis og þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum góð störf. Hann ítrekaði það sem hann sagði á fundi síðasta árs að Máni væri langsamlega eignamesta félag innan ÍRB og eina félagið sem væri skuldlaust. Það eru 18 íþróttagreinar stundaðar innan ÍRB. ÍRB er að undirbúa skýrslu um stöðu og störf íþróttafélaganna 18 síðustu 10 ár, svo sem um fjölda iðkenda, sjálfboðaliðastarf og styrki o.fl. þetta er gert með því að skoða skýrslur félaganna til ÍSÍ. 
Gyða Sveinbjörg fékk árangursverðlaun yngri flokka 2013. Jóhanna Margrét Snorradóttir fékk árangursverðlaun eldri flokka 2013. Ásmundur Ernir Snorrason var íþróttamaður Mána 2013
Veittar voru viðurkenningar fyrir hæst dæmda hross í eigu Mánamanns og einnig fyrir hæst dæmda hross ræktað af Mánamanni. Í ár kom það í hlut Vilbergs Skúlasonar að fá báðar viðurkenningar þar sem hann er bæði ræktandi og eigandi Feldísar frá Ásbrú. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,33, kosti 8,34 og í aðaleinkunn 8,34.
Helga Halldórsdóttir las upp nýja félaga sem koma 16 nýir inn. 48 hætta í félaginu. 
Haraldur Valbergsson benti á að honum fyndist hesthúshverfið okkar með því snyrtilegasta sem sést en alltaf má gera betur. Hann vill að hestakerrur sem geymdar séu á götunum fyrir utan hesthúsin séu geymdar á kerrustæðum við reiðhallirnar. Hann vill líka benda fólki á að ganga betur frá endum á plastrúllum. Þeir séu stundum ekki vel frágengnir og þá fjúka þeir um allt og valda slysahættu. Einnig vill hann að fólk drepi á bílum þegar það skreppur inní kaffi til náungans.
Borgar Jónsson vill að gert verði eitthvað í lausagöngu hunda á svæðinu. Þetta sé bannað. Linda tók undir þetta en sagði að sumir séu mjög samviskusamir með sína hunda og passi að þeir séu ekki lausir en svo eru aðrir sem gera það ekki.
Stella Sólveig vill að fólk tali við viðkomandi eiganda lausra hunda og biðji þá um að taka þá í stað þess að tuða í sínu horni.
Snorri þakkaði ábendingarnar og segir að unnið verði í þessu. Hann var ánægður með mætingu og hvatti fólk til að koma og vinna í nefndum, það sé ekki hægt að vera alltaf með sama fólkið í öllu.
Birni Viðari voru þökkuð góð störf eftir langan tíma í stjórnarsetu. Björn Viðar þakkar fyrir sig og segist stoltur Mánamaður.
  
2014
Aðalfundur Mána var haldinn þann 25 nóvember 2014 og var mjög góð mæting á fundinn. Talsverðar breytingar urðu á stjórn Mána að þessu sinni. Í stjórn og nefndir voru kjörnir:
Stjórn.
Formaður Gunnar Eyjólfsson
Varaformaður Borgar Jónsson
Gjaldkeri Þóra Brynjarsdóttir
Meðstjórnendur: Sigrún Pétursdóttir. Kristmundur Hákonarson.
Varamenn: Gunnar Auðunsson,Sigurður Kolbeinsson.
Úr stjórn gengu þau Snorri Ólason, Böðvar Snorrason, Helga Halldórsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson